Inga heldur uppi merkinu
29.4.2025 | 09:38
Það var stórfrétt þegar fjármálaráðherra skipaði nýja stjórn yfir eitt af þeim ríkisfyrirtækjum, sem hann passar fyrir okkur landsmenn. Enginn stjórnmálamaður skipaður í stjórnina, einungis "fagfólk". Þetta er auðvitað með öllu ófært og spurning hvort ráðherra verði ekki að víkja. Til hvers fagfólk þegar mægt framboð uppgjafar stjórnmálamanna er í boði. Það er ekki eins og þessar stjórnir séu að skipta sér af rekstrinum.
Og hvers eiga stjórnmálamenn að gjalda, þegar þjóðin hefur hafnað þeim? Það er ekki eins og einkarekin fyrirtæki vilji ráða þá. Hollusta þeirra nær eingöngu til þess tíma er hægt er að nýta þá í stjórnkerfinu.
En það birtir alltaf upp. Inga Sæland heldur uppi merkinu, gömlu gildunum. Hún ræður einungis flokksfélaga sína, reyndar ekki uppgjafa þingmenn, en svona næstum því. Hún lætur ekki ókjörinn ráðherra segja sér fyrir verkum, enda spurning hvers vegna fólk ætti að taka þátt í stjórnmálum ef það getur ekki úthlutað og þegið þægilega bitlinga. Lífið er nefnilega svo dásamlegt og skemmtilegt.
Annars er nokkuð magnað að lesa tvær fréttir á nokkrum dögum, aðra um gerðir Ingu, þegar hún setur yfir stjórn ríkisstofnun samflokksfólk sitt, þar sem enginn hefur sérþekkingu á þeim málaflokki sem stofnunin hefur umsjón með, málaflokks sem sannarlega er í molum og því brýnt að koma þar inn aukinni fagþekkingu.
Hin fréttin fjallar um ofurlaun ákveðins bæjarfulltrúa í Kópavogi, laun sem hún þiggur fyrir hin ýmsu nefndarstörf og setu í bæjarstjórn. Sjálfur hef ég vanist því að öll vinna sem ég vinn fyrir minn atvinnuveitanda, á vinnutíma, sé innan minna launa. Þetta er víst eitthvað öðruvísi í stjórnkerfinu. Þar fær fólk greinilega laun fyrir að mæta til vinnu og síðan greitt fyrir hvert viðvik sem unnið er.
Það magnaðast við þessar tvær fréttir er þó að þar koma saman þeir tveir stjórnmálaflokkar sem boða hvað harðast upprætun spillingar, Við sjáum efndirnar.
Flokkur fólksins og Píratar, blessuð sé minning þess flokks.
![]() |
Skora á Ingu að endurskoða skipan stjórnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)