Samstarf ?

Þegar tveir eða fleiri aðilar ákveða að fara í samstarf setjast þeir niður og skoða hvort um er að ræða ágreiningsmál. Þau eru leidd til lykta og þá er hægt að skoða framtíðarsýnina, ef hún er ekki eins hjá öllum aðilum er samið um sameiginlega sýn. Þá er gjarnan reynt eftir mætti að koma prinsipp málum hvers aðila að. Þetta er gert áður en samstarf hefst og takist það ekki er ekki um samstarf að ræða.

Þetta er aldrei eins áríðandi og við myndun ríkistjórnar fleiri en eins flokks. Þeir flokkar sem lengst hafa verið við völd undanfarin ár eru Sjálfstæðis og Framsóknarflokkur. Ekki var annað að sjá en þessir flokkar hefðu unnið þessa forvinnu af kostgæfni, að minnsta kosti tókst þeim alltaf að koma sínum prinsip málum að, að vísu var oft talað um að Framsóknarflokkurinn hefði komið of mörgum af sínum málum að. Hann var jú alltaf miklu minni en Sjálfstæðisflokkurinn. Ég held þó að ef menn skoði söguna án allra fordóma, komist þeir að því að báðir flokkar máttu vel við una.

Við myndun núverandi ríkisstjórnar virðist sem þessi vinna hafi alveg gleymst, eða viljandi verið sleppt. Hvort heldur er, er alveg ljóst að Samfylkingin hefur komið öllum sínum málum að, reyndar er það bara eitt; aðild að ESB. Í stefnuskrá VG sem er nokkuð samhljóma loforðalistanum fyrir kosningar voru mörg mál. Flest þeirra stangast reyndar á við vilja og stefnu ESB, flest eru einnig í anda þess að standa vörð um þá sem minna mega sín. Ekkert þeirra mála sem VG barðist fyrir og fékk sín atkvæði út á virðast vera í núverandi stjórnarsáttmála. Þetta er einstaklega undarlegt í ljósi þess að í síðustu kosningum var þessi flokkur óumdeilanlega sigurvegari.

Það er í sjálfu sér ekki undarlegt að Steingrímur J komi vel út í skoðanakönnunum, hann er búinn að vera í stjórnarandstöðu nánast alla sína tíð á þingi og hefur verið duglegur við að mótmæla því sem hann telur að betur megi fara. Þessi mynd af manninum er greipt inn í vitund margra Íslendinga, en nú hlýtur fólk að sjá að hann er engu betri en þeir sem á undan hafa verið. Það væri fróðlegt ef hægt væri að sjá þennan mann í stjórnarandstöðu þetta ár sem þessi stjórn hefur starfað. Það er hætt við að hann hefði sagt mörg og stór orð um icesave samninginn og hvernig að honum var staðið, hvernig væru viðbrögð hanns í stjórnarandstöðu í dag, þegar stjórnvöld hafa gefið út að enn skuli skerða hag aldraðra og öryrkja. Svona mætti lengi telja.

Það er hart til þess að vita að vinstristjórn skuli geta leift sér annað eins og að ráðast á þá sem minnst mega sín. Það er hægt að fullyrða að hægristjórn hefði aldrei farið út í slíkar aðgerðir enda ljóst að hægri stjórn hefði aldrei komist upp með slíkt. Því er undarlegt að vinstri stjórn skuli ætla að komast upp með þetta. Sérstaklega þegar hægt er að komast hjá þessum skerðingum á einfaldan og fljótlegan hátt, dragið umsóknina í ESB til baka og notið peningana sem er ætlað í þá vitleysu, fyrir aldraða og öryrkja. Það væri hægt að minnka verulega samdrátt í heilbrigðisgeiranum að auki. 

Þetta samstarf núverandi ríkisstjórnaflokka er ekki samstarf, það er einleikur Samfylkingar og fyrir henni skiptir ekkert meira máli en innganga inn í ESB. Breytir þar engu þó öryrkjar og ellilífeyrisþegar fari á vergang, það mun þeir gera hvort eð er, verði af inngöngu.

Er nema von að sumir þingmenn VG séu að tjá sig í fjölmiðlum gegn stjórninni og aðgerðum eða aðgerðarleysi hennar. Þesir þingmenn sætta sig ekki við að öllum gildum sem flokkurinn stendur fyrir sé fórnað til þess eins að hægt sé að segja að hér sé vinstristjórn við völd. Þeirra sterkasti leikur til að bjarga flokk sínum væri að flytja vantrausttillögu á stjórnina.

Þingflokkur sem hefur aðeins eitt mál á stefnuskrá sinni og gerir allt til að það megi ná fram, er ekki samstarfshæfur. Ef VG er umhugað um sína kjósendur væru þeir betur settir í samstarfi við hvaða flokk annan, jafnvel Sjálfstæðisflokk.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband