Og verðbólgudraugurinn dafnar

Della eða ekki skal ósagt látið, en engu að síður stór undarlegt. Að fjármálaráðherra skuli fela sig bak við fyrri ríkisstjórn er auðvitað eitthvað svo kol rangt.

Fjármálaráðherra er vorkunn. Hefur yfir sér þrjár konur, hver annarri frekari á aurinn. Reyndar náði hann að plata eina þeirra upp úr skónum, leyfir henni að bruðla örlitlum aurum til skjólstæðinga sinna, aurum sem hann sækir til annarra skjólstæðinga hennar. Komst þar á blóðbragðið sem einkennir þessi fjárlög. Verst er þó fyrir ráðherrann að hafa sinn formann í ráðherrastól. Henni getur hann ekki stjórnað né platað, gæti þá misst stólinn. 

Þær fraukur er stjórna landinu hafa mikið talað um að standa vörð um um lítilmagnann, svona eins og síðasta ríkisstjórn krata, sem ætlaði að reisa skjaldborg um heimilin. Því lofað að ekki yrðu hækkaðir skattar á heimilin og umhverfi atvinnulífsins bætt og einfaldað. Að stuðla þannig að því að minnka kostnað og lækka verðbólgu og vexti. 

Hver er svo niðurstaðan, um hvað fjalla svo nýju fjárlög, sem fjármálaráðherra segir vera runnin úr ranni síðustu ríkisstjórnar? Jú, skattahækkanir á skattahækkanir ofan! SJS er að missa titilinn sem skattaskelfir Íslands, yfir til ráðherra sem ekki var kosinn af þjóðinni. 

Launafólk í landinu horfir upp á allt að 20 milljarða skattahækkun í formi minnkandi tekna aldraðra, styttingu atvinnuleysisbóta, raunlækkun barnabóta, lækkun húsnæðisbóta, aukinni skattheimtu með upptöku kílómetragjalds, niðurfellingu samsköttunar hjóna og verðtryggðum hækkunum allra krónuskatta, meðan almenningur þarf að herða sultarólina. Fleira má telja en þessir liðir vigta mest.  Allir þessir skattar leggjast þyngst á þá sem minna hafa og auðvitað landsbyggðina. Ofaná þetta koma svo skattar á atvinnulífið, sem auðvitað lendir fyrst og fremst á almenningi að borga, gegnum hærra verðlag. Þetta kallar ráðherra hagræðingu upp á 13 milljarða. Önnur eins öfugmæli er fáheyrð!

Verðbólgudraugurinn mun dafna vel, atvinnulífið mun blæða og sultarólin herðist enn frekar að almenningi. Atvinnulífið lamast og almenningur missir vinnuna. Ekki fögur sjón.

Þó verður að segja að útspil nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokksins, um sölu Landsbankans, toppi þó enn frekar þetta rugl allt saman. Engum bónda, sama hversu að hefur þrengt, hefði dottið til hugar sú fávisku að selja frá sér bestu mjólkurkúnna. Fyrir hvað er þá lifað. Landsbankinn er að gefa ríkissjóð í arð um 20 milljarða á þessu ári, án nokkurs kostnaðar fyrir ríkissjóð. Sú upphæð mun bara hækka á komandi árum, þegar búið verður að borga niður monthöllina sem reist var í kjölfar bankahrunsins. Að ætla að selja bankann fyrir 200 milljarða, tífaldan arð ársins í ár, er þvílík fásinna að maður hélt að jafnvel sjallar áttuðu sig á því. Sorglegt að svo skuli ekki vera. 

Það sem landið þarf er aðhald á öllum sviðum. Stjórnvöld eiga að setja á algjört stopp á útgjöld ríkissjóðs og ráðherra, utan þess sem lögbundið er, heilbrigðisstofnanir og menntakerfið. Öll önnur útgjöld á að frysta þar til búið er að velta við hverjum steini, búið að losa ríkissjóð við alla þá sem fjármálaráðherra sagði vera áskrifendur að launum sínum og finna hvert það skúmaskot sem aurar okkar týnast í. Heilbrigðiskerfið verður að virka, sem og menntakerfið. Því er nauðsynlegt að þangað fari rekstrarfé en þar eru líka mörg skúmaskotin sem þarf að skoða og ræsta. 

Skatta á að lækka, bæði á fólk og fyrirtæki raunverulega lækka, ekki með einhverjum undanbrögðum sem þetta fjárlagafrumvarp sýnir. Fyrirtækin munu þá lifa af og fólkið heldur atvinnu. Þetta eru sársaukafullar aðgerðir en ef vel tekst, ef staðið er að málum með festu, mun það skila landinu sterku á öllum sviðum. Þessu þarf auðvitað að fylgja traust til þess að almenningur fái síðan notið þessa, enda ekki síst hann sem þarf að blæða á meðan aðgerðir standa yfir. 

Ef vilji er til að ná tökum á vanda þjóðarinnar þarf að taka til hendi. Þar er enginn undanskilinn. Fjármálafrumvarp ríkisstjórnarinnar vinnur þvert gegn því, þar eru byrgðar enn og aftur færðar á almenning. Málefnaskráin er síst betri. Þar er beinlínis verið að etja saman hópum, þjóðin klofin í herðar niður. Það er það síðasta sem við þurfum!

Sem fyrr segir, þá vorkenni ég fjármálaráðherra. Hann vill sjálfsagt vel en ræður engu. Við þær aðstæður stækka menn við það að ganga út, láta ekki hafa sig að fífli!


mbl.is „Hvaða endemis della er þetta?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. september 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband