Náföl og hrædd

Utanríkisráðherra kom náföl og hrædd fram í fréttum ruv í kvöld. Ótti hennar stafaði ekki vegna þess að 30 ára rótgróið fyrirtæki á Íslandi væri í hættu og störfum 33 starfsmanna þess stofnað í voða, nei, ráðherra óttaðist að ef ekki yrði farið í einu og ölu að kröfum esb, gæti Ísland lent á gráum lista sambandsins. Þetta var henni hugfangnara en íslensku störfin og íslenska þekkingin sem esb vill sekta fyrir, vegna meints sambands við Rússa.

Það verður vart skýrara hvar hugur hennar liggur, ekki hjá þjóðinni. ekki hjá fyrirtækjum landsins og ekki hjá fólkinu sem skapar auðinn til að halda henni uppi! Nei, hennar hugur er allur út í Brussel.

Þessar svokölluðu viðskiptaþvinganir Evrópuríkja, undir stjórn esb, eru hvorki fugl né fiskur. Öll ríkin brjóta þann samning þvers og kruss. Sjálft hjarta esb, Þýskaland, er þar sennilega verst. Verslar olíu og gas af Rússum eftir krókaleiðum, oftast gegnum Tyrkland en einnig öðrum, oftast flutt með skuggaolíuflota Rússa. Hátæknibúnaður streymir þangað austur, sem aldrei fyrr. Og ekki má gleyma öllum fiskinum sem þessi skuggafiskveiðifloti veiðir. Hvert fer hann? Jú, á markað í Evrópu! 

Það skýtur því skökku við að nú skuli hegna íslensku fyrirtæki fyrir eitthvað sem það alls ekki er sekt af. Og þar með stofna fjölda starfa í voða. Byrjið á því sem skiptir máli, olíu og gaskaupum af Rússum, sala á ýmsum tæknibúnaði svo þeir geti murkað lífið úr saklausu fólki í Úkraínu. Svona mætti lengi telja. Meðan ríki esb eru beinlínis að maka krókinn á stríðinu þar eystra, er tilgangslaust að elta einhver íslensk smáfyrirtæki sem hafa það eitt á samviskunni að pappírsleg tengsl er hægt að finna til Rússlands, þó nokkuð fjarlæg, áður en Pútín hóf helferðina. 

Vélfag er 30 ára gamalt íslenskt fyrirtæki, byggt upp af íslensku hugviti, með íslenskt starfsfólk, við að þróa hátæknilausnir í fiskiðnaði. Utanríkisráðherra hefur það verkefni að verja íslenska starfsemi á erlendri grundu, ekki eyða henni.  

Er ást ráðherrans virkilega svo mikil til esb, að hún telji að fórna megi íslenskum fyrirtækjum og íslensku störfum á altari sambandsins! Hún á að vera utanríkisráðherra Íslands, ekki málpípa og áróðursráðherra esb.

Ótti hennar við að styggja sambandið er fölskvalaus!

 


mbl.is Fjármunir íslensks fyrirtækis mögulega frystir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. júlí 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband