Að kenna hamrinum um
24.4.2025 | 16:12
Það fer ekki milli mála að byggingar hér á landi eru langt frá því að standast kröfur, í flestum tilfellum. Rakaskemmdir algengar með tilheyrandi myglumyndun í kjölfarið, lekir gluggar og hurðir algengt vandamál og fleira má telja. Og auðvitað er verktakanum kennt um. Það er eins og fólk þekki ekki mannlegt eðli, að hver gerir hlutina sér eins létta og hægt er og eru verktakar þar engin undantekning. Vilja auðvitað fá sem mest fyrir sem minnst. Það er mannlegt eðli, þó siðleysið skíni þar í gegn.
Þess vegna erum við með ákveðið eftirlitskerfi með byggingum, kerfi sem lengst af virkaði ágætlega en hefur látið undan síðustu ár, með skelfilegum afleiðingum. Þar liggur sökin, ekki hjá framkvæmdaraðila, heldur eftirlitsaðila.
Fyrir nokkru var byggingareglugerð breytt. Byggingar og framkvæmdir voru sett í þrjá flokka, eftir umfangi þeirra. Þetta kemur fram í grein 1.3.2 í byggingareglugerð.
1. flokkur er húsnæði eða framkvæmd sem ekki er talin skapa mikla hættu fyrir fólk, s.s. geymsluhúsnæði, frístundahús, bílskúrar, viðbyggingar við þegar byggt húsnæði og svo framvegis.
2. flokkur er íbúðahúsnæði sem eru undir 8 hæðum og innan við 10.000 m2 að heildarstærð.
3. flokkur er síðan yfir allar aðrar framkvæmdir, s.s. opinberar byggingar, virkjanir, fangelsi og fleira.
Þessi breyting var gerð til að létta á eftirlitskerfinu og auðvelda fólki að byggja smærra húsnæði. Lítið sem ekkert eftirlit er með byggingum í 1. flokk, auk þess sem ekki þarf byggingarleyfi fyrir því. Auðvitað þarf framkvæmdarleyfi og skila þarf teikningum, en aðrar kröfur litlar sem engar og eftirlit á að vera í lágmarki.
Eftirlit með byggingum í 2. flokk átti að vera óbreytt, þ.e.a.s. virkt eftirlit á öllum byggingarstigum. Þarna hefur orðið brotalöm á.
Eftirlit með byggingum í 3. flokk eru síðan mun umfangsmeira og allar kröfur sterkari. Þarna hefur einnig orðið mikil brotalöm.
Byggingareglugerðin er skýr. Eftirlitskerfið ætti að vera skýrt. Þar er þó margt sem má bæta. Kannski má þar kenna misvitrum sveitastjórnarfólki um, sem sumstaðar hefur ekki viðurkennt þessa breytingu og lætur starfsfólk sitt eltast við menn sem t.d. eru að byggja sér pall eða smáhýsi. Láta svo mikið púður í að eltast við smámunina að stóru verkefnin gleymast. Verkefnin sem þó ríður mest á að fylgjast með að rétt séu framkvæmd. Kannski er það vegna þess að sveitastjórnir og starfsmenn þeirra treysta um of á loforð verktaka, eða jafnvel eru háðir þeim á einhvern hátt.
Í það minnsta er skelfilegt að horfa uppá sumar framkvæmdir, horfa á þegar verið er að búa til framtíðarvanda. Nú er ég ekki neinn tæknifræðingur, en ég veit að steinull dregur í sig vatn og ég veit að langan tíma tekur að þurrka það vatn úr steinullinni. Þó horfir maður á hús byggð, jafnvel opinbera stofnun, sem er einangrað að utan, fast á steinvegginn sem vart er þornaður, látið standa þannig mánuðum saman í öllum veðrum og svo rennandi blautri steinullinni lokar með klæðningu. Þetta er bein ávísun á vanda, fyrr en síðar. Eitthvað þarf vatnið úr steinullinni að komast og beinasta leið þess er inn í steinvegginn og kemur síðan nokkrum misserum síðar gegnum hann. Þetta eru engin geimvísindi, einungis einfaldar staðreyndir. Þarna á eftirlitið að koma til skjalanna, á að stöðva svona framkvæmd. Á að skikka verktakann til að einangra einungis það mikið að hægt sé að koma klæðningu yfir, áður en rignir. Menn geta gert einfalda tilraun með þetta, náð sér í smá steinull, bleytt hana og séð hversu lengi vatnið er að komast út úr henni.
Eftirlitskerfið er í molum. Væri það virkt, væru ekki þessi vandamál að koma upp, aftur og aftur.
Það er auðvelt að kenna hamrinum um þegar naglinn bognar!
![]() |
Byggingargallar alvarlegt vandamál |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)