Aðlögunarviðræður Guðrún, ekki samningaviðræður!

Er það virkilega svo að stjórnmálamenn telji aðlögunarviðræður við esb vera einskonar samningaviðræður? Er það virkilega svo að sá sem býður sig nú fram til formanns í stærsta stjórnmálaflokk landsins, sé þessarar skoðunar?

Aðlögunarviðræður að esb eru eins og nafnið segir, aðlögunarviðræður. Snúast um það hvernig við ætlum að aðlaga okkar regluverk að regluverki sambandsins og hugsanlega hvort hægt er að fá einhvern tímabundinn frest til aðlögunar einhverra þeirra. Um samningsgerð er ekki að ræða, einungis hvernig við getum aðlagað okkar regluverk að regluverki esb. Einnig þurfa stjórnvöld umsóknarríkis að sýna fram á að sú aðlögun sé í gangi. Inngangan verður ekki fyrr en henni er lokið.

Við hófum þessa vegferð sumarið 2009 og henni lauk haustið 2012, þegar þáverandi landbúnaðar og sjávarútvegsráðherra neitaði að aðlaga landbúnað og sjávarútveg að regluverki esb, enda þessir þættir okkar hagkerfis að nafninu til utan ees samningsins, þó regluverki esb sé dengt af fullum krafti á þá. Þessi fyrirstaða ráðherrans varð til að esb stöðvaði í raun viðræðurnar, þar sem ekki var hægt að opna þá pakka. Jón Bjarnason á þakkir skyldar fyrir þá staðfestu sína.

Þá fóru ekkert á milli mála orð þáverandi stækkunarstjóra sambandsins, er hann sagði að ekki væri hægt að semja um neitt, umsóknarríki verði að gangast að öllum lögum og reglum esb til að fá inngöngu.

Því er undarlegt þegar fólk sem segist vera á móti inngöngu í esb, heldur því fram að hægt sé að semja við sambandið, að hægt sé að sjá einhvern samning og taka afstöðu til hans. Það hljómar ekki trúverðugt, sér í lagi í ljósi sögunnar.

Guðrún og aðrir þeir stjórnmálamenn sem halda þessari firru fram ættu að renna yfir Lissabon sáttmálann, allar 390 blaðsíður hans. Það er sá samningur sem okkur stendur til boða, með öllum lögum og reglum sem honum fylgir. Hvorki meira né minna. Viðræðurnar snúast um það eitt hvernig við ætlum að aðlaga okkur að honum, hversu hratt og kannski í einhverjum örfáum tilfellum hversu langan frest við þurfum. Undanþága er ekki lengur í boði

Reyndar væri flestum hollt að kynna sér sögu þessa samstarfs Evrópuríkja. Kynna sér hvernig þessi samvinna hefur þróast frá samstarfi um verslun og vinnslu með stál og kol, yfir í enn frekari samvinnu á viðskiptasviði. Kynna sér hvernig þessi samvinna þróaðist frá viðskiptatengslum yfir í stjórnmálasamband, fyrst með Maastrickt samkomulaginu og síðan Lissabonsáttmálanum. Þar með var komin upp sú staða að sambandið var orðið yfirþjóðlegt stjórnvald yfir aðildarríkjum þess. Stjórn með ráðherrum er hafa vald yfir aðildarlöndum esb. Stjórn sem hefur með að gera samskipti við þjóðir utan sambandsins. Stjórn sem hefur vald til að stofna her sambandsins og reyndar, samkvæmt Lissbonsáttmálanum, ber skylda til að stofna slíkan her.

Þessi þróun hefur stundum verið kölluð spægipylsuaðferðin, nafn sem einn af stofnendum Stál og Kolabandalagsins nefndi í upphafi þessa samstarfs. Ein sneið í einu þar til pylsan hefur öll verið skorin. Hann var sannspár, eða kannski var markmiðið frá upphafi að fara þessa leið. Að sameina sem flest ríki Evrópu undir eina stjórn, með einni sneið í einu. Eitthvað sem Hitler reyndi með hervaldi en mistókst en nú hefur tekist með peningavaldi.

Það sem Lusifer mistókst náði Mammon að afreka.

 

 


mbl.is Vildi ljúka viðræðum við ESB en á móti inngöngu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. febrúar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband