Hvernig pípur eru í stjórnarráðinu ?
24.4.2011 | 05:19
Þetta er orðið frekar þunnt hjá stjórnvöldum. Það er talað um "eftir helgi", "handan við hornið" og nú "í pípunum". Eilíf loforð um eitthvað sem er alveg að fara að ske en ekkert gerist!
Þetta nýja slagorð "í pípunum" vekur upp spurningu hvaða pípum. Eða hvernig pípur eru notaðar í stjórnarráðinu?
Var kannski fengið sér í einni pípu eða svo, þegar aðgerðarpakki heimilanna var saminn? Það skýrir þá hvers vegna sá pakki varð svo gagnlaus sem hann er. Var kveikt í einni pípu áður en ríkisstjórnarfundurinn á Suðurnesjum var haldinn? Nokkrar pípur hafa sjálfsagt verið reyktar í icesavemálinu. Svona væri lengi hægt að telja. Að minnsta kosti gæti það skýrt getuleysi og vandræðagang ríkisstjórnarinnar.
Steingrímur talar mikið um aukningu í ferðaþjónustu. Það er vissulega vonandi að hún muni aukast og dafna. En hvað hefur hann sjálfur gert til að auka veg hennar? Hann hefur aukið skatta!! Eldsneytisskatturinn bitnar verulega á ferðaþjónustunni. Þá hafa auknir skattar verið lagðir á ferðir til og frá landinu. Steingrímur hefur í raun gert allt til að halda niðri ferðaþjónustunni í landinu, í stað þess að liðka fyrir. Því ætti þessi maður að skammast sín fyrir að tala um að hann vonist til að hún muni aukast!! Fyrst þarf hann að sýna það í verki að sú von sé raunveruleg!!
Og enn klifar Steingrímur á að leiðin liggi uppá við. Vissulega má merkja að eitthvað hafi batnað, þó það nú væri. Við lentum í algeru hruni og því ekki óeðlilegt að eitthvað skuli vera farið að lagast, eftir tvö og hálft ár! Það er þó ekki stjórnvöldum að þakka, síður en svo. Það sem lagast hefur, hefur gert það þrátt fyrir ríkisstjórnina.
Þá má ekki gleyma þeirri staðreynd að sá bati sem Steingrímur talar um er fyrst og fremst í einhverjum tölum frá AGS og SÍ. Enginn bati er enn hjá heimilum landsins, þó tvö og hálft ár séu liðin frá hruni. Þar er enn sama óvissan og fyrst eftir hrun. Atvinnuleysið hefur ekki minnkað, þó opinberar tölur segi að einhverja minnkun megi merkja. Sú minnkun stafar fyrst og fremst af því að nú eru þeir sem lengst hafa verið á atvinnuleysiskrá að detta út af henni og færast á framfæri sveitarfélaga!
Ef rétt og vel hefði verið staðið að málum þessi tvö og hálfa ár frá hruni, væri staðan mun betri. Ef ríkisstjórnin hefði ekki verið í eilífum deilum innanhúss, væri staðan mun betri. Ef ráðherrar ynnu ekki hver gegn öðrum, væri staðan mun betri.
Og síðast en ekki síst, ef ekki væri verið að nota tíma og fé í vonlaust aðlögunarferli, væri staðan miklu mun betri!!
Þessi ríkisstjórn er óstarfhæf og hefur verið það frá upphafi. Því er nauðsynlegt, ef ekki á illa að fara, að koma henni frá sem fyrst!!
Tveggja ára stjórnleysi er lengri tími en nokkurt þjóðfélag þolir!!
Fjárfesting í pípunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll.
Það litla sem hér hefur gerst hefur gerst þrátt fyrir ríkisstjórnina en ekki vegna hennar.
Helgi (IP-tala skráð) 24.4.2011 kl. 09:10
Ættli það séu ekki bara hasspípur?
Eyjólfur G Svavarsson, 24.4.2011 kl. 15:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.