AMX og Evrópuvaktin
27.7.2011 | 08:30
Ég er einn af þeim sem lít nánast daglega á hina ýmsu vefmiðla, sérstaklega þá sem rita um Evrópumál og pólitík. Breytir þar einu hvort ég er sammála þessum miðlum eða ekki, enda öllum hollt að skoða mál út frá sem víðustu sjónarhorni.
Eftir að fréttir bárust af því að ríkisstjórnin væri búin að missa tökin á verðbólgunni hafa einhverjir ákveðnir pistlahöfundar á AMX og Evrópuvaktinni farið hamförum og kenna þar nýgerðum kjarasamningum um. Þvílík öfugmæli!!
Svo ramt hefur borið á þessum áróðri þessara pistlahöfunda að vart er hægt að fara inn á þessa vefi lengur. Látum vera þó AMX sé með svona áróður, en að Evrópuvaktin skuli gera það sama er aftur verra. Þessi miðill sem hefur verið duglegastur allra miðla að flytja fréttir að vettvangi ESB og að gagnrýna þá helferð sem verið er að draga okkur í á þeim vettvangi, er með þessum áróðursskrifum um launahækkanir og verðbólgu, að grafa undan trúverðugleik sínum.
Það lá ljóst fyrir að kjarasamningarnir myndu leiða til verðbólguskots, ef ekkert annað yrði gert. Og þar liggur hundurinn grafinn. Stjórnvöld lofuðu aðgerðum til mótvægis við og til hjálpar fyrirtækjum landsins. Þessu trúðu forsvarsmenn atvinnulífsins, jafnvel þó þessi ríkisstjórn hafi marg sýnt að hún er ekki trúverðug! Þó á það verðbólguskot eftir að koma fram, svo stjórnvöld hafa enn tíma til að hysja upp um sig buxurnar.
Þá er merkilegt að ætla að verðbólgan skuli hoppa upp um rúm 3% þegar laun hækka einungis um 4%. Sá reikningur gengur einfaldlega ekki upp. Flest fyrirtæki, sem eitthvað framleiða, þurfa fleira en vinnuaflið, þau þurfa væntanlega eitthvað hráefni, orkugjafa og tæki einnig. Oftar en ekki er sá hluti mun stærri en launakostnaður. Þá má ekki gleyma skattlagningu stjórnvalda.
Þá er merkilegt er að menn skuli kenna nýgerðum kjarasamningum um þetta verðbólguskot nú þar sem þeir tóku ekki gildi fyrr en við síðustu mánaðarmót, eða eftir það tímabil sem verðbólguskotið myndaðist.
Ástæður þessa verðbólguskots nú er ekki hægt að rekja til nýgerðra kjarasamninga, nema því aðeins að fyrirtækin hafi tekið forskot á sæluna og hækkað sínar vörur og þjónustu fyrirfram. Getuleysi stjórnvalda til að hafa stjórn á efnahgsmálunum og getuleysi til að koma atvinnulífinu af stað er mun líklegri ástæða.
Það er ljóst að fjármál ríkisins hafa farið úr böndum og að sjálf sögðu ætlar fjármálaráðherra að leysa það með aukinni skattlagningu, enda kann hann engin önnur ráð. Að taka á vandanum, óstjórn í rekstri ríkisins, er ofar hans skilning.
Það væri nær fyrir pistlahöfunda AMX og Evrópuvaktarinnar að halda sig við það sem þeir gera best, AMX í spaugilegri gagnrýni á stjórnvöld og Evrópuvaktin í fréttaflutningi frá Evrópu og þó sérstaklega ESB og gagnrýni á það ferli sem verið er að draga okkur út í á þeim vettvangi.
Ef þessir miðlar ætla að breyta stefnu sinni er hætt við að fyrir þeim fari eins og sumum öðrum vefmiðlum, að þeir verði einskonar eyði eyja í heimi vefmiðla!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.