Svo bresta krosstré sem önnur tré

Forsetinn kallar eftir aukinni virðingu, trausti og ábyrgð þingmanna og Alþingis. Var þar auðvitað að vísa til þeirra ótrúlegu uppákomu á síðasta vorþingi, þegar forsætisráðherra hafði ekki burði til að ná samningum við stjórnarandstöðuna, svo ljúka mætti þingstörfum. Sumir kalla þetta málþóf stjórnarandstöðu, en réttnefnið auðvitað getuleysi forsætisráðherra. 

Þessu vill forsetinn breyta og nefnir að hugsanlega þurfi að breyta þingsköpum, jafnvel einnig stjórnarskrá. Hvað þessi uppákoma í vor kemur stjórnarskrá við er vandséð, en vissulega þarf að breyta henni svo hægt sé að samþykkja sum mál á málefnaskrá ríkisstjórnarinnar, fyrir næsta vetur. Nefni sem dæmi bókun 35. Og auðvitað þarf breytingu hennar svo áframhaldandi innleiðing inn í esb geti haldið áfram. 

Þegar farið er að ræða breytingu á þingsköpum, í þeim tilgangi að hefta málfrelsi þingmanna, erum við komin á hættulega braut. Staðreyndin er að sú uppákoma er varð síðasta vor var ekki málþóf. Síðasta málþóf á Alþingi fór fram skömmu fyrir aldamót, þegar þingmaður talaði í ræðustól í 11 klukkustundir samfellt. Það kallaðist málþóf.

Staðreyndin er að meirihluti Alþingis hefur með dagskrárvaldið að gera, minnihlutinn ræður þar engu. Eina vopn minnihlutans er að tefja afgreiðslu mála með því að ræða þau í þaula. Það er síðan fulltrúi meirihlutans, forsætisráðherra, sem þarf að ná sáttum við minnihlutann. Notkun greinar 71 er ekki lausn, heldur virkar hún sem bensín á eld. Samningar og sátt er það sem eykur virðingu okkar kjósenda fyrir Alþingi, ekki yfirgangur og frekja. Ef þessi réttur minnihlutans til að tefja mál og reyna þannig að ná einhverri sátt um málalok er afnumin, er það skerðing á tjáningarfrelsi. Skerðing á lýðræðinu í landinu. 

Það er ekki glæsilegur forseti í lýðræðisríki sem leggur slíkt fram! Það mun hvorki auka virðingu forsetaembættisins né Alþingis!

Kannski ráðamenn ættu að skoða störf Alþingis, áður en þeir tjá sig á þann veg sem forseti gerir. Tvisvar áður, frá bankahruni, hafa komið upp svipaðar aðstæður á þingi og í vor. Fyrra skiptið í umræðu um icesave samninginn, sem þáverandi forseti vísaði síðan til þjóðarinnar og var felldur á eftirminnilegan hátt. Seinna náðist fullnaðarsigur í því máli fyrir dómstólum. Betra hefði farið ef meirihlutinn hefði hlustað á þeim tíma. Síðara málið var afgreiðsla Alþingis á orkupakka 3. Við erum farin að finna á eigin skinni að þar hefði meirihluti Alþingis betur hlustað. Það mál sem um var fjallað í vor var um ofurskatta á útgerðina. Þegar er farið að koma í ljós að þar var farið offari af stjórnvöldum og víst að framundan eru hamfarir í mörgum sjávarplássum landsins vegna þess, manngerðar hamfarir skapaðar af meirihluta Alþingis. Kannski hefði meirihlutinn átt að hlusta þá líka. Minnihluti Alþingis hefur aldrei beitt því eina vopni sem hann hefur að reyna að tefja mál nema fyrir liggi að starfandi meirihluti er augljóslega að gera rangt. 

Við lifum á viðsjárverðum tímum. Okkur hefur þó enn tekist að halda málfrelsinu lifandi, þó að því sé sótt úr flestum áttum. Aldrei hélt ég þó að við kysum yfir okkur forseta sem væri á þeirri línu að málfrelsi væri eitthvað slæmt fyrir þjóðina.

En svo bresta krosstré sem önnur tré.


mbl.is Halla: Hugsanlega tímabært að hugleiða breytingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. september 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband