Utanríkisráðherra fórnar framtíðinni

Vopnahlé er alltaf vopnahlé og því ber að fagna. Stríð eru einhverjar mestu manngerðu hamfarir sem þekkjast og því ætíð fagnaðarerindi ef annar aðili stríðandi ríkja boði vopnahlé. Auðvitað ætlast sá aðili til að mótherjinn svari þá í sömu mynnt. Því er ótrúlegt og reyndar óforsvaranlegt ef fulltrúi annarrar þjóðar talar gegn vopnahléi, jafnvel þó hún hafi megna ímugust á þeim er boðar vopnahléið. Slíkt er vart í anda kristinnar trúar og viðkomandi þjóð til háborinnar skammar.

Nú vita þeir sem vilja vita og einnig hinir sem ekki vilja vita en gera sér far um að skoða söguna, að Rússum er sjaldan treystandi. Skiptir þar litlu hvort um munnlegan eða skriflegan samning er að ræða. Dæmi þess í sögunni eru fleiri en svo að hægt sé að líta framhjá þeim. Hvort orð Pútíns um vopnahlé séu markverð eða ekki er þó ekki hægt að dæma fyrirfram. Hann setur þau fram með einni forsendu, að Úkraína svari í sömu mynnt. Öll neikvæðni er litin sem höfnun. 

Auðvitað verða herir Úkraínu að vera viðbúnir, enda illa brennt sig á Rússum gegnum söguna. Pútín hefur gefið út að hans herir muni verða viðbúnir einnig. Það sem skiptir máli er að ekkert verði gert sem gefur hans her tilefni til að brjóta þetta vopnahlé. Tal íslenska utanríkisráðherrans er einmitt til þess fallið.

Það er spurning hvert utanríkisráðherra er að draga þjóðina. Í gegnum tvær heimsstyrjaldir tókst okkur að vera hlutlaus þjóð, að því marki að við tókum ekki beinan þátt í þeim hildarleikjum. Eftir stríð höfum við haldið okkur á sömu braut, látið aðrar og öflugri þjóðir um styrjaldarruglið. Okkar hlutverk hefur verið að lána hér land fyrir hersetu, reyndar ekki spurð í fyrstu en síðar gerður samningur um slíkt. Þar höfum við raðað okkur á bekk með þeim þjóðum er teljast til lýðræðislegs stjórnarfar, gegn einræðisríkjum. Nú virðist stefnan vera meira í eina átt, í stað þess að horfa heiminn stærri augum. Ekki var kosið um þessa stefnubreytingu, fyrir síðustu jól.

Í síðar heimsstyrjöldinni var land okkar mikilvægt í flutningum á vörum til Rússlands, sem þá var orðinn samherji okkar gegn nasisma Þjóðverja. Svo mikilvægt var okkar hlutverk í þeim flutningum að segja má að þar hafi skilið milli þess hvort nasismi yrði ráðandi í heiminum, eða ekki. Rússar voru á þessum tíma í sárum eftir innbyrðis valdabaráttu, sem leitt hafði til þess að Stalín var búinn að lama heri sína og öll hergagnaframleiðsla var í molum. Ef ekki hefði komið til hinir miklu flutningar hergagna frá Ameríku til Rússlands, með nauðsynlegri viðkomu hér á landi, er víst að Hitler hefði náð að leggja Rússland.

Seinna, þegar við stóðum í stríði um landhelgi okkar og okkar nánustu vinaþjóðir lokuðu mörkuðum fyrir fiski frá okkur, þökkuðu Rússar okkur greiðann. Opnuðu á vöruskipti við okkur.

Hið pólitíska landslag í heiminum hefur breyst mikið hin síðustu ár. Einræðið hefur haldið velli í flestum einræðisríkjum, en aftur erfiðara að segja til um hvert stefnan er í þeim ríkjum sem talin eru lýðræðisleg. Þar eru blikur á lofti, einkum vegna þess að þær þjóðir eru farnar að elda grátt silfur. Í Bandaríkjunum er tímabundið forseti sem er bæði sjálfum sér, þjóð sinni og heiminum öllum stór hættulegur. Hann mun þó ekki ríkja lengi og aftur mun verða hægt að treysta á vinskap þar vestra. Í Evrópu er vandinn mun stærri. Þar hefur ESB tekið öll völd. Kosningar til forustu þar eru brandari, lítið betri en í Rússlandi eða Kína. Enn er sagt ríkja lýðræði í ESB ríkjum, en það skerðist hratt. Á þann væng vill utanríkisráðherra leiða okkur Íslendinga. Snýst gegn öllum sem ekki eru alveg á sama máli og ESB. Hvort heldur þar er um að ræða forna fjendur eða vinaþjóðir okkar til vesturs. Vill leggjast í fang ESB og setja okkur þar sem stríðsþjóð, jafnvel að skaffa þar fólk á vígvelli heimsins.

Þetta er helstefna. Engin þjóð hefur hernaðarmátt á við Bandaríkin. Í síðari heimstyrjöldinni var það sú þjóð sem leiddi heiminn til lýðræðis. Barðist á tveim vígstöðvum, í Evrópu og Asíu. Aðrar þjóðir höfðu ekki bolmagn til verksins. Enn í dag er það eina þjóðin sem getur staðið vörð lýðræðisins, þó nú um skamman tíma sé þar við völd gamalmenni sem ekki er tilbúið til hjálpar. Hann mun fara frá.

Að halla sér að ESB, með vanmáttugan herafla og fórna vináttu til vesturs, er hættuleg stefna. Þetta er sú stefna sem utanríkisráðherra okkar er að leiða þjóðina, til glötunar lýðræðis og jafnvel styrjaldarástands.

Forseti Úkraínu veit vel hvernig landið liggur, hann veit hversu vanmáttugt ESB er. Þegar Bandaríkin drógu verulega ú hernaðarstuðningi sínum, varð honum ljóst að ekki yrði lengra haldið. Að geta ESB til hjálpar væri engin. Því hefur hann gefið upp þá von að ná aftur réttmætum löndum Úkraínu og vill semja. Veit sem er að án Bandaríkjanna er það ekki hægt. Þetta segir manni allt um getuleysi ESB á hernaðarsviði, þegar sá aðili sem stendur næst hildarleiknum sér að ekki er hægt að treysta á hjálp frá þeim bænum. Þegar sá sem best þekkir og er mest þurfi, velur uppgjöf frekar en að treysta ESB.

Utanríkisráðherra okkar velur hins vegar getuleysið og fórnar sannarlegri getu til varnar lands okkar, af einskærri andúð á manni sem tímabundið er við völd í Bandaríkjunum.

Fórnar framtíðinni!

 


mbl.is Vopnahlé ekki á pútínskum forsendum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. apríl 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband