Gæluverkefni

Það er engin neyð fyrir Siglfirðinga þó Strákagöng lokist. Þeir eru með einhverjar bestu samgöngur á landinu, eftir sem áður. Eru í góðu vegsambandi við landið.

Vissulega mun það breyta nokkru fyrir þetta samfélag, ef leiðin til vesturs leggst af. En að kalla það einhverja neyð er bein vanvirðing til þeirra sem búa við raunverulega neyð í samgöngum. Það fólk sem þarf að búa við illfæra fjallvegi og ófæra malarvegi hlýtur að vera framar í röðinni.

Það er hins vegar vel skiljanlegt að Siglfirðingar vilji vegasamband til vestur og kalli eftir göngum yfir í Fljót. Við höfum hins vegar ekki efni á slíku bruðli. Gleymum ekki þeirri umræðu sem fram fór áður en Héðinsfjarðargöng voru ákveðin. Þá gafst Siglfirðingum kostur á að fá göng yfir í Fljót. Því var hafnað og margfalt dýrari framkvæmd notuð til að tengja þennan stað við umheiminn, tvenn göng milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar, með viðkomu í Héðinsfirði. Framkvæmd sem aldrei mun borga sig fjárhagslega, ávinninginn verður að reikna eftir öðrum forsendum.

Eini ókosturinn við þessa leið er að lengra er til Reykjavíkur. Sumir nefna kannski ófærð í Ólafsfjarðarmúlanum, en þegar hann loksast eru Fljótin væntanlega löngu lokuð, enda snjóþyngsta svæði í byggð á Íslandi.

Það hefur legið fyrir um nokkurn tíma að gera þurfi göng sem leggja af Öxnadalsheiðina, einn af hættulegri vegum landsins að vetri til, þó verulega sé búið að endurbæta hann. Þar verða mörg slys á hverju ári. Það er því framkvæmd sem er mun þarfari en göng frá Siglufirði yfir í Fljót.

Ríkiskassinn er tómur, galtómur, reyndar rekinn á lántökum. Meðan svo er, er tómt mál að tala um einhver gæluverkefni í vegagerð. Þó vissulega stjórnvöld hafi samþykkt miklar og ófyrirsjáanlegar upphæðir til "vegabóta" á höfuðborgarsvæðinu þá er fráleitt að líta það sem einhverja fyrirmynd. Þar er mun fremur fáviska stjórnmálamanna sem ræður för.

Vegakerfi landsins er í molum eftir svelt á fjármagni til margra ára. Víða eru vegir sem ekki standast neinar kröfur, malarvegir, einbreiðar brýr og fleiri slysagildrur sem hafa tekið allt of mörg mannslíf. Þá eru, eins g áður segir, samfélög sem eru meira og minna án samgangna á landi svo mánuðum skiptir.

Það fé sem tiltækt er til samgöngubóta á fyrst og fremst að nýta til að fækka slysagildrum, laga ófæra vegi og koma viðunandi vegtengingum til þeirra sem enn skortir slíkan munað. Gæluverkefnin verða að bíða.

Það mun ekkert aukast slysahætta fyrir Siglfirðinga þó Strákagöngum verði lokað. Eina slysahættan þar er að ekki skuli þegar hafa verið lögð af sú leið. Þeir munu hafa mjög góða vegtengingu eftir sem áður, vegtengingu sem telst með þeim betri á landinu og með þeim allra dýrustu.

 


mbl.is Strákagöng lokast ef hlíðin fer
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. september 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband