Að fara eftir eigin sannfæringu

Samkvæmt málflutningi oddvita stjórnarflokkana og nokkurra stjórnarliða, við umræðuna um vantrausttillöguna, er sannfæring þessa fólks nokkuð skýr.

Stjórnarliðið trúir því að ríkisstjórninni hafi tekist vel til við þá uppbyggingu sem þurfti eftir hrun bankanna.

Stjórnarliðið trúir því að leystur hafi verið vandi þeirra fjöldskyldna sem verst standa í þjóðfélaginu.

Stjórnarliðið trúir því að hlutur aldraðra og öryrkja hafi verið gerður betri en áður var.

Stjórnarliðið trúir því að vandi þeirra fyrirtækja sem verst standa hafi verið leystur.

Stjórnarliðið trúir því að mikil uppbygging sé hafin í atvinnulífinu.

Stjórnariðið trúir því ríkisstjórnin sé sterk.

Og síðast en ekki síst er það sannfæring stjórnarliðsins að höfuð andstæðingur þeirra í pólitík, Sjálfstæðisflokkurinn sé klofinn.

En er þetta rétt? Trúir stjórnarliðið þessu? Er þetta sannfæring þeirra? Varla.

Ef þetta væri þeirra einlæga trú og sannfæring hlytu þessir þingmenn að fagna kosningum. Þeir hlytu þá að vilja kosningar áður en Sjálfstæðisflokknum tækist að græða sín sár, ef einhver eru.

Ef þetta væri virkilega trú og sannfæring stjórnarliða, ættu þeir glaðir að ganga til kosninga.

Staðreyndin er þó einföld.

Stjórnarliðið veit að ríkisstjórninni hefur mistekist flest af því sem hún hefur gert.

Stjórnarliðið veit að vandi fjöldskyldna landsins er mikill og eykst dag frá degi.

Stjórnarliðið veit að kjör aldraðra og öryrkja hefur sjaldan verið verri.

Stjórnarliðið veit að vandi verst stöddu fyrirtækjanna er enn óleystur og þar stefnir í mikla vá.

Stjórnarliðið veit að uppbygging í atvinnulífinu gengur mun hægar en áætlað var og forsemdur ættu að vera fyrir.

Stjórnarliðið veit að ríkistjórnin stendur á brauðfótum.

Og stjórnarliðið heldur í þá veiku von að Sjálfstæðisflokkurinn sé klofinn.

Allt þetta vita stjórnarliðar, en þeim er slétt sama. Fyrir þeim eru markmiðin einungis tvö, eftir því í hvorum stjórnarflokknum þeir eru. Stjórnarliðar annars flokksins hugsa um það eitt að hafa völd og stjórnarliðar hins hafa það eina markmið að koma Íslandi undir erlend yfirráð.

Þess vegna forðast ríkisstjórnin kosningar, eins og heitann eldinn!!


mbl.is Vantrauststillaga felld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Asskoti er farið að anda köldu Gunnar, þú ert bara orðinn helblár!

Bergljót Gunnarsdóttir, 14.4.2011 kl. 19:35

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæl Bergljót. 

Blár verð ég aldrei, ekki frekar en rauður.

Það eru þó ekki hið pólitíska litróf sem nú skiptir máli, enda ekki að sjá að það skipti svo miklu máli hvaða lit menn vilja einkenna sig með eftir að þeir eru komnir á þing.

Fyrir mér er tvennt sem mestu máli skiptir í dag.

Annars vegar að þessi ríkisstjórn, sem virðist ekki getað leyst þann vanda sem henni var falið að leysa, fari frá.

Hins vegar að kosnir verði nýjir fulltrúar á alþingi. Það er ljóst að þegar hugur þingmanna er svo langt frá hug þjóðarinnar eins og fram kom í kosningunni um síðustu helgi, á að rjúfa þing og boða nýtt.

Stæðsta og brýnasta málið er þó að stöðvað verði það aðlögunarferli sem við erum í gagnvart ESB. Það mál yfirgnæfir öll önnur mál hér á landi. Þar er ekki um dægurmál til nokkurra ára eða áratuga að ræða, þar er um varanlegt afsal réttinda okkar til frambúðar að ræða og guð forði okkur frá því.

Kosningar til þings er það dægurmál sem brýnast er að leysa, stöðvun ESB aðildar er annað og stærra.

Gunnar Heiðarsson, 15.4.2011 kl. 09:28

3 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Ég talaði um það hér á blogginu í gær að líklega væri skársti kosturinn að stjórnin sæti áfram, því ég sé í raun engin betri úrræði. Mér finnst nefnilega erfiðara að reyna að velja saman fólk í nýja stjórn heldur en að leyfa þessari að sitja.

Því miður viðist málum bara þannig varið, að almennilegt fólk nennir ekki lengur að standa í því argaþrasi sem fylgir þingstörfum, og þess vegna fer hver framapotarinn á eftir öðrum inn á þing. Þetta er ekki félegur hópur sem þarna er, með nokkrum undantekningum þó.

ESB málið er svo alvarlegt, að það má ekki fá byr frá stjórnvöldum, alls ekki. Ég skil ekki hvernig nokkur óbrjálaður maður vill okkur þá vansæmd. Hvers vegna þarf að apa allt upp eftir einhverju evróspsku módeli, í stað  þess að nýta það sem við höfum, okkur til framdráttar og sæmdar.

Við getum orðið fyrirmynd þjóða og jafnvel öfunduð, vegna  hagsældar sprottinni af hreinu landi og ómengandi atvinnuvegum.

Bergljót Gunnarsdóttir, 15.4.2011 kl. 12:21

4 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Smá viðbót.

Mér finnst í raun réttast að bíða þar til tillögur Stjórnlagaráðs liggja fyrir, sem mér skilst að verði í júnílok eða svo. Þar gæti mögulega leynst einhver glóra að nýjum kosningalögum, breyttri kjördæmaskipan þ.e. að landið verði eitt kjördæmi, jafnvel persónukjör og flokkarnir fái minna hlutverk.

Þá fyrst væri hægt að hugsa sinn gang og velja almennilegt fólk í í stólana á alþingi okkar Íslendinga, fólk sem sæti þá mögulega í stólunum í vinnutímanum og ynni vinnuna sína í stað þess að vera á fleygispani út og inn, allan daginn, eins og svo glögglega má sjá á myndum úr þinginu. Hver getur unnið að einhverju viti á harðahlaupum, og sé einhver þarna sem ekki ráfar um eins og hauslaus hæna, og vill vinna, getur þá sá hinn sami haft einhvern vinnufrið fyrir þessu eilífa rápi?

Bergljót Gunnarsdóttir, 15.4.2011 kl. 12:40

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Eitt kjördæmi fellur mér síður en svo í geð Bergljót. Ég hef búið út á landi og sá hvaða skaða það olli þegar kjördæmum var fækkað síðast.

Það er á kristaltæru að eitt kjördæmi mun svipta landsbyggðinni öllu valdi.

Það er oft talað um kjördæmapot þegar þingmenn kjördæma mæla fyrir breytingum til hagsbóta fyrir sitt kjördæmi. En er þetta kjördæmapot? Eru þessir þingmenn ekki bara að vinna sína vinnu og standa vörð um sitt kjördæmi? Ef fólk lítur svo á að þetta sé kjördæmapot, mun það vissulega leggjast af. Hvaða þíðingu hefur það fyrir landsbyggðina?

Þá skal ekki gleyma nýlegu atviki. Í haust þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram, kom í ljós að það var með þeim hætti að landsbyggðin beið mjög skarðan hlut frá borði. Haldnir voru fundir vítt um landið og mættu þingmenn kjördæma á fundi í sínu kjördæmi. Stjórnarþingmenn jafnt sem stjórnarandstöðu mótmæltu þessu frumvarpi á þessum fundum og var í kjölfarið farið í vinnu við að laga það.

Það er deginum ljósara að þingmenn eins og Ólína Þorvarðardóttir, Sigmundur Ernir, Tryggvi Þór og fleiri, bæði úr stjórn og stjórnarandstöðu, hefðu ekki verið að ómaka sig á þessa fundi nema til að tryggja sín atkvæði.

Því er alveg ljóst að ef eitt kjördæmi hefði verið við lýði síðastliðið haust, hefði fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar farið þegjandi og hljóðalaust gegn um þingið, með tilheyrandi hörmungum fyrir marga þéttbýliskjarna landsins.

Í mínum huga á vægi atkvæða að vera misjafnt. Þeir sem næstir stjórnsýslunni eru eiga auðveldara með að ná til hennar og því á atkvæðavægi þeirra að vera minna en þeirra sem fjærstir eru og þurfa jafnvel að taka sér frí frá vinnu í nokkra daga til að mæta á einn klukkutíma fund, til að koma sínum málum að.

Þessi hugsanaháttur er þekktur víða erlendis og engin skömm af honum. T.d. eru engir þingmenn fyrir Washington DC á bandaríska þinginu, en vægi atkvæða í Alaska hins vegar mjög hátt.

Persónukjör er ég tilbúinn að skoða, en það hlýtur þá að kalla á einmenningskjördæmi. Þó vefst nokkuð fyrir mér hvernig hægt er að mynda ríkisstjórn ef allir eru kosnir persónukjöri og flokkum verði kastað fyrir róða. Vissulega er þetta þó hreinasta lýðræðið sem hægt er að hugsa sér, bara spurning hvort það gengur upp í raunveruleikanum.

Gunnar Heiðarsson, 15.4.2011 kl. 14:46

6 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Einmenningskjördæmi eins og þau tíðkast á Englandi virðast mér vera vera klár kostur. Ég meinti nú ekki að leggja flokkana af, heldur láta flokksræðið hafa miklu minna vægi,  þá geta þeir sem kjörnir hafa verið, samkvæmt sínum málflutningi staðið við orðin, og verið ábyrgir fyrir þeim. Það versta er að hugtakið ábyrgð er að verða merkingarlaust, og ég efast meira að segja um að sumir viti hvað það þýðir

Ekki komi  neinir  fyrrverandi ráðamenn flokkanna með fingurna í þingmálin, sbr. Sjálfstæðisflokkinn í dag. Þeirra fólk á þingi virkar allt eins og strengjabrúður. Flokkurinn móti stefnuna, hitt eiga þingmenn og ráðherrar að vera einfærir um. Víst eru flokksformennirnir allir þingmenn og   ættu því að hafa yfirsýn yfir vilja kjósenda flokkanna, þó sjaldnast sé hlustað á sjónarmið þeirra og virðast þeir, kjósendur, sjaldnast ráða ferðinni.

Ég held að Þetta sé í raun meginmálið, meira sjálfstæði  þingmanna, og þeir sem þarna komi að skilji hvað ábyrgð er, hlusti á fólkið í landinu með opnum hug, og fari eftir því.

Ég er svo mikið Reykjavíkurbarn að ég hef í raun aldrei gert mér grein fyrir misvæginu út a kjördaæmaskipaninni. Ég held ég falli bara nokkuð vel að þinni skoðun á því máli. Fleiri kjördæmi og þau einmennings?

Bergljót Gunnarsdóttir, 15.4.2011 kl. 16:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband