Línur farnar að skýrast - og þó ekki

Deilt er um hvort forsætisráðherra hafi staðið rétt að málum, varðandi það leiðinlega mál sem fréttastofa ruv opnaði og leiddi til afsagnar eins ráðherra ríkisstjórnarinnar. 

Fram til þessa hafa spjótin staðið að fyrrum tengdamóður barnsföður ráðherrans. Jafnvel verið reynt að koma sökinni á þingmann sjalla. Í Silfri gærkvöldsins kom sannleikurinn í ljós - og þó ekki. Fréttamaður ruv margtuggði á því að fréttin væri unnin upp úr viðtali við barnsföður ráðherrans. Spurði reyndar hvernig hægt hefði verið að vinna fréttina á annan hátt.

Auðvitað var hægt að vinna fréttina á annan hátt. Til dæmis að setja hana ekki út í loftið fyrr en búið var að ræða við alla aðila málsins og kanna hvort um raunverulega frétt hafi verið að ræða. En það er auðvitað ekki þau vinnubrögð sem Helgi Seljan þekkir. Honum er lagið að setja fyrst fram einhliða "frétt" og krydda hana vandlega. Þetta kallar hann rannsóknarblaðamennsku en er meira í ætt við slúðursagnir.

Hitt stendur svo eftir, hvernig vissi Helgi, eða fréttastofa ruv, af því að fyrrum ráðherra hafi átt barn fyrir hjónaband? Hvernig vissi hann nafn barnsföðurins? Hvernig má það vera að á skömmu eftir að fyrrum tengdamóðir barnsföðurins sendi ósk um fund með forsætisráðherra, hafi Helgi farið að grafa þetta gamla mál upp? Hvaðan fékk hann veður af málinu? Ljóst er að fyrrum tengdamóðir barnsföðurins vildi ekki blanda fjölmiðlum í málið og sendi ósk um fund til forsætisráðherra án vitneskju barnföðurins.

Böndin berast því vissulega að forsætisráðuneytinu, eða flokk forsætisráðherra. Þar innandyra eru sumir í sárum frá síðustu kosningum og svo vill til að sá sem kannski er þar sárastur er fyrrum samstarfsmaður Helga Seljan. Ekki ætla ég að fullyrða að sá hörundsári hafi lekið upplýsingunum til Helga, en einhver gerði það.

Svo mikið er víst.

Um það sem á eftir kom, hringingar og heimsókn fyrrum ráðherra til fyrrum tengdamóður barnsföðurins, er auðvitað ekki til fyrirmyndar. En þó kannski eðlileg viðbrögð þar sem séð var að forsætisráðherra ætlaði ekkert að gera. Fyrrum ráðherra vissi ekki hvaða manneskja þetta var né um erindi hennar. Þurfti að leita hana uppi á facebook eftir að hafa fengið nafn hennar. Held að flestir í hennar stöðu hefðu viljað vita hvað væri í gangi og varla hægt að álasa henni fyrir það.

Sökin liggur ekki hjá fyrrum ráðherra, heldur þeim ráðherra sem átti að skoða málið og passa að það næði ekki til fjölmiðla fyrr en séð var hvort um frétt væri að ræða eða einfalda slúðursögu.

Til að taka af allan vafa þá kaus ég ekki Flokk fólksins, þekki ekkert til Ásthildar Lóu annað en það sem komið hefur í fjölmiðla af störfum hennar fyrir Hagsmunasamtök heimilanna og síðan þingmanns og ráðherra.

Ég brenn hins vegar fyrir því að allir njóti réttlætis, hvaða skoðanir sem þeir hafa. 

Pólitík sem byggir á slúðursögum er vond pólitík.


mbl.is Kristrún rengir tengdamóður á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. mars 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband