Hvernig má það vera?!
30.9.2025 | 03:30
Hvernig má það vera að fulltrúar flugfélags sem eru á leið til sýslumanns til að óska eftir gjaldþrotaskiptum, senda á sama tíma út flugvélar með allt að 900 farþegum, vitandi að félagið myndi ekki geta flutt þá til baka? Hver er ábyrgð stjórnenda þessa fallna flugfélags?
Hvernig má að vera að flugfélag sem stefnir beint á hausinn og hefur reyndar gert frá stofnun, lætur það gerast að tæplega tvö þúsund farþegar verða strandaglópar á erlendri grundu? Hver er ábyrgð stjórnenda þessa félags?
Hvernig má það vera að lífeyrissjóðir eru að leggja flugfélagi til fjármuni launafólks, þegar það er rekið með milljarða tapi ár eftir ár. Tap fjögurra lífeyrissjóða nemur allt að 3 milljörðum króna, sem teknir verða úr vösum lífeyrisþega með lækkun lífeyris? Hver er ábyrgð stjórnenda þessara lífeyrissjóða?
Hvernig má það vera að flugfélag sem fer á hausinn getur skotið undan einu verðmætum fyrirtækisins og fært undir erlent skúffufyrirtæki? Að Play fari á hausinn og flugvélarnar færðar undir fyrirtækið Play! Skúffufyrirtæki á Möltu. Rétt eins og ekkert hafi í skorist, nema auðvitað að nærri tvö þúsund manns eru strandaglópar erlendis, lífeyrissjóðir launafólks tapa þrem milljörðum, einhverjir tugir milljarða uppsafnað tap félagsins og kolefnisskatturinn sem féll á gjaldaga í dag, lendir á þjóðinni. Engar eignir verða eftir upp í þessa skuld, þar sem flugflotinn færist undir erlenda deild hins fallna flugfélags. Hver er ábyrgð þeirra sem eiga að verja okkur fyrir svona glæpastarfsemi?
Þegar Skúli sigldi sínu flugfélagi í strand voru allar flugvélar kyrrsettar þar sem þær voru. Hvers vegna er það ekki gert núna.
Svo heldur forstjórinn því fram að fólk muni sakna starfa hans, sakna þess að lífeyrir þess dregst saman, sakna þess að verða strandaglópar erlendis, sakni þess að taka á sig tugmilljarða skuldir sem hann hefur safnað upp! Er maðurinn algjörlega utan við raunveruleikann?!
![]() |
Líkur á að allar vélar Play endi í félaginu á Möltu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)