Vindorka, stiklað á stóru um söguna
2.3.2025 | 10:20
Á Íslandi hafa einungis verið reistar tvær vindmillur, báðar um miðja þar síðustu öld og gengu ágætlega. Þær stóðu í Reykjavík allt fram að aldamótunum 1900. Þetta voru kornmillur.
Hins vegar hafa margar tilraunir verið gerðar með að nýta vindinn á sama hátt til orkuöflunar. Þær tilraunir hafa flestar gengið illa eða alls ekki.
Lengi framanaf síðustu öld voru reistar vindrafstöðvar á sveitabæjum. Þetta voru litlar rafstöðvar, með litlu afli og á lágri spennu. Viðhald og einkum rafgeyma kostnaður varð flestum ofraun. Margir færðu sig því yfir í vélknúnar rafstöðvar, enda hægt að fá mun meira afl og hærri spennu með þeim hætti. Jafnvel svo að hægt var að nýta orkuna til meiri notkunar en bara lýsingar. Þegar landið var rafvætt og lagt heim að hverjum bæ, lagðist þessi menning af. Þó má enn sjá svona litlar vindrafstöðvar við sumarhús í sveitum landsins.
Í kringum lok áttundaáratugarins og fram á þann níunda varð nokkur umræða um að nýta vindinn að nýju. Tilraunir erlendis með stærri vindtúrbínur voru þá komnar fram og einkum nýttar til að hita vatn, þ.e. spaðarnir eða túrbínan var látin knýja einskonar bremsu ofaní vatni og átti það að mynda hita, jafnvel svo mikinn að hægt væri að kynda heimili. Kosturinn við þessa aðferð var að vatnið gat geymt varmann um nokkurt skeið, þó vindur blési ekki. Var einskonar geymsla fyrir orkuna. Því stærri tankur sem nýttur væri tilverksins, því meiri og öruggari geymsla varmans.
Ein tilraun var reynd á Íslandi, nánar tiltekið í Grímsey. Sumarið 1982 var sett upp slík orkuvinnsla þar, byggður tankur og leiddar leiðslur í hús, vindtúrbína sett á topp tanksins og tengd við bremsubúnað ofaní honum. Þetta verkefni gekk ekki upp og eftir því sem ég best veit stendur þetta mannvirki enn í eynni.
Þarna vaknaði minn áhugi á nýtingu á vindi, enda þá búsettur á svokölluðu köldu svæði og þyrsti mjög í heitt vatn, eða bara hvað sem var til að geta lækkað rafmagnskostnaðinn við kyndingu á heimili mínu. Við frekari skoðun á málinu kom í ljós að þessi aðferð var nokkuð notuð á Norðurlöndunum, einkum í Svíþjóð. Misjöfn reynsla, en þá, rétt eins og nú, var talað um að þeir þröskuldar sem eftir stæðu væru lágir. Að einungis tímaspursmál væri hvenær þetta yrði örugg aðferð. Það var þó ekki sá vafi sem stóð í mér, heldur einfaldlega auraleysi. Kostnaðurinn var meiri en ég gat með nokkru móti ráðið við. Veit ekki hvort þessi aðferð er enn brúkið þar ytra, en þykist viss um að svo sé ekki.
Fyrsta alvöru vindtúrbínan sem reist var hér á landi til raforkuframleiðslu, var reist í Belgsholti í Melasveit. Vindtúrbína sem gat framleitt meira rafmagn en heimilin þar þurfti og því gat hún selt orku inn á raforkukerfið. Þetta var sumarið 2011 og mannvirkið um 25 metrar á hæð og gat framleitt allt að 30 Kw. Skemmst er frá að segja að fyrstu fimm ár þeirrar virkjunar voru hrein hörmung. Hvert áfallið af öðru. Síðasta frétt af þessari mögnuðu tilraun kom um sumarið 2016. Þá sagt frá því að verið væri að starta virkjuninni upp í fjórða sinn. Síðan hefur ekkert til þess spurst.
Næsta vindorkuver kom svo í Þykkvabænum. Tvær vindtúrbínur er náðu um 52 metra upp í loftið hvor. Fljótlega brann önnur þeirra og hin bilaði. Þær voru síðan felldar. Franska fyrirtækið Qair hafði þá eignast þær, undir íslensku fyrirtæki sem það stofnaði og nefnist Háblær. Markmiðið var að setja í staðinn fyrir þessar tvær vindtúrbínur 13 stk. af 150 metra háum vindtúrbínum. Niðurstaðan var að Háblær (Qair) fékk að nýta undirstöður þeirra tveggja er staðið höfðu á svæðinu, gegn loforði um að ekki yrði um stærri mannvirki að ræða. Þær urðu þó örlítið hærri, eða um 60 metra háar.
Landsvirkjun setti upp tvær litlar vindtúrbínur fyrir ofan Búrfell. Rekstur þeirra gekk ágætlega, þó ekki sé hægt að finna í ársreikningi þeirra nákvæma hagkvæmnisútreikninga. Og nú ætlar það fyrirtæki að reisa fyrsta alvöru vindorkuverið á Íslandi. Staðsetning þess er við innganginn að hálendinu okkar og víst að ekki mun það draga að ferðafólk. Sennilega eitt stærsta skipulagsslys sem hingað til hefur orðið á landinu okkar.
Þar með var síðasta þröskuldinum eytt. Ef eitt fyrirtæki fær að reisa hér vindorkuver, er erfitt eða útilokað að standa í vegi annarra, sem hafa sömu áform. Það er sorglegt að fyrirtæki í eigu okkar landsmanna skuli standa að þeirri hörmung.
Það er ljóst að erlend öfl, einkum franska fyrirtækið Qair og norska fyrirtækið Zephyr, hafa litið heiðarnar okkar hýru auga. Ekki vegna fegurðar þeirra, heldur af einskærri peningafíkn.
Qair og Zephyr, erlend fyrirtæki sem erfitt er að reiða hendur á eignarhluti í, þó þau séu kennd við Frakkland og Noreg, eru einna frekastir hér á landi. Stundum undir eigin nafni en stundum fela þeir sig bakvið skúffufyrirtæki. Í viðhengdri frétt eru kynnt áform annars þessa fyrirtækis um vindorkuver Hallkelsstaðarheiði í Borgarfirði, nánast beint norður af Húsafelli. Hugmynd þeirra er að reisa þar allt að 14 vindtúrbínur, um eða yfir 200 metra háar.
Þessir menn virðast ekki gefast upp, ef fyrirstaða er á einum stað er bara reynt annarsstaðar. Náttúra eða dýralíf skiptir ekki máli, við landsmenn skiptum ekki máli. Bara ef við getum byggt upp sem flest vindorkuver. Ekki virðist heldur skipta þessa mann máli hvort markaður er fyrir alla þessa orku né hvernig afhenda eigi hana þegar ekki blæs.
Þetta bendir sterklega til þess að ætlun þeirra er ekki að framleiða rafmagn eða selja það, ætlunin er heldur ekki að reka þessi orkufyrirtæki. Ætlunin er ein og einungis ein, að ná nægu fé út úr alþjóðlegum sjóðum sem styrkja þessi verkefni og láta sig síðan hverfa. Lengi framanaf hélt ég að þessir aðilar stóluðu á sæstreng til meginlandsins og þannig hærra orkuverð, bæði til þeirra sem og hærri raforkureikninga til okkar sem hér búum. Sú skýring heldur ekki. Þegar vindorkuver sem eru staðsett í löndum með mun hærra orkuverð en hér á landi og eru drifin áfram af gífurlegum ríkisstyrkjum, berjast í bökkum, er fáviska að ætla að hér á landi sé grundvöllur fyrir vindorkuverum, sama hversu margir strengir verða lagðir.
Náttúrunni verður ekki bjargað með því að fórna henni!
![]() |
Vilja vindorkugarð á Hallkelsstaðaheiði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)