Líffræðileg fjölbreytni heiðarlanda
30.3.2025 | 08:48
Ég verð að segja að Jóhann Páll kemur skemmtilega á óvart.
Vernd á viðkvæmri náttúru okkar er eitthvað sem ætti að vera sjálfsagt mál. Kuldatímabil fyrri alda og stór eldgos hafa gert landið okkar rýrra en áður var, þó heldur horfi til betri vegar nú, með hlýnandi loftslagi. Svo illa kom landið undan þessu kuldatímabili að það var nánast orðið óbyggilegt í lok þess. Af þeim sökum flúði fjórðungur landsmanna til annarra landa, undir lok litlu ísaldar. En, eins og áður segir, hefur landið tekið nokkrum stakkaskiptum síðustu áratugi. Þar sem áður voru berir melar hefur laggróður náð að festa sig vel og þau litlu og vesælu kjarrlendi sem enn tórðu gegnum kuldatímabilið, hafa sprottið upp og sumstaðar dugir þar ekki að standa upp til að finna áttir, eins og stundum hefur verið haft að gríni.
Landgræðsla, gjarnan unnin af bændum, hefur einnig skilað stóru, þó gagnrýna megi einstök verk á því sviði. Þar má kannski kenna um fáþekkingu. Sem dæmi var allt of langt gengið í notkun lúpínu a þeim vettvangi, svo fögrum melum með sinni fjölbrettu lágflóru hefur verið fórnað.
En nú stöndum við á tímamótum, stórum tímamótum.
Erlendir aðilar í samvinnu við íslensk fyrirtæki, sækja að landinu okkar og hafa nú teygt sig út fyrir landsteinana. Síðasta dæmið er tilraunir með vítissóta í Hvalfirðinum. Tilgangurinn óskýr en afleiðingarnar gætu orðið geigvænlegar.
Vel grónu landi, jafnvel berjalandi, er umbreytt í gróðurleysi svo rækta megi þar skóga. Ekki til að bæta landið okkar eða líffræðilega fjölbreytni þess. Nei, þar liggur einungis eitt að baki, fégræðgi. Að rækta skóga til sölu kolefniseining svo erlend fyrirtæki geti áfram mengað andrumsloftið, núna bara löglega. Í þessu skyni hafa jarðakaup umbreyst. Þeir sem vilja búa á bújörðum og vernda land sitt og fjölbreytni þess, fyrir komandi kynslóðir, komast ekki lengur að söluborði bújarða. Peningaöflin hafa yfirtekið það, jafnvel svo að heilu sveitirnar eru undir. Þar er engin hugsun um líffræðilega fjölbreytni, einungis hversu mikið megi græða.
Heiðarnar eru viðkvæmastar. Þar er gróður viðkvæmastur, þar viðheldur fuglalífið sér og þar eru einstök lífkerfi í tjörnum. Þangað sækja erlendir vindbarónar einna mest og skelfileg hugsun ef, þó ekki væri nema hluti þeirra áforma raungerist. Vindtúrbínur eru ekki líffræðileg fyrirbrigði, heldur stóriðja. Reyndar má með sanni segja að vindtúrbínur séu einna hættulegastar allra hugmynda um orkuvinnslu, hvað líffræði varðar, hvað þá fjölbreytni hennar. Stór svæði verða eyðilögð til að koma þessum ófreskjum fyrir, sem síðan dæla út í andrúmsloftið hinum ýmsu tegundum mengunar, s.s. örplasti, sf6 gasi og olíu, svo eitthvað sé nefnt. Reyndar ekki co2 meðan þær eru í rekstri en nægt magn af því við framleiðsluna, frá hráefnatöku til fullbúinnar vindtúrbínu. Þá er mikil co2 mengun við reisningu þessara mannvirkja, vegagerð að byggingasvæði, plön og kranar auk flutninga frá hafnasvæði að virkjanasvæði og allri steypu frá steypustóð að virkjanasvæði. Þetta veldur einnig raski á jarðvegi, sem mun stuðla að aukinni losun co2 og það sem þó er verra, að vatnasvið heiðanna breytist þannig að heiðartjarnir munu þorna upp. Því er fátt sem getur skaðað líffræðilega fjölbreytni landsins okkar meira en vindorkuver. Við höfum ekki heimild til að fórna landinu á þann hátt, okkur ber skylda til að skila því eins góðu og í mannlegu valdi stendur, til afkomenda okkar.
Því fagna ég þessari áherslu umhverfisráðherra og vona að alvara liggi þar að baki.
Náttúrunni verður ekki bjargað með því að fórna henni
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)