Stjórnlagaþing mun ekki eiga sjö dagana sæla

Er ekkert minnst á eignarétt einstaklingsins í tillögum þjóðfundarins? Er það stjórnarskráðbundið hvort hér er eitt kjördæmi eða fleiri? Var þá kannski stjórnarskrárbrot þegar þeim var fækkað?

Tillögur þjóðfundarins eru svolítið út og suður. Þeir sem kosnir verða á stjórnlagaþing eiga ekki sjö dagana sæla við að koma saman einhverri vitiborinni stjórnarskrá eftir þessum tillögum.

Stjórnarskráin á að vera einföld og auðskilin, hún á að taka á fáum grundvallaratriðum með svo skýrum hætti að ekki verði misskilið. Tillögur þjóðfundar fjalla meðal annars um að auðlindir skulu verða í eigu þjóðarinnar. Hvað eru auðlindir? Er ekki landið allt ein auðlind? Á þá að taka eignaréttinn af þeim sem nú teljast réttmætir eigendur? Veiðihlunnindi í ám og vötnum, á að taka hann af landeigendum? Eða dúntekja, vissulega hlunnindi, á að taka hana af bændum? Svona væri lengi hægt að telja.

Niðurstaða þjóðfundar litast af því ástandi sem nú er, ekki er víst að sama niðurstaða hefði verið ef þessi fundur hefði verið haldinn á árunum 2006 eða 2007. Nokkuð er víst að önnur niðurstaða fæst ef slíkur fundur verður haldinn eftir fimm eða tíu ár.

Stjórnarskráin okkar er mjög góð í flestum atriðum. Menn hafa komið í fjölmiðla og tjáð sig digurbarkalega og sagt nauðsyn á nýrri stjórnarskrá, helst vegna þess að þessi sé Dönsk en ekki Íslensk. Hvers lensk hún er skiptir ekki megin máli, heldur hversu góð hún er. Bandaríska stjórnarskráin er þá væntanlega Bresk, þeir sem sömdu hana voru jú Breskir þegnar á þeim tíma, þó þeir yrðu Bandarískir eftir gildingu hennar. Hún dugir þeim vel eftir rúmlega tvö hundruð ára notkun.

Þó stjórnarskráin sé góð og í fullu gildi, segir ekki að ekki megi endurskoða hana. Vissulega á að sníða þá vankanta af sem í ljós koma, án þess þó að breyta gildi hennar. Staððreyndin er að okkar stjórnarskrá er ekki vandamál, vandamálið er framkvæmd einstakra liða hennar, þ.e. hvernig með eigi að fara þegar þeim er beytt. Þetta kom meðal annars í ljós þegar forseti vísaði lögum til þjóðarinnar, stjórnarskráin er skýr um vald forseta í slíkum tilfellum en tekur hinsvegar ekki á með hvaða hætti þjóðin skal taka þá ákvörðun.

Það er ljóst að ef öll þau atriði sem þjóðfundurinn ályktaði koma í stjórnarskrá, þá fáum við stóra og flókna stjórnarskrá sem erfitt verður að fylgja eftir. Enn erfiðara verður að gera hana svo úr garði að hún verði auðskyljanleg og hafin yfir allan efa í framkvæmd. Hætt er við að þeir tveir mánuðir sem ætlaðir eru til verksins sé allt of stuttur tími, jafnvel þó þeim tveim sem hemildir leyfa að bætt sé við verði notaðir, mun það engan veginn duga.

Það eitt að ætla tuttugu og fimm einstaklingum lesa yfir og reyna að finna út þá vankanta sem á núverandi stjórnarskrá eru og koma með tillögur um úrbætur væri fullt starf í fjóra mánuði, ef vel á til verka að vinna. Því er alveg útilokað að neitt vitrænt geti komið frá þeim hóp á svo stuttum tíma ef semja á nýja stjórnarskrá frá grunni.

Stjórnarskráin er ekki vandamál, vandamálið er að hún á það til að þvælast fyrir stjórnmálamönnum. Vandamálið er að stjórnmálamenn vilja fá stjórnarskrá sem auðvelt er að komast framhjá!

 


mbl.is Stjórnarskrá fyrir fólkið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Leifur Þórisson

Sæll, í stjórnarskránni er kveðið á um ráðherra. Það var mjög skýr afstaða á fundinum að þeir skuli ekki sitja á þingi. Það á heima í stjórnarskránni. Skýr afstaða var að landið verði eitt kjördæmi, það á líka heima í stjórnarskrá. Að fækka eigi þingmönnum var skýr afstaða, stjórnarskráin telur upp fjölda þingmanna þannig að það á heima þar. Mörg fleiri atriði voru þetta skýr. Vinsaml. ekki falla í þá gryfju að tala niður til tæplega 1000 manna sem NB 97% voru ánægðir með fundinn. Þetta voru engir asnar sem þarna voru heldur nákvæmlega marktækur þverskurður af þjóðinni. Með bestu kveðju, Björn.

Björn Leifur Þórisson, 8.11.2010 kl. 10:50

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Ekki dettur mér í hug að tala niður 1000 manns, ekki hvarlar að mér að gefa í skyn að þarna hafi komið saman fólk sem ekki vill vel.

Það kemur skýrt fram í bloggi mínu að endurskoðun gildandi stjórnarskrár er hugsanlega þörf. Það virðist þó vera í gangi sá misskilningur að þörf sé á nýrri. Svo er alls ekki, ný stjórnarskrá leysir ekki þann vanda sem við erum í, sá vandi er ekki af völdum núverandi stjórnarskrá.

Það sem ég gagnrýni er fyrst og fremst hversu víðfemd og almenn ályktun kom af þjóðfundinum og læt fram þá skoðun mína að verkefni stjórnlagaþings muni verða nær óyfirstíganlegt miðað við niðurstöðu þjóðfundar. Einnig gagnrýni ég hversu litaðar þessar tillögur eru af því sem er í gangi í þjóðfélaginu í dag. Fagurlega orðaðar, hljómfagrar, vinsælar og merkingarlausar tillögur. Vissulega má finna einstaka ágæta punkta en heilt yfir frekar ómarkvisst.

Hvort landið eigi að verða að einu kjördæmi er spurning, ljóst er að mismunun atkvæða hefur viss gildi. Til dæmis hefur höfuðborg USA enga þingmenn, vægi breytist síðan eftir því sem lengra er frá henni og er vægi atkvæða í Alaska mest. Að baki þessu fyrirkomulagi liggja sömu rök og hér hjá okkur.

Vissulega voru 97% þeirra sem sátu fundinn ánægðir, ætti reyndar að vera 100% ánægja.

Gunnar Heiðarsson, 8.11.2010 kl. 17:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband