Samstaða um kosningar!!
5.10.2010 | 21:27
Jóhanna vill samstöðu við stjórnarandstöðuna, Steingrímur tjáir sig hins vegar minna um slíkar hugmyndir. Það er sennilega heldur seint í rassinn gripið!
Jóhanna heldur virkilega að samstaða náist við stjórnarandstöðuna þegar sjálf stjórnin á í basli með að ná saman um málefnin. Ekki hlustar stjórnin á tillögur fólks úr eigin flokkum, hverjum dettur í hug að hún hlusti þá á tillögur annara flokka!! Ef þessi samstaða á að byggjast á því að stjórnarandstaðan eigi að samþykkja það sem stjórnin segir, er hægt að sleppa þessum viðræðum strax.
Stjórnin er getulaus, bæði vegna innbyrgðis átaka en ekki síst vegna þvermóðsku og gamaldags hugsanaháttar, þar sem tillögur til bóta eru slegnar út af borðinu án frekari skoðunar vegna þess eins að þær koma frá stjórnarandstöðunni!!
Það á að rjúfa þing strax og boða til nýrra kosninga. Ef það verður ekki gert er hætt við að mótmælin í gær verði hégómi miðað við það sem kemur.
Stjórnmálaflokkarnir þurfa að taka hressilega til hjá sér. Vinstri Grænir þurfa að henda út hjá sér öllum sem svikið hafa kjósendur þeirra frá síðustu kosningum. Það eru flestir en þó ekki allir. Sjálfstæðismenn hafa ekki verið nógu duglegir við að taka til hjá sér, enn eru margir þar á þingi sem tóku beinan þátt í græðginni og eiga þeir hiklaust að víkja. Framsóknarmenn eru sennilega sá flokkur sem lengst gekk í endurnýjun fyrir síðustu kosningar, þó má betur gera. Enn eiga nokkrir þingmenn eftir að víkja. Um Samfylkingu vil ég sem minnst segja, hugsanahátturinn á þeim bænum er með þeim hætti að engin von er til að neitt verði gert þar til að viðurkenna trúnaðarbrestinn við kjósendur.
Ef flokkarnir taka ekki til hjá sér og komi þeim frá sem voru á þingi í undanfara hrunsins er hætt við að illa gæti farið. Hugsanlegt er að þjóðin muni þá "Gnarra" þingið, þ.e. eitthert grínframboð gæti náð völdum. Ekki megum við því, en ekki getum við þó lifað við það ástand sem nú ríkir. Því er okkur nauðugur sá kostur að taka áhættuna.
Ef stjórnmálaflokkarnir hlusta á almenning og breyta samkvæmt því er áhættan lítil. Þá mun kosningabaráttan væntanlega snúast um framtíðina. Ef hins vegar stjórnmálaflokkarnir hlusta ekki á fólkið mun kosningabaráttan snúast um fortíðina. Þá er auðvelt fyrir hvern sem er að "Gnarra" þingið!!
Fyrsta hugsunin sem þingmenn verða að tileinka sér er að þingmenn eru fyrir þjóðina, ekki þjóðin fyrir þingmennina!!
Mikilvægt að ná samstöðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Agjörlega sammála þér Gunnar...
Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 5.10.2010 kl. 21:36
Jóhanna heldur sig enn geta platað okkur með bröndurum um platfundi og skoðun og aftur skoðun og skoðun einu sinni enn. Um ekki neitt.
Elle_, 5.10.2010 kl. 23:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.