Margt er líkt með .....
9.5.2025 | 08:55
Þegar Trump lagði á ofurtollana, kallaði hann þá leiðréttingu.
Þegar íslenska ríkisstjórnin hækkar skatta, kallar hún það leiðréttingu.
Leiðrétting er auðvitað eitthvað sem rangt er og fært til betri v3gar. Hvorki tollar, skattar né önnur gjöld sem stjórnvöld setja á, getur kallast leiðrétting. Þar er einungis um að ræða aukna innheimtu stjórnvalda, innheimtu sem alltaf lendir á almenningi, með einum eða öðrum hætti, alltaf.
Tollar, sem geta verið af tvennum hætti, til varnar ákveðinni starfsemi innan viðkomandi lands, þ.e. verndartollar, eða tollar sem settir eru í þeim eina tilgangi að auka tekjur ríkisins. Flöt hækkun tolla fellur undir síðari kostinn, enda ekki tiltekið hvað nákvæmlega eigi að verja. Svo eru til faldir tollar, mjög vinsælir hér á landi, tollar sem kallaðir eru öðrum nöfnum.
Það sama má segja um skatta. Þeir eru ætlaðir til að fjármagna samneysluna, velferðarkerfið. En stundum eru skattar notaðir sem stýring á eitthvað, þá gjarnan undir öðrum nöfnum. Sykurskattur var eitt sinn lagður á okkar þjóð, sagður til að auka heilsu landmanna. Kolefnisgjöld eru sennilega þekktust stýriskatta í dag, sögð til björgunar heimskringlunnar. Fleiri slíka skatta má tiltaka, skatta, stundum undir öðrum orðum en alltaf skattar, sem stjórnvöld setja á í einhverjum tilgangi, að okkur er sagt, en eru einungis auknar álögur á almenning.
Allt tal um leiðréttingu tolla, skatta eða annarra gjalda er auðvitað út í hött. Skattar og gjöld eru sett á samkvæmt lögum og því er væntanlega innheimta þeirra samkvæmt sömu lögum. Annað er lögbrot. Ef vilji stjórnvalds til hækkunar skatts, verður því að breyta lögum. Það getur vissulega verið réttlætanlegt í einhve4jum tilfellum, en aldrei hægt að kalla slíkt leiðréttingu, heldur er um breytingu að ræða.
Öll gjöld, hvaða nafni sem þau nefnast, lenda á léttri pyngju almennings, ýmist með beinni aukinni innheimtu, hækkandi vöruverði eða minni atvinnu. Aldrei hefur aukin skattinnheimta verið greidd af arði fyrirtækja, alltaf velt niður á almenning.
Það verða alltaf meiri og meiri líkindi með málflutningi gamalmennisins sem stjórnar Ameríkuhreppi og íslensku ríkisstjórnarinnar. Það sem kannski verra er, er að athafnirnar eru einnig farnar að líkjast stjórnarathöfnum Trump. Ætt áfram með offorsi, án tillits til eins né neins. Óvirðingin gegn lýðræðinu alger!
Trump hvað?!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)