Ófagleg skipun
6.5.2025 | 08:55
Það á og má ekki skipta máli við ráðningu til vinnu eða skipun í stjórn fyrirtækja eða stofnana, af hvaða kyni viðkomandi er eða hvaða stjórnmálaskoðanir hann hefur. Þetta kemur skýrt fram í 65gr. stjórnarskrár okkar.
Varðandi pólitískt skipaðar stjórnir fyrir stofnanir ríkisins er enn mikilvægara að skipa faglegar stjórnir, getur verið einslit varðandi kynferði, jafnvel einnig pólitískt, en skulu vera faglega valdar. Þetta á ekki hvað síst við um skipan stjórnar Húsnæðis og mannvirkjastofnunar (HMS).
Við blasir stórt vandamál á sviði bygginga hér á landi, sem rekja má til breytinga á lögum um þennan málaflokk. Þær breytingar koma fyrst og fremst til vegna vel blýhúðaðra tilskipana erlendis frá, þar sem sérstaða Íslands er markvisst þurrkuð út og byggingar hér á landi færðar nær þeim kröfum er tíðkast í löndum með allt annað veðurfar en við búum við.
Fyrst var lögð niður sú stofnun sem hafði með að gera rannsóknir, þróun og ytra eftirlit með öllum byggingarframkvæmdum, Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins, þörf stofnun mönnuð einstaklega hæfu fólki. Störf hennar færð undir einkareknar verkfræðistofur. Slíkar stofur lifa auðvitað á viðskiptavininum og bera gjarnan hag hans fyrir brjósti.
Síðan var gerð breyting á byggingarreglugerð, þar sem framkvæmdaraðila var gert að hafa að mestu eigið eftirlit með byggingarframkvæmdum, dregið úr eftirliti leyfisveitanda. Það kann ekki góðri lukku að stýra.
Því er ljóst að endurskoða þarf þennan malaflokk, hverju þarf að breyta, hvað þarf að laga. Það er fráleitt að halda áfram á sömu braut. Við sem þjóð höfum ekki efni á að sóa fjármunum okkar í dýrt húsnæði sem ekki stenst tímans tönn. Við erum nauðbeygð til að taka á vandanum, hratt og örugglega. Hvort rétta leiðin er að snúa til baka eða einhver önnur, er ég ekki dómbær um, en á sömu braut verður ekki lengur haldið.
Auðvitað er það svo að flestir þeir sem byggja húsnæði gera það eftir öllum reglum og stöðlum, byggja gott húsnæði. Því miður eru svartir sauðir sem hugsa fyrst og fremst um stundarhagnaðinn og þeim virðist fjölga. Enda erfitt fyrir þá sem vilja gera hlutina rétta, að keppa við hina sem stytta sér leið.
Því er sennilega hvergi jafn áríðandi en einmitt við skipun stjórnar HMS, að skipa þar hæft fólk með mikla þekkingu á byggingartækni. Kyn, stjórnmálaskoðun eða trú á ekki að skipta þar máli, einungis hæfi. Það er ekki krafa um að æðsti yfirmaður HMS, ráðherra, hafi sérþekkingu á byggingarfræði, en slík krafa á vissulega að vera um stjórn stofnunarinnar.
Vilji ráðherra endilega skipa í stjórn eingöngu fólk úr eigin flokki er það svo sem allt í lagi, svo fremi að um hæft fólk sé að ræða. Þar klikkar Inga hressilega, enginn þeirra er hún velur hefur þekkingu á málaflokknum. Í síðustu kosningum fékk flokkur Ingu ágætis fylgi, reyndar mjög gott fylgi. Kjósendur flokksins skiptu tugum þúsunda. Hafi hún svo mikinn áhuga á að velja eigið fólk í stjórn HMS, er klárt mál að innan kjósenda Ff. er til hæft fólk, af báðum kynjum. Því hefði henni verið kleyft að velja eigið fólk en þó hæft og klárlega af báðum kynjum.
En Ingu bar ekki gæfu til þess, skipaði þess í stað það fólk sem næst henni er, sannarlega pólitískt pólitískt skipun, af verstu gerð!
![]() |
Skipun Ingu í stjórn HMS ekki lögmæt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)