Blessuð vísindin
12.2.2025 | 00:32
Hætt er við að mörgum hafi brugðið þegar nýlegar rannsóknir gáfu til kynna að skógrækt væri stórlega ofmetin við bindingu kolefnis úr andrúmsloftinu. En svona eru nú vísindin, það sem talið er satt og rétt í dag getur talist hindurvitni á morgun.
Reyndar voru komnar raddir um þetta áður, þegar lyngmóum var velt við við Húsavík til trjáplöntunar. En nú liggja sem sagt niðurstöður rannsókna fyrir og ekki einungis að gróið land sé heppilegra til bindingu kolefnis en skógur, þá leiðir þessi rannsókn það í ljós að blessuð sauðkindin er þar í aðalhlutverki, að beitarlönd séu heppilegri til kolefnisbindingu en skógrækt. Segja má að sauðkindin hafi þarna fengið uppreista æru, eftir látlausa niðurlægingu. Henni kennt um allt sem miður fer hér á landi en veðurfar og eldsumbrot fengið að standa utan umræðunnar.
Það eru einmitt þeir þættir, veðurfar og eldsumbrot sem stærstan hlut eiga í þeirri eyðingu lands sem átti sér stað hér á landi fram á síðustu öld. Einnig mjög lágt gildi co2 í andrúmslofti á sama tíma, en það er lífsandi gróðurs og um leið alls lífs á jörðinni.
Talandi um co2, eða kolefni í andrúmslofti. Sagt er að það leiði til hlýnunar andrúmsloftsins. Um þetta deila þó sérfræðingar á því sviði, þó sérfræðingar í lygum (stjórnmálamenn og auðmenn) séu nokkuð sammála. Kannski, á allra næstu árum, munu þessi vísindi einnig kollvarpast, að samfélög viðurkenni þær rannsóknir sem draga þau í efa. Það er eitt að gera tilraun á tilraunastofu, annað hvað náttúran sjálf gerir.
Sjálfur er ég hrifinn af trjárækt og trjám. Þau veita skjól og eru falleg. Hins vegar þarf að gæta að hvar þeim er plantað. Tré eiga það nefnilega til að vaxa upp, nema auðvitað birkihríslurnar okkar, þær fylgja meira og minna jörðinni. En tré, einkum þessi innfluttu, vaxa upp. Því eru mikilvægt að gæta vel að þegar þeim er plantað. Auðveldlega má skemma fagurt útsýni, ef illa er farið að og enginn heilvita maður plantar trjám í aðflugslínu flugvalla. Slíkt er ekki hægt að kalla ónærgætni, heldur einskæra heimsku.
Ég er einnig einstakur áhugamaður um sauðkindina, dáist af henni í haga, sauðburður er einhver mesta skemmtun sem hægt er að komast í og ekki eru réttir síðri. Einkum dáist ég þó að henni á grillinu mínu, fæ ekki betri mat sem rennur ljúft niður og svo auðvitað betra veður í þokkabót, eða þannig.
Vísindin eru skemmtileg. Í gegnum aldirnar voru þau einkum bundin við hvað páfar og prestar sögðu og voru þá algild. Þeim sem sagan segir okkur að hafi verið vísindamenn áttu við ramman reit að draga og ef þeir létu ekki af stjórn kirkjunnar manna, voru þeir fangelsaðir eða jafnvel drepnir.
En vísindi eru aldrei algild. Þau þrífast á forvitni og efasemdum. Forvitni um að vita meira í dag en í gær og efasemdum um að það sem sagt er rétt og satt, sé virkilega svo. Þegar menn vilja meina að vísindi séu algild, þá er ekki lengur hægt að kalla það vísindi, heldur trúarbrögð. Þá færumst við aftur til þess tíma er páfar og prestar sögðu okkur hvað væri satt og hvað ekki.
Því miður erum við að færast til þess horfs. Meðan páfar og prestar réðu, var hægt að kaupa sér gæsku guðs með aflátsbréfum. Nú er okkur talin trú um að við getum keypt okkur betra veður með slíkum bréfum.
Það kallast ekki vísindi, heldur trúarbrögð!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)