Þegar rykið er sest
6.9.2025 | 01:11
Mikið moldviðri varð í þjóðfélaginu eftir Kastljósþátt ruv, þar sem tekist var á um hvort kynin væru tvö eða fleiri. Nú er rykið að setjast, þó fréttastofa ruv reyni eftir fremsta megni að blása það upp aftur.
Hvers vegna ruv ákvað að hafa þetta málefni á dagskrá er erfitt að segja. Ekkert í málflutningi þingmannsins dagana á undan bar tilefni til þess. Hann hefur verið opinber á sína sýn um þetta málefni lengi, rétt eins og margur landinn. Hugsanlega átti að taka þennan þingmann, sem ekki er á sömu línu í þjóðfélagsumræðunni og ruv, auk þess að vera þingmaður Miðflokksins, niður í eitt skiptið fyrir öll. Iðja sem fréttastofan, sem er fóðruð af okkur landsmönnum, er svo tamt að gera. Mætti nefna í því sambandi mýmörg dæmi. Það má líka spyrja hvers vegna þingmaðurinn hafi látið leiða sig í þessa gildru. Heift fréttastofunnar gegn flokki hans er þvílík að undrun sætir að nokkur úr þeim flokki láti sér detta til hugar að mæta þangað í viðtal. Niðurstaðan var að miklu moldviðri var rótað upp og sáu margir minni spámenn, sérstaklega í stjórnmálum, sér leik á borði. Ætluðu að slá einhverjar pólitískar keilur en enduðu vara rykugir upp fyrir haus. Ömurlegast þó er biskup og landlæknir létu hafa sig út í rykskýið
Auðvitað eru kynin einungis tvö, því verður aldrei mótmælt. Kynþrá er annað mál. Sumir þrá ástir af sama kyni og þeir sjálfir og hefur svo verið frá því maðurinn hóf að ganga uppréttur. Rómverjar fóru ekki í felur með þessar kenndir sínar, þó þær síðar hafi ekki verið kirkjunni þóknanlegar.
Við eigum margt gott fólk sem ber kynhneigð til sama kyns, jafnvel talið að sumt af því fólki er hér nam land á sínum tíma hafi verið samkynhneigt. Gagnkynhneigð og samkynhneigð er eitthvað sem fólk hefur fyrir sig, kemur engum öðrum við. Verðleikar fólks verða ekki dæmdir út frá þeim eiginleikum.
Hin síðari ár hafa verið stofnuð samtök til hjálpar þessu fólki og vissulega veitti ekki af í upphafi. Þessi samtök hafa hins vegar farið nokkuð hressilega fram úr sér, eru farin að skaða málstaðinn. Þar liggur hundurinn grafinn, ekki vegna haturs til samkynhneigðra, heldur framgöngu þeirra er telja sig í forsvari fyrir þann hóp. Ég man þá tíð er eitt okkar besta söngvaskáld þurfti að flýja landið vegna ofsókna gegn samkynhneigðum, nú flýr þetta fólk landið vegna ofsókna þeirra sem segjast vera að standa vörð þess. Það segir kannski meira en nokkuð annað.
Fyrir ekki svo mörgum árum síðan var ákveðið að banna kristinfræði í skólum landsins. Talið vera innræting. Einnig er bannað að afhenda börnum hvers kyns varning innan skólalóða, ef þær eru merktar einhverju fyrirtæki eða félagsskap. Sama ástæða. Hins vegar þykir sjálfsagt að börn sé uppfyllt að allskyns hugmyndum um kyn og kynlíf! Jafnvel fengið til þeirrar fræðslu fólk sem enga þekkingu hefur á kennslu eða hvernig skuli koma fram við börn. Börnum jafnvel talin trú um að þau gætu verið af öðru kyni, kynlaus eða bara eitthvað allt annað. Hvers konar rugl er eiginlega í gangi? Allt er þetta af kröfu þeirra er telja sig standa vörð samkynhneigðra. Fólki er misboðið!
Börn fæðast af öðru hvoru kyni, karlkyni eða kvenkyni. Kynhneigð kemur ekki í vöggugjöf, kemur fyrst til er börn fara að nálgast kynþroska. Sumir strákar leika sér af dúkkum og stelpur af bílum. Það segir ekkert um kynhneigð þeirra, einungis hvaða leikföngum er að þeim haldið. Að fara að ræða kynhneigð við börn í leikskólum eða fyrstu bekkjum grunnskóla, er því ekkert annað en innræting. Eitthvað sem ekki má varðandi þjóðkirkjuna okkar og ekki varðandi hugsanlegar auglýsingar á fatnaði, öryggishjálmum eða öðru sem börn þurfa.
Þarna liggur vandinn. Innræting er alltaf hættuleg.
En rykið er að setjast og sennilega einhverjir sem eru með þynnku yfir ummælum sem látin voru falla í miðju rykskýinu. Aðrir eru forhertari og reyna að halda málinu til streitu. Þar, rétt eins og upphaf þessa rugls, liggur megin sökin hjá fréttastofu ruv. Reynir af öllum mætti að halda málinu lifandi, þó sífellt færri vilji koma nálægt því. Utan auðvitað nokkurra afdankaðra stjórnmálamanna sem ætti fyrir löngu að vera búnir að yfirgefa völlinn. Stjórnmálamanna sem reyna af fremsta megni að slá sig til riddara þegar brekkan framundan verður brattari niður.
Þegar horft er til þessa máls, eftir að rykið er fallið, verður ekki annað séð en að þarna hafi fréttastofa ruv ætlað að taka pólitískt líf af þingmanni Miðflokksins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)