Þegar vísindi verða að trú
19.2.2025 | 08:23
"Við skulum passa okkur á að hafa vísindin með okkur og bera virðingu fyrir þeim." Svo mælist forstjóra LOGS.
Vissulega ber alltaf að bera virðingu fyrir vísindum, um það geta allir verið sammála. Vísindi byggja fyrst og fremst á forvitni. að vilja vita meira í dag en í gær. Leit að sannleikanum. En sannleikinn er ekki til, einungis sú vitneskja er rannsóknir gefa okkur og þá er auðvitað átt við þær rannsóknir er ferskastar eru hverju sinni. Þegar menn telja einhver vísindi sönn og óumbreytanleg, eru menn komnir á hættulegt stig. Eru farnir að beita orðinu "vísindi" á það sem frekar er í ætt við trúarbrögð.
Nýjustu rannsóknir benda til að skógrækt sé stórlega ofmetin í þágu bindingar co2 úr andrúmslofti. Þær niðurstöður segja þó ekki að skógar bindi ekki co2, heldur að mat á þeirri bindingu sé ofmetið. Þær rannsóknir benda til að aðrar gróðurþekjur séu ekki síðri til bindingar co2, einkum ef það er beitt af grasbítum. Þetta ferli sé flóknara en svo að hægt sé að taka einhvern einn lið og segja hann hinn eina rétta.
Þessi rannsókn tók hins vegar ekkert á fegurðarmati skóga eða gildi þeirra til að mynda skjól. Fegurðarmat er auðvitað afstætt og ekki vísindalega tækt, en hægt er að mæla hversu mikið skjól skógar gefa. Hins vegar kemur það ekkert bindingu co2 úr andrúmslofti við, ekki frekar en fegurð skóga.
Það er sorglegt að sjá að forstjóri LOGS skuli hafa þá hugsun að "annað hvort eða" sé málið, Annað hvort skógrækt eða engin skógrækt. Vísindi dagsins í dag segja ekki að skógar bindi ekki co2 úr andrúmsloftinu, einungis að um ofmat sé að ræða. Þau segja ekki að það eigi að hætta að planta trjám, einungis að huga þurfi að því hvar og hvernig staðið er að þeirri plöntun. Að velja þurfi af kostgæfni það land sem tekið er undir slíka plöntun og varlega skuli farið að undirbúningi hennar.
Þó þessi nýjustu vísindi segja okkur það að skógar séu ofmetnir í bindingu á co2 og að önnur landgæði geti verið betri, eru þetta svo sem ekki ný sannindi, hafa verið þekkt um tíma, þó hér á landi hafi ekki mátt minnast á það.
Þegar Yggdrasill Carbon plægði upp stór landsvæði lyngmóa við Húsavík, ofbauð þjóðinni. Þá fóru menn að átta sig á að skógrækt væri ekki algild og ekki mætti fórna hverju sem væri undir hana. Rannsóknir Önnu Guðrúnar Þórhallsdóttur, prófessors í landnýtingu, sem hún gerði hér á landi, eru í raun framhald þess verkefnis Yggdrasill, eða í það minnsta náðu þær rannsóknir eyrum og hug fólks. Þær rannsóknir eru þær nýjustu á þessu sviði og því nýjustu vísindin. Þeir sem efast um þessar rannsóknir eiga því að snúa sér að því að afsanna þær, auðvitað með rannsóknum.
Að ráðast gegn þeim persónum sem leggja fram rannsóknir, sér í lagi rannsóknir sem sína fram á breytt vísindi, er tilgangslítið og að ráðast gegn þeim sem talar gegn skógrækt, að því er virðist vegna aldur viðkomandi, er lúalegt! Hvort fólk er gamalt eða ungt, hefur það málfrelsi hér á landi, enn. Hvaða stöðu það hefur gengt um ævina, skiptir litlu máli.
![]() |
Svarar fyrir gagnrýni á kolefnisskógrækt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)