Styttist í kosningar?

Fyrir síðustu kosningar var aldrei rætt um aðlögun Íslands að esb, aldrei rætt um hvort gamla umsóknin væri enn gild, enda legið fyrir fram á þennan dag að svo er ekki. Einungis hörðustu aðildarsinnar hafa haldið upp þeim málflutningi hér á landi, allt frá því bréf þess efnis að Ísland væri ekki lengur umsóknarríki var samþykkt af framkvæmdarstjórn sambandsins. Nú bregður hins vegar öðru við, sjálfur forseti framkvæmdarstjórnarinnar heldur því fram að umsóknin sé gild og skiptir þá litlu máli hvað hver segir, hún er valdið. 

Þegar Kristrún Frostadóttir tók við Samfylkingunni, stefndi flokkurinn út af þingi. Fylgið féll jafnt og þétt. Hennar fyrsta verk var að tilkynna að aðildarviðræður væru alls ekki í forgangi, að önnur og þarfari mál þyrfti að laga fyrst, einkum hagstjórnina. Ung og fersk, nýkomin úr starfi fjárfestingarbanka, fasið ferskt og að því er virtist manneskja sem vissi hvað hún sagði og hefði burði til að fylgja því eftir. Og fylgi flokksins rauk upp. Kannski fyrst og fremst vegna þess að aðlögunarumsóknin hafði verið læst niður í skúffu, að okkur var sagt. 

Viðreisn átti erfiðara með að auka sitt fylgi, hélt sig nálægt sínum 6% sem sá flokkur hafði lengst af haft. Allir vita jú tilurð þess flokks, flís esb sinna úr Sjálfstæðisflokki. Eina mál þess flokks var aðild að esb, önnur fengin lánuð frá öðrum flokkum, eftir hentugleika hvert sinn. Nokkru fyrir kosningar hætti formaðurinn að tala um esb aðild, sneri máli sínu að öðrum málum, gjarnan eftir því hvernig vindar blésu þá stundina. Þetta gerði hún í óþökk margra þeirra er gengið höfðu úr Sjálfstæðisflokki og stofnað Viðreisn. En þetta bar árangur. Fylgið fór að aukast og í kosningum náði þessi flokkur 15.8% fylgi. 

Eftir kosningar mynduðu þessir tveir flokkar svo meirihluta með tilstilli Flokks fólksins, en um hann þarf ekki að ræða, er búinn að brenna allar brýr að baki sér. 

Þessi nýja ríkisstjórn gerði auðvitað með sér stjórnarsáttmála, alls upp á 23 kafla. Þegar blaðað er í þennan stjórnarsáttmála er ýmislegt að sjá.

1. kaflin  fjallar um það mál sem kannski mesta var rætt fyrir kosningarnar og mestu skiptir fyrir okkur sem þjóð, efnahagsmálin. Allir muna eftir stóru sleggjunni sem átti að notast til að berja niður vextina og planið sem reyndar ekki var skilgreint neitt frekar. Og 1. kafli stjórnarsáttmálans ber keim af þeirri umræðu, ná stöðugleika og minnka hallarekstur. Raunin er nokkuð önnur. sjaldan eða aldrei hafa ráðamenn þjóðarinnar farið á jafn mikið peningafyllerí en einmitt sú stjórn sem nú situr og þar hafa þær stöllur Kristrún og Þorgerður verið atkvæðamestar, sérstaklega á erlendri grundu. Hafa dreift okkar gjaldeyri sem sælgæti hvar sem þær koma.  

3. kaflinn fjallar um samgöngur. Þar er lofað að vinna á innviðaskuld vegakerfisins, rjúfa kyrrstöðu í jarðgangnagerð og efla samgöngusáttmálann. Einungis það síðastnefnda fær eitthvað gildi í verkum stjórnarinnar. Ekki gert ráð fyrir neinum peningum ´til jarðgangna þetta kjörtímabil og innviðaskuldin eykst sem aldrei fyrr. Vegir ónýtir um stóran hluta landsins. 

4., 5., 8., 14. og 15. kaflar sáttmálans eru mjúku málin, hugðarefni Flokks fólksins og ekkert þeirra hefur litið dagsins ljós og ekkert útlit fyrir að svo muni verða. Hjakkað í sama farinu og það litla sem gert er, er heldur til óbóta. 

12. kaflinn er um matvælaframleiðslu. Frekar rýrt innihald utan 48 dagarnir, mál Flokks fólksins. Allir vita hvernig það fór. Jú, og svo auðvitað ofurskattar lagðir á útgerðina, sem mun stuðla að enn frekari samþjöppun á þeim vettvangi. Landbúnaður vart nefndur.

Svo er það 21. kaflinn. Hann er nokkuð merkilegur en ekki víst að þeir sem þar eru nefndir kannist mikið við efndir.

Að endingu, í lokakaflanum, þeim 21., er rætt um utanríkismál. Heilar fimm línur. Ein þessara lína inniheldur loforð um að kosið yrði um aðlögunarviðræður fyrir 2027. Miðað við hvernig ríkisstjórnin hefur starfað til þessa mætti ætla að síðasti kaflinn hefði átt að vera efstur á blaði. 

Það er deginum ljósara að Flokkur fólksins hefur gengið verulega skertur frá borði. Jafnvel svo að flestir væru búnir að slita samstarfinu. 
Fyrir kosningar var þessi flokkur með ákveðnar skoðanir á ýmsum málum, sögð stór orð. Eftir kosningar var bara hlegið og sungið, fylleríið hafið. Spurning hvort þingmenn þessa flokks sé til í að hlægja og syngja áfram með sínum formanni. Formaðurinn mun aldrei slíta samstarfinu, þingmenn flokksins hafa valið. Eða eru þeir allir sem formaðurinn, algerar druslur þegar til á að taka. 

Það er hins vegar samskipti hinna tveggja flokkanna, Samfylkingar og Viðreisnar, sem vekja upp spurninguna sem prýðir þennan pistil. Þar virðist eitthvað stórt í gangi. Formaður Viðreisnar hefur leynt og ljóst gengið veginn til esb. Þegar gert samkomulög og gerninga framhjá Alþingi. Annar ráðherra flokksins hefur verið henni handgengin í þessu starfi. Þær skeyta engu um þjóðina eða þau vandamál sem við er að etja hér á landi. Einungis unnin verk í þágu esb. Haga sér sem talsmenn sambandsins en ekki kjörnir fulltrúar á þingi. Leynd og lygi eru þeirra systur.

Framanaf lét forsætisráðherra sér þetta í ljúfu lagi vera, en nú virðist eins og snurða sé hlaupin á þráðinn. Gerir sér kannski grein fyrir að ekki sé vænlegt að kljúfa þjóðina í herðar niður, eins og forveri hennar um árið. Að það sé engum til hagsbóta. Kannski finnst henni formaður Viðreisnar vera of herská, of áberandi. Hver veit. Alla vega eru tafir á svörum frá henni, þegar sæluríkið ætlar að setja á okkur hefndartolla. En svo getur auðvitað verið að hún sé einfaldlega að bíða, kannski að efna eitthvað loforð, þar til tollurinn hefur verið á lagður. Afsökunin um að hún sé í fríi stenst ekki. Æðstu menn þjóðar, sem ráðist er gegn, koma heim úr fríi og berjast fyrir sína þjóð. 

Hver það verður sem slítur stjórninni er erfitt að segja. Flokkur fólksins er auðvitað sá aðili sem mest ranglætið hefur fengið í þessu samstarfi, þurft að falla frá flestum þeim grundvallarmálum sem þeir lofuðu kjósendum og orðið að horfa vanmáttugir á svik við það litla sem þeir þó héldu sig fá. 

Eða verður það formaður Samfylkingar sem sér um þetta verk? Að hún vilji ekki ana út í það fen sem Þorgerður Katrín er komin í og sokkin upp að öxlum. Að hún vilji frekar snúa við upp á fast land. Að einhver glóra sé í kollinum á henni. Að hún átti sig á að aðlögunarviðræður án þess að stór meirihluti þjóðarinnar sé þeim sammála, muni kljúfa þjóðina í herðar niður. Jafnvel gæti hugsast að hún hafi rekist á "planið" sitt, eða fundið sleggjuna og vilji snúa sér að þarfari verkefnum, að byggja þjóðina upp, að sinna hinum 21 flokkum stjórnarsáttmálans. 

Í öllu falli er ljóst að þetta samstarf þessara þriggja flokka er komið nærri endastöð. Þá mun þjóðin refsa. 

 


mbl.is Farið að minna á undirgefni Jóhönnustjórnarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 31. júlí 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband