Að gera málin flókin og dýr að hætti vinsti manna!!
7.1.2011 | 10:44
Það er ótrúleg árátta vinstrimanna að þurfa að flækja öll mál og gera þau flóknari og dýrari en þarf.
Fyrir nokkrum árum voru díselbílar á sérstöku kílómetragjaldi. Þetta kerfi var dýrt í rekstri auk þess sem menn misnotuðu það í stórum stíl. Því var ákveðið að leggja það kerfi niður að mestu og setja þau gjöld inn í díselolíuna, eins og bensínið. Rökin voru að það væri skilvirkasta og ódýrasta leiðin. Hún er það enn.
Nú er umræðan fyrst og fremst um fjármögnun ákveðinna framkvæmda í vegabótum. Vegskatttar er eina sem mönnum dettur í hug. Það er þó ekki svo að ætlunin sé að hver stök framkvæmd eigi að greiðast af skatti af akstri um þá braut, heldur er ætlunin að dengja öllum þessum framkvæmdum saman í einn pott og skattur tekinn af akstri um hverja leið einnig lagður í einn sameiginlegan pott, til greiðslu á heildarkostnaðnum. Þetta er gert til þess að hægt sé að fara í Vaðlaheiðagöngin. Ökumenn sem leið eiga í og úr Reykjavík munu því greiða þá framkvæmd að mestu, en ef þeim dettur svo í hug að skreppa norður og skjótast í gegnum þessi sömu göng, verða þeir einnig að greiða fyrir það þar.
Vegskattur er arfavitlaus aðferð til fjármögnunar á vegaframkvæmdum. Undantekningin er þó ef einhver vill fjármagna slíka framkvæmd og fá hana greidda með þeirri aðferð, þá má skoða dæmið. Forsenda er þó að í fyrsta lagi sé ekki verið að auka kostnað ökumanna, í öðru lagi hafi ökumenn möguleika á raunverulegri hjáleið og í þriðja lagi að allur sá kostnaður sem ríkið sparar við slíka framkvæmd, t.d. í minni rekstrarkostnaði annara leiða, skuli allur renna til lækkunar á vegskattinum. Þetta hefur verulega skort á við t.d. Hvalfjarðargöng. Þar hefur ríkið sparað gífurlega stórar fjárhæðir í minni rekstrarkostnaði vegarins um fjörðinn og notað þá fjármuni til sinna gæluverkefna, sjaldnast þó til aukinna vegabóta!
Ein leið enn hefur verið nefnd sem framtíðaráform. Það er skattlagning eftir akstri og skráð með GPS tækni. Stofnkostnaður, rekstur og viðhald á slíku kerfi er mikill. Hvort sá kostnaður lendir á ríkisjóð eða ökumanna skiptir ekki máli, hann mun lenda á þjóðinni! Innheimtudæmið verður sennilega minnsti hluti þess kerfis, en þó þarf alveg nýtt batterí kring um þetta. Möguleikarnir til að komast framhjá þessu kerfi og svindla á því eru óþrjótandi! Bara kerfið eitt og sér mun því auka kostnað ökumanna verulega!!
Í dag eru vegskattar innheimtir gegn um eldsneytið. Þetta er einföld og örugg aðferð. Aukakostnaður ríkissjóðs er nánast enginn og aukakostnaður ökumanna í formi tækja og búnaðar er enginn. Ekki er nokkur leið fyrir ökumenn að komast framhjá þessari skattaleið og sannarlega borga menn eftir akstri.
Vandinn er þó sá að ríkið hefur tekið þessa skatta og skamtað af þeim til vegaframkvæmda, í stað þess að láta þá renna óskipta til þeirra verkefna. Þetta vandamál verður ekki leyst með kerfisbreytngu. Hvaða tryggingu höfum við fyrir því að vegskattar komi til með að skila sér til þessara framkvæmda. Enn síður höfum við tryggingu fyrir því að skattur innheimtur eftir GPS skráningu muni skila sér til vegaframkvæmda. Þó vitum við að bæði vegskattur og GPS skattur mun hafa aukinn kostnað í för með sér og sá kostnaður verður að sjálf sögðu settur inn í gjaldið!!
Bent hefur verið á að vandamál muni koma upp með nýjum orkugjöfum fyrir bíla. Þetta er ekki vandamál. Allir orkugjafar eu mælanlegir, erfiðast er þó að mæla rafmagn á rafbíla en alls ekki ómögulegt. Að sjálf sögðu eigum við að leitast við að innlendir orkugjafar verði meira notaðir en innfluttir. Arður ríkisins af því er óumdeilanlegur og gífurlega mikill. Því er hægt að stýra gjaldtöku með þeim hætti að innlendir orkugjafar verði ALTAF hagstæðari í gegn um eldsneytis eða orkugjald. Vegskattur eða GPS skattur gerir hins vegar ekki greinarmun á hvort um t.d. bensín eða metanbíl er að ræða. Til að gera bíla sem ganga fyrir innlendum orkugjöfum ódýrari í rekstri þarf því að flækja kerfið enn frekar og gera það enn dýrara!!
Vandamálið er því ekki hvaða leið skuli farin í innheimtu skatta af ökumönnum, heldur er vandamálið hvernig ríkið fer með þá fjármuni. Við höfum gott og skilvirkt kerfi sem engin ástæða er til að breyta. Þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru rúmast vel innan þeirra skatta sem þegar eru innheimtir af ökumönnum. Ef ríkið telur sig þurfa að stela úr þeim sjóðum sem ætlaðir eru til uppbyggingar vegakerfisins, til annara nota, á að sjálf sögðu að skoða í hvað þeir peningar fara og athuga hvort ekki megi draga saman þar eða skattleggja. Nefni sem dæmi utanríkisþjónustuna og ESB umsóknina, þangað fara miklir fjármunir sem betur væri varið til uppbyggingar hér innanlands, t.d. uppbyggingu vegakerfisins!!
Hugsa þarf veggjöld upp á nýtt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.