Umhverfisvöktun ?!!

Umhverfisvöktun við Hvalfjörð er þörf, eins og víðast hvar. Reyndar eru starfsleyfi þeirra tveggja stóriðjufyrirtækja skilyrt slíkri vöktun og því ættu þessi mál að vera í nokkuð góðu lagi hvað þau snerta. Ef einhver vanhöld eru á vöktun þeirra, hljóta þartilbær yfirvöld að taka á því.

Stofnun þessa hóps, "umhverfisvöktun við Hvalfjörð" er því af einhverjum öðrum ástæðum. Gæta ber þess að slíkur hópur hefur ekkert stjórnsýslulegt vald og því með öllu máttlaust fyrirbæri nema í samstarfi við þá aðila á svæðinu sem talið er að þurfi aukna vöktun. Slíkt samstarf er andvana fætt, ekki vegna viljaleysis fyrirtækjana, heldur vegna þess hver valist hefur til forustu þessa hóps. Sú sem valdist í það starf er þekkt fyrir annað en samstarfsvilja við stóriðjuna, reyndar verið fremst í fylkingu gegn þeirri starfsemi sem fram fer við Grundartanga, allt frá upphafi. Því læðist óneitanlega að manni sá grunur að eitthvað annað en umhverfissjónarmið ráði stofnun þessa hóps.

Vissulega er gott og gilt að veita stóriðjunni aðhald, en það verður ekki gert með stríði, einungis með samvinnu við þau. Forsenda slíkrar samvinnu er að fyrirtækin beri virðingu fyrir þeim sem óskar samvinnu. Að ekki sé um að ræða fólk sem hefur staðið í stríði við þau fram til þessa.

Á Grundartanga starfar hátt í 1.000 manns hjá um það bil 15 fyrirtækjum, þetta er að stæðstum hluta fólk sem hefur búsetu á Akranesi og nágreni. Þar að auki koma verktakafyrirtæki mjög við sögu á svæðinu, allstaðar að af landinu. Nú er t.d. verktakafyrirtækið KNH frá Ísafirði að vinna að stækkun hafnarinnar. Þetta svæði hefur því gífurleg áhrif á búsetu þessa svæðis, hvort sem fólki hugnast stóriðja eður ei.

Íbúafjöldi Akraness og Hvalfjarðarsveitar er nú á áttunda þúsund. Ekki er með nokkru móti hægt að segja til um hver fjöldinn væri ef ekki hefði komið til uppbyggingin á Grundartanga, en hún hófst um 1975 og stendur enn. Þó er hægt að benda á þær staðreyndir að á Akranesi var fiskvinnsla megin uppistaða atvinnu áður fyrr, nú starfa aðeins örfáir í þeirri grein. Sementsverksmiðjan var nokkuð stór vinnustaður, en þar hefur þróun starfsfjölda verið niður á við allt fram að hruni, en síðan er sú verksmiðja einungis starfrækt stuttan tíma á hverju ári. Iðnaður hefur verið stór atvinnuvegur á Akranesi, þjónusta við Sementsverksmiðjuna og síðar stóriðjuna á Grundartanga hefur verið uppistaðan í þeim störfum sem falla undir iðnað. Verslun og þjónusta ræðst af stærð byggðar hverju sinni og er nokkuð góð við núverandi aðstæður. Sjúkrahús, dvalarheimili aldraðra og skólastofnanir til fyrirmyndar. Forsenda fyrir Hvalfjarðargöngum var stóriðjan á Grundartanga og einn aðalhvatmaður byggingu þeirra var Jón Sigurðsson þáverandi framkvæmdarstjóri Íslenska Járnblendifélagsins.

Ragnheiður Þorgrímsdóttir, einn aðalandstæðingur þeirrar uppbyggingar sem orðið hefur á Grundartanga, ætti að reyna að gera sér í hugarlund hvernig Akranes liti út í dag ef henni og félögum hefði tekist að stöðva framkvæmdir í upphafi uppbyggingar Grundartangasvæðisins. Ekki er varlegt að gera ráð fyrir að íbúafjöldi Akraness væri kominn niður fyrir eitt þúsund, atvinnuleysi og lág laun væru ráðandi, ferðir til höfuðborgarinnar væru fyrir Hvalfjörð um slæman veg og oft snjóþyngsli á vetrum. Ekki er víst að kennarinn Ragnheiður hefði efni á að kalla sig bónda, ekki víst að hún gæti leyft sér að stunda sitt hugðarefni, hestamennsku með sama hætti og nú. Ekki einu sinni víst að nægur fjöldu barna á námsaldri til að hún hefði starf af kennslu.

Fólki er hollt að velta upp málum, stóriðjan hefur átt undir högg að sækja undanfarið, en áhrif hennar á líf og kjör landsmanna er óumdeilanleg, sérstaklega á grannsvæðum sem að þeim liggur. Stóriðjan var og er forsenda þess rafmagnsöryggis sem við búum við, jafn vel þó deila megi um verð á orkunni til stórnotenda. Allt fram undir lok níunda áratugarins var orkunotkun á álagspunktum meiri en framleiðslan. Í rúman áratug var Járnblendiverksmiðjan notuð sem stuðpúði, þ.e. þegar álag jókst hjá almenningi var lækkað á ofnum verksmiðjunar.

Um stóriðjuna má marg miður gott segja, en ekki skal samt gleima því hvað hún hefur gefið okkur. Margir vilja halda því fram að stóriðjan sé rót alls ills sem yfir okkur hefur dunið, en hvað hefur verið að gefa okkur gjaldeyri nú síðustu misserin eða frá hruni. Jú fiskurinn og stóriðjan! Það eru heldur hlægileg rök að halda því fram að atvinnuuppbygging sé orsök bankahrunsins. Orsök þess er fyrst og fremst rán örfárra manna!!

 


mbl.is Vilja vernda lífríkið við Hvalfjörð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband