Og enn er nöldrað um vindorku
5.9.2024 | 00:53
Það er alveg magnað að hægt sé að byggja vindorkuver á mörkum sveitarfélaga, án samráðs þeirra í milli. Ef ég vil byggja mér lítinn skúr á lóð minni þarf ég að hlíta ströngum kröfum um hæð hans og flatarmál og ef hann er nær lóðamörkum nágrannans en 3 metrar þarf ég skriflegt samþykki hans. Samt geta vindbarónar byggt himinhár vindtúrbínur, allt að 200 metra háar á mörkum jarða og sveitarfélaga án nokkurs samráðs við nágranna sína!
Sú deila sem er uppi milli sveitarstjórna á suðurlandi um staðsetningu vindorkuvers Landsvirkjunar, við innganginn á hálendið okkar, sýnir að fjarri fer að einhver sátt sé um þessa aðferð orkuöflunar. Reyndar er annað dæmi til þar sem svipuð staða er uppi, þ.e. í landi eiginkonu barnamálaráðherrans og tengdaföður hennar, Sólheimum í Dalabyggð. Þar er franskt fyrirtæki með áætlanir um byggingu vindorkuvers, reyndar töluvert öflugra en Landsvirkjun ætlar að reisa. Töluvert hærri og öflugri vindtúrbínur.
Staðsetning þessa vindorkuvers er á mörkum Dalabyggðar og Húnaþings Vestra. Framkvæmdasvæðið og einnig helgunarsvæði þessa vindorkuvers nær klárlega yfir sveitarfélagsmörk og hugsanlega mun einhverjar vindtúrbínur lenda í landi Húnaþings Vestra. Landamörk þarna á milli eru ekki skýr. Þó hefur hvorki það sveitarfélag, né þeir bændur er eiga lönd að, eða inná svæði vindorkuversins neina aðkomu að þessari framkvæmd. Þvert á móti er tekið illa í athugasemdir þeirra.
Nú veit ég ekki hvort Húnaþing Vestra hafi gert athugasemdir til Skipulagsstofnunar um þessa framkvæmd, geri þó fastlega ráð fyrir því. Frestur til að skila slíkum athugasemdum rann út núna á miðnætti. Þetta vindorkuver verður númer tvö í röðinni, hér á landi, á eftir vindorkuveri Landsvirkjunar.
Ef vindorkuver væru umhverfisvæn mætti hugsanlega horfa framhjá þeirri sjónmengun sem þau valda. Svo er þó ekki. Mengun þessara mannvirkja er mikil og mest mengun sem ekki er afturkræf.
Ef vindorkuver væru hagkvæm í rekstri mætti kannski horfa til þessara framkvæmda með blinda auganu. En fjarri fer að einhver hagkvæmni finnist í rekstri vindorkuvera. Í löndum þar sem orkuverð er margfalt hærra en hér á landi, reynist ekki unnt að reka þessa orkuöflun með hagnaði. Niðurgreiðslur til þeirra er gríðarleg og dugir þó ekki til. Einu vindorkuverin sem geta sagt að þau séu rekin með hagnaði eru þau orkuver sem fá greitt fyrir að framleiða ekki rafmagn. Þegar einn skoskur eigandi að slíku orkuveri var spurður hvort ekki væri fráleitt að byggja vindorkuver sem ekki mætti framleiða rafmagn, sagði hann stoltur að þetta minnkaði viðhaldskostnað og yki endingu vindtúrbínanna sinna. Honum var slétt sama þó almenningur væri að greiða fyrir ekkert.
Byggingakostnaður vindorkuvera er gjarnan greiddur með styrkfé og lánum. Fyrirtækin sem að baki standa eru fæst burðug til að greiða þann kostnað. Vel er þekkt erlendis að menn láti sig hverfa með stórann hluta þess fjár í skattaskjól. Er einhver ástæða til að ætla að erlendir vindbarónar sem hingað koma hagi sér eitthvað öðruvísi?
Að byggja vindorkuver á Íslandi, þar sem næg orka er til í fallvötnum og jarðhita, er álíka gáfulegt og að höggva skóg í vesturheimi, brytja hann niður í flísar og sigla tugi þúsunda tonna af slíkri flís til Íslands. Landa henni hér og skipa síðan aftur út á pramma sem dreginn er hálfa leið aftur til vesturheims, þar sem öllum þessum tugum þúsunda er sturtað aftur í sjóinn.
Fyrir þessari vitleysu féllu stjórnvöld hér á landi og margir sem töldu þarna veri gríðarleg tækifæri fyrir land og þjóð. Þegar eftirlitsstofnanir gerðu athugasemdir tóku ráðherrar fram fyrir hendur þeirra.
Sömu aðilar hafa fallið fyrir vindorkudraumunum. Sumir af því þeir hafa beina hag af því, aðrir af fávisku.
Hvenær í ósköpunum ætlar þjóðinni að auðnast að fá til starfa fyrir sig, við stjórn landsins, fólk sem hefur þann kost að geta lært af mistökum annarra þjóða?
Gríðarlega hættulegt fordæmi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)