Friðlýsingarráðherra.

Þegar rætt er um friðun þarf að skilgreina hvað á að friða og hvers vegna. Svona yfirlýsingar eins og ráðherra kemur með eru ekki markverðar án þess. 

Fjárgötur og göngugötur hafa verið til á Íslandi frá því land byggðist og verða vonandi um alla framtíð. Það sýnir að landið er í byggð. Sumstaðar eru þessar götur orðnar mjög djúpar, sérstaklega á fjölmennustu gönguleiðunum, en þar hefur ferðafólk notað þær. Gönguferðum hefur fjölgað mikið á undanförnum árum í takt við aukinn fjölda ferðafólks.

Ef það er einhver meining hjá ráðherra um friðun á gosstöðvunum verður hún að koma með einhver rök og einnig hvernig að friðun verður staðið. Hún þarf einnig að koma fram með hugmyndir um hvernig ferðafólk getur átt aðgang að svæðinu, ekki er hægt að ætlast til að allir gangi frá Skógum eða úr Þórsmörk.

Ráðherra hefur marg oft tjáð sig um nauðsyn á að byggja upp ferðamannaiðnaðinn. Svona yfirlýsingar, án allra raka eða hugmynda, er ekki að hjálpa til þess.

Vissulega þarf að ganga varlega um landið okkar, til þess höfum við lög. Það er meðal annars bannað að aka utan vegslóða, undantekning er ef ekið er á snjó. Nánast allur sá akstur sem hefur verið á Fimmvörðuhálsi vegna þessa goss, er á snjó og munu því ekki hljótast landspjöll af þeim akstri.

Annað mál þegar fer að vora, þá verður landið þarna mjög viðkvæmt og verður að sjá til þess að farið verði eftir lögum um utanvegaakstur. Það þarf ekki ný lög til að taka á því.

Það er vegur upp á hálsinn frá Skógum, það væri nær að ráðherra notaði þá peninga sem friðun kostar, til að laga þann veg og gera viðunandi aðstöðu upp á hálsinum. Það á eftir að verða mikil ásókn þarna upp eftir í sumar, þó svo gosinu ljúki. Fólk hefur áhuga á að skoða þetta svæði og afleiðingar gosins.

Líklegasta skýringin á þessu upphlaupi ráðherra er akstur Top Gear manna utan í hraunið. Hún lét meðal annars þau orð falla í fjölmiðlum, "ófært ef hraunið verður eyðilagt strax með akstri upp á það". Þetta ber ekki mikla þekkingu á umhverfismálum. Fyrir það fyrsta er hraunið enn að myndast og því varla hægt að eyðileggja það, í öðrulagi kemur hún þarna fram með sleggjudóm eftir mjög ófullkomnar fréttir af því sem þarna skeði.

Þarna voru þessir ágætu menn að sýna fram á hitann á hrauninu og hversu hættulegt það er. Það er nefnilega þannig að þó við Íslendingar gerum okkur flest grein fyrir því, þá er þessi þáttur sýndur út um allan heim.

Ef hún ætlar að halda þessu máli til streitu gegn BBC, þá verður hún og reyndar allir Íslendingar að athlægi um allan heim. Þessir þáttagerðarmenn eru þekktir fyrir sinn sérstaka og góða húmor. Þeim verður ekki skutaskuld af því að snúa þessari vitleysu hennar gegn henni, ef þeir kjósa svo og það með gríni.

Það mun kannski hjálpa ferðamannaiðnaðinum, kannski verður boðið upp á hópferðir til Íslands til að sjá þetta stórundarlega fólk sem þar býr.


mbl.is Gosstöðvarnar friðlýstar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband