Landið þitt og landið mitt og landið okkar allra

Ég ætla rétt að vona að fyrirsögn viðtengdrar fréttar sé til komin í höfði fréttaritarans, ekki utanríkisráðherra. Hún á ekki Ísland, heldur við íbúar þess, því hefur hún væntanlega sagt "Áhyggjuefni fyrir lítið ríki eins og okkar". 

En hvað um það, ráðherra hefur verið nokkuð orðhvöss í ýmsum málum og breytir svo sem ekki út frá þeirri venju sinni í þessu ávarpi sínu. Hleypur nokkuð um víðan völl, eins og áttavilltum er gjarnt. 

Ráðherra hefur áhyggjur af því að nú "molni" undan aljóðalögum. Þar ætti hún að skoða hvers vegna svo er, ekki fullyrða um hluti nema hafa kynnt sér málið til hlítar. Víst er að hópar sem vilja minni afskipti af alþjóðasamfélaginu og kröfum frá þeim, er heldur að vaxa fiskur um hrygg. Vilja sjá fullveldi ríkja verða meira og hafa ákvarðanavaldið nær sér. Að löggjöfin sé gerða neðanfrá en komi ekki að ofan. Út á þetta gengur lýðræðið. Andstaða þess er hins vegar boðvald að ofan, einkum boðvald alþjóðastofnana. Að einstaklingurinn fái ráðið sinni framtíð í eigin landi en þurfi ekki að lúta ofurvaldi þeirra sem með fjármuni heimsins fara. 

Sagan segir okkur að ætíð þegar stjórnvöld taka sér meira vald en almenningur getur sætt sig við, verður uppreisn, stundum blóðug. Þangað stefnir hinn vestræni heimur óðfluga. 

Ráðherra nefnir auðvitað stríðin tvö sem lita nútímann. Innrás Rússa í Úkraínu og varnarstríð Israel eftir blóðuga árás Hamasliða þann 7. október, 2023, sem múslimaheimurinn fagnaði um allan heim. Árás sem á sér enga fyrirmynd. 

Varðandi stríðið í Úkraínu þá verður að segjast hreint eins og er að þar er enginn vilji til sátta og hefur aldrei verið. Við upphaf þess stóðu Þjóðverjar harðir gegn því eina svari sem Pútín skilur, hernaðarlegu svari af þeirri stærðargráðu sem hann réði ekki við. Síðan þá hefur mörgu lífi verið fórnað að ósekju. Stríðinu viðhaldið út í hið óendanlega, einkum vegna græðgi þeirra sem mest á slíku græða. Þeim hefur verið færð hin eiginlegu völd, afleiðing heimspólitíkur. Að nokkur stjórnmálamaður í hinum vestræna heimi skuli voga sér að tala um það stríð eins og eitthvert ill leysanlegt vandamál, er með ólíkindum. Það vandamál mátti leysa á fyrstu dögum þess. En hvorki var vilji né þor til þess. 

Stríðið í Israel er af nokkuð öðrum toga. Það hófst með einstari fólskuárás Hamasliða inn í Israel, þar sem hundruðin voru drepnir, fjöldi fólks tekið í gíslingu og lík þeirra dánu voru svívirt. Allt tekið upp á myndbönd og þeim útvarpað um allan heim í rauntíma. Múslimaþjóðir fögnuðu ákaft, enda þeirra markmið alla tíð verið að útrýma Israel. Hvað hélt fólk að Israel myndi gera? Vitandi að þar var við völd einn herskáasti maður um langan tíma, var ljóst að svarið yrði ofsafengið. Þeir sem héldu annað kunna ekki að lesa stjórnmál. 

Reyndar gaf Israel Hamasliðum heila viku til að skila gíslunum, en það var ekki gert. Á hvaða tímapunkti sem er gat Hamas skilað gíslunum og tekið þannig vopnin af Israel, en kusu að gera það ekki. Þegar sá sem kveikir í eigin húsi hefur ekki vit á að forða sér, brennur hann auðvitað inn. 

Og nú keppast stjórnmálamenn heimsins við að samþykkja svokallaða tveggja ríkja lausn. Sumir setja skilyrði en aðrir ekki. Þau skilyrði snúa einkum að því að útiloka Hamas. En hefur Hamas verið spurt hvort þeir séu tilbúnir að ganga að þessari lausn? Auðvitað ekki, enda svarið einfalt, við viðurkennum ekki Israel svo tveggja ríkja lausn er ekki í boði og alls ekki ef Hamas á að víkja. Þetta er því engin lausn, ekki fyrr en Hamas hefur verið þurrkað út. Þá má skoða hana. Tveggja ríkja lausn hefur tvisvar áður verið samþykkt, af bæði fulltrúum Israel og Palestínu. Þáverandi forustumaður Palestínuaraba, Yasser Arafat galt að lokum með lífi sínu þau svik við Palestínu, enda þar skýrt að aldrei mætti viðurkenna Israel sem ríki. 

Afleiðing alls þessa er að fjölmiðlar og auðvitað fylgja pólitíkusarnir þeim, hefur tekist að vekja upp gamlan draug fortíðar, draug sem maður hélt að væri dauður en lifir enn góðu lífi, gyðingahatrið. Svo rammt kveður að þessu nú um stundir að ekki er séð hvaða afleiðingar það mun hafa. Þar er mannskepnunni rétt lýst, er ætíð sjálfri sér verst.

Undir lok ávarpsins kom ráðherra með eina gleðifrétt, Antonio Guterres er kominn á síðasta söludag. Þessi maður sem skaðað hefur SÞ meira en nokkrum her væri unnt, er loks að fara að stíga niður. Farið hefur betra fé. Ráðherrann okkar vill auðvitað kynsystur sína í stólinn, nefnir ekki sjálfa sig en sjálfsagt telur hún sig þess verða. Að ráða í eitt æðsta embætti heims eftir kyni er auðvitað galið. Þar á geta að ráða. Auðvitað er slík geta til í báðum kynjum, en kyn má aldrei ráða. Ekki beinlíns hægt að segja að yfirráð kvenna hér á landi hafi verið heillaspor fyrir þjóðina. Helstu einkenni íslensku ríkisstjórnarinnar einræðistilburðir og hroki. Ekki kannski það sem SÞ vantar nú, eftir áralanga óstjórn. 


mbl.is „Áhyggjuefni fyrir lítil ríki eins og mitt eigið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. september 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband