Hnífstungur í bakið
19.12.2010 | 13:36
Þegar REY málið stóð sem hæðst, var einum ákveðnum Framsóknarmanni eignað það að vera með heilu hnífasettin til að reka í bak samstarfsmanna sinna.
Nú virðist nýr hnífamaður vera kominn á kreik. Hann heitir Jón Baldvin Hannibalson. Á fundi Samfylkingar dúkkaði þessi útbrunni stjórnmálamaður upp og hótaði því að yfirtaka flokkinn ef Jóhanna Sigurðardóttir yrði ekki gerð að formanni Samfylkingar. Auðvitað gat enginn flokksmaður hugsað þá hugsun til enda að fá hann aftur yfir flokkinn, svo ekki var um annað að ræða en kjósa gömlu konuna til æðsta embættis, þó vissulega margir væru efins.
Nú rekur Jón hníf í bak Jóhönnu, þegar hann í Pressunni lýsir því yfir að Jóhanna hafi verið einskonar Lilja Móses þann tíma er hann og Jóhanna sátu saman í stjórn, í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar. Að Jóhanna hefði jafnvel verið enn verri í samskiptum en Lilja.
Jón Baldvin hefur ætíð talið sig bestan og mestan allra Íslendinga, enginn hafi betri sýn á framtíðina en hann. Reyndar hafa spádómar hans sjaldnast ræst. Svo er einnig nú. Ef spádómsviska hans væri svo góð sem hann telur, hefði hann að sjálfsögðu aldrei farið og hótað Samfylkingarfólki til að velja gömlu konuna í formannssætið. Hann hefði einfaldlega setið heima og haldið kjafti. Það fer honum enda best!
Þeir sem fylgst hafa með pólitík þann tíma sem Jóhanna hefur setið á þingi, innan og utan stjórnar, vita hvernig hún hefur hagað sér, frekjan og óbilgirnin hefur verið hennar ær og kýr. Því kemur þetta ekki neinum á óvart og varla fréttnæmt, þó Jóni Baldvin þyki það. Hann hefði manna best átt að vita þetta þegar hann gekk á fund Samfylkingar veturinn 2009.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.