Hinn birtri sannleikur
1.6.2011 | 10:51
Hinn bitri sannleikur er að renna upp fyrir þingmönnum VG. Nú, þegar óðum styttist til kosninga eru þeir að vakna upp við þann slæma draum að mestar líkur eru á að flokkurinn gjaldi afhroð í þeim.
Því er nú gripið til gamalkunnra mála sem oft áður hafa dugað flokknum, andstöðu við NATO.
Þetta úrræði þeirra mun þó lítið hjálpa þeim, þeir sem aðhyllast þessa skoðun munu alltaf kjósa þann flokk sem skilgreinir sig lengst til vinstri í íslenskri pólitík, nú VG. Því mun þetta mál VG liða einungis höfða til þeirra sem kjósa flokkinn alltaf, hversu langt sem gengið er í svikum við kjósendur.
Ef VG liðar ætla að reyna að bjarga andlitinu verða þeir að bæta fyrir þau afglöp sem þeir hafa gert.
Fyrsta verk þeirra ætti að vera að bæta fyrir fyrstu og stæðstu svikin við kjósendur sína, þau svik sem gerð voru til að komast í ríkisstjórn, ESB aðildarumsóknina. Aðildarumsóknin var samþykkt á Alþingi fyrir tilstuðlan og með samþykki VG. Þingmenn flokksins verða allir sem einn að hætta öllum stuðningi við það mál og fara að vinna á fullu gegn allri aðlögun vegna þess.
Þá ættu þingmenn VG að huga að því hvernig þeir geti tekið til baka þau svik sem þeir hafa staðið að til varnar fjölskyldum landsins. Sú staða sem þeir hafa tekið, ásamt samstarfsflokknum, með fjármálaöflunum gegn fjölskyldum og fyrirtækjum er einstök. Fyrir þessi mistök sín verða þeir að bæta. Sérstaklega gjörð formanns flokksins þegar hann afhenti erlendum vogunarsjóðum tvo af þrem stæðstu bönkum landsins og að auki gaf veiðileifi á lántakendur. Hvernig VG getur bætt fyrir þessi mistök sín verður vandséð, en það er þó grundvöllur þess að flokkurinn fái lifað.
Icesave samningarnir voru enn ein svik flokksins við kjósendur sína. Ekki er þó að sjá að forusta flokksins ætli að bæta úr þar. Í raun er lítið hægt að bæta, þar sem þjóðin tók þetta mál í sínar hendur af stjórnvöldum og hafnaði því. Þó gæti forustan beðist afsökunar og viðurkennt eigið dómgreindarleysi í málinu. En það er öðru nær að hún sýni tilburði til þess, þvert á móti þá er forustan enn að reyna réttlæta þetta mál, þó gjörsamlega útilokað sé að gera slíkt.
Þetta eru sennilega stæðstu málin af fjölmörgum sem VG hefur staðið að og er í andstöðu við stefnu og loforð flokksins.
Nú styttist óðum í kosningar og þingmenn VG eru að átta sig á að valdið var kannski full dýru verði keypt. Þeir hafa þó ekki kjark til að taka á þeim málum sem mestu skiptir, heldur er þyrlað upp ryki með málefnum sem litlu eða engu máli skipta.
Tillaga um úrsögn úr NATO er fyrir fram glatað mál, það næst ekki meirihluti fyrir því á þingi og það vita þingmenn VG. Þá er öllum ljóst hvaðan hugmyndir um sígarettusöluna kemur, þó tekist hafi að að véla þingmenn annara flokka í það mál og útbrunninn þingmaður úr stjórnarandstöðunni látin flyja það. Þingmaður sem reynir af veikum mætti að leita allra leiða til hjálpar í vonlausu baráttu við að halda þingsæti í næstu kosningum.
Vinstri grænir eru vissulega gólftuska Samfylkingar. Það skeði strax við upphaf stjórnarsamstarfsins. Það er gott að þingmenn flokksins eru loks að vakna upp af Þyrnirásrasvefni sínum og átta sig á staðreyndum.
Í síðustu kosningum vann þessi flokkur stór sigur. Því lá beinast við að hann færi í ríkisstjórn. Þegar forusta flokksins settist að samningaborði við Samfylkinguna, sem rétt náði að halda í horfinu, var VG í lykilstöðu. Þeir voru sigurvegararnir og gátu því verið ráðandi við samningsborðið. Löngunin í völd var þó skynseminni yfirsterkari og létu þeir undan öllum kröfum Samfylkingar. Þetta leiddi til þess að þingflokkurinn klofnaði við stjórnarmyndunina og ríkistjórnin því þurft að eyða miklum tíma og mikilli orku vegna þess.
Meirihluti þingmanna flokksins voru samþykkir þessum svikum við kjósendur, en nokkrir gátu ekki eða höfðu ekki samvisku til þeirra svika. Þeir hafa verið úthrópaðir.
Í raun missti ríkisstjórnin meirihluta sinn við stjórnarmyndunina en hefur náð að halda þingmeirihluta með því að láta eftir ráðherrastóla til "órólegu deildarinnar". Þá má ekki gleyma því að ríkiasstjórnin fékk óvæntan stuðning þegar þingmaður, sem kosinn var á þing fyrir annað sjórnmálaafl, ákvað að yfirgefa það stjórnmálaafl sem kom honum á þing og ganga til liðs við VG. Hann hefur sennilega verið svo hrifinn af því hvernig VG sveik "hálfvitana" og því ákveðið að gera það sama og fullkomna það með því að ganga í VG!
Það er deginum ljósara að kjósendur flokksins voru mjög ósáttir við þessi svik. Þetta eru nú þingmenn og forusta VG að átta sig á, en líklega er það þó of seint.
VG hefur örugglega misst allt umframfylgi sem þeir fengu í síðustu kosningum, það fylgi sem gerði sigur þeirra svo stórann. Margir af föstu kjósendum flokksins sætta sig ekki heldur við svikin. Eftir er þröngur hópur fólks sem mun kjósa flokkinn fram í rauðann dauðann, þeir skila sínu atkvæði í kassann. En sá hópur er smár. Það er einmitt sá hópur sem tillaga þingmanna VG um úrsögn úr NATO nær til.
Þingmenn VG, flestir, hafa glatað trúverðugleika sínum. Ekki eykst hann við það dómgreindarleysi að ætla að sækja fylgi til þess hóps sem er öruggur. Það mun að vísu hugsanlega sjá til þes að flokkurinn lifi, en þá aðeins sem örflokkur. Hugsanlega eru þingmenn flokksins komnir á þá skoðun að betra sé að verja það litla fylgi sitt, til að flokkurinn fái að tóra, að ekki sé lengur möguleiki að hugsa lengra.
Gólftusku uppnefnið, sem n.b. kemur kemur frá ráðherra flokksins, mun fylgja honum áfram. Meðan þingmenn flokksins leifa samstarfsflokknum að nota sig sem gólftusku, verða þeir það!
Það er algerlega í valdi þingmanna VG að hrista eigið uppnefni af sér, en þá verður líka að verða mikil stefnubreyting innan þeirra raða, þó sérstaklega hjá formanninum!!
Ekki er þó að sjá að það muni gerast.
VG eins og gólfmotta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég hef ekki trú á því að það muni nokkur maður með viti kjósa VG aftur, og allra síst með þennan formann . Og ekki heldur Samfylkinguna!!
Eyjólfur G Svavarsson, 2.6.2011 kl. 01:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.