Að geta ekki sætt sig við tap
8.2.2011 | 14:31
Allir þeir tuttugu og fimm sem fengu brautargengi inn á stjórnlagaþing, sumir reyndar með mjög fáum atkvæðum, töluðu um það fyrir ólöglegu kosninguna að þeir vildu efla skilin milli löggjafavald, framkvæmdavalds og dómsvalds.
Nú vill þetta sama fólk skipa æðsta dómstigi landsins fyrir verkum og krefst þess að dómurinn endurskoði sína ákvörðun!
Þetta fólk verður að kyngja þeirri staðreynd að framkvæmd kosningarinnar var ólögleg, bæði varðandi lög um stjórnlagaþing og önnur lög sem vísað er til þegar stjórnlagaþingslögin þrýtur.
Það hefur verið mikið gert úr því að ekki sé um dóm að ræða heldur úrskurð. Úrskurður heitir það vegna þess að stjórnlagaþingslögin segja að svo skuli vera. Í þessu tilviki er það ígildi dóms, lokaniðurstaða. Menn geta farið í orðaleiki, en það breytir ekki niðurstöðunni.
Það ber einnig að líta til þess að öll þau atriði sem dómurinn úrskurðaði um að væri ekki samkvæmt lögum, eru einnig þau atriði sem eftilitsstofnun ÖSE leggur áherslu á að séu haldin í heiðri.
Þá ber einnig að geta þess að enginn kærði ýmis önnur atriði sem ekki voru í lagi, svo sem stuttur tími fyrir utankjörfund.
Það er ljóst að ef málið verður tekið upp munu fleiri kæra. Þá hefur þessum tuttugu og fimm einstaklingum tekist að toppa vitleysuna endanlega.
Maður veltur fyrir sér hvernig tillaga að stjórnarskrá muni koma frá fólki sem hefur ekki meiri þroska en þetta. Fólki sem vill ekki taka tapi með karlmennsku, heldur volar eins og spilltur krakki.
Ef stjórnvöld ætla að halda áfram með þetta mál á að kjósa aftur. Hvort látið verði nægja að endurtaka kosninguna og þá samkvæmt lögum, eða hvort byrjað verður frá grunni skiptir ekki svo miklu máli, aðalmálið er að EF halda á þessu til streitu skal kosið aftur.
Áður en slík ákvörðun verður tekin væri rétt hjá stjórnvöldum að kanna vilja fólks fyrir stjórnlagaþingi. Hugsanlegt væri að kjósa samhliða um vilja til stjórnlagaþings og fulltrúa á það. Þá væri einfaldlega kosið um hvorutveggja og ef minnihluti er á móti gilda þau atkvæði sem fulltrúar fá, þeim til handa.
Með þessu væri hægt að spara peninga og um leið fá úr því skorið hvort meirihluti sé fyrir þessari vegferð.
Vilja að Hæstiréttur endurskoði ákvörðun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.