Þingmenn hafðir að fíflum
24.9.2024 | 00:28
Það eru gömul sannindi að með aldri eykst viska. Menntun eykur hins vega þekkingu og ungt fólk getur haft góða þekkingu á ákveðnum sviðum. Best er þegar þetta tvennt fer saman, en því miður er ekki alltaf svo.
Þetta skaut upp í huga minn þegar bókun 35 við EES samninginn var tekin á dagskrá. Þeir sem voru komnir til vits og ára er sá samningur var samþykktur af Alþingi, með minnsta mögulega meirihluta, vita hver aðdragandi þess samning var. Þeir vita líka hver ástæða var fyrir frestun á samþykkt þeirrar bókunar. Þar voru ekki gerð mistök, heldur var frestunin gerð með vitund og vilja. Þannig og einungis þannig var hægt að fá samninginn samþykktan af Alþingi. Hvers vegna? Jú, vegna þess að ef sú bókun hefði verið samþykkt var komið skýrt brot á stjórnarskrá Íslands. Strax í kjölfarið hófst aðförin að stjórnarskránni. Að nauðsynlegt væri að breyta henni og ýmsar ástæður nefndar, þó að baki lægi alltaf sú hugsun að hægt yrði að uppfylla EES samninginn að fullu, þ.e. að Alþingi gæti samþykkti bókun 35.
Þetta vita allir þeir sem eru komnir til vits og ára í upphafi tíunda áratug síðustu aldar. Sumir vilja hins vegar ekki kannast við það en þar spila auðvitað pólitíkin inní. Aðalhöfundur samningsins, Jón Baldvin Hannibalsson, hefur staðfest þetta.
Nú liggur fyrir Alþingi að samþykkja bókun 35 við EES samninginn. Sagan að baki virðist gleymd flestum þingmönnum, enda kannski von. Flestir þingmenn í dag voru enn á skólaskyldualdri er EES samningurinn var samþykktur og sumir jafnvel ekki fæddir. Sjálfur flutningsmaður þess að samþykkja þessa bókun var þá á leikskólaaldri og því með öllu óþekkt þeirri umræðu sem fram fór. Því þurfa þessir þingmenn að treyst á aðkeypta þekkingu um málið, viskan er ekki til staðar. Þekking er þó aldrei betri en þess er hana gefur og því miður er vilji til að hlusta á ráðgjöf þeirra sem yngri eru rík hjá yngra fólki, hlusta á ráðgjöf þeirra sem hafa ákveðna þekkingu en eiga eftir að öðlast visku. Þetta leiðir til þess að oftar en ekki getur þekking verið valkvæð, þó viskan sé alltaf sönn.
Því mun Alþingi, samansett að stórum hluta af fólki sem ekki hefur visku um málið, ákveða hvort samþykkja skal þessa bókun. Það sem kannski er óhugnanlegast við það er þó að allir þingmenn sverja eyð að stjórnarskránni okkar. Henni hefur ekki verið breytt ennþá svo hægt sé að samþykkja bókunina og því jafn brotlegt við hana nú og var árið 1992. Því er næsta víst að Hæstiréttur mun þurfa að skera úr um lögmæti samþykktarinnar. Sá úrskurður getur aldrei fallið nema á einn veg.
Sumir ráðherrar okkar hafa lýst því yfir að bókun 35 við EES samninginn muni engu breyta. Hví er þá áherslan nú svo mikil á að samþykkja bókunina?
Þegar orkupakki 3 var samþykktur af Alþingi, þurfti að setja inn ákvæði um að enginn sæstrengur yrði lagður frá landinu, nema með samþykki Alþingis. Að öðrum kosti náðist ekki samkomulag um samþykki orkupakkans. Flestir telja þetta ákvæði marklaust, þar sem öll lög og allar reglugerðir orkupakka 3 voru samþykkt. Þar á meðal að yfirráð yfir flutningi á raforku milli landa væru færð ACER, orkustofnunar ESB. Aðrir telja að þetta ákvæði standi, enda samþykkt af Alþingi, æðsta valdi hér á landi. Líklegt er að á þetta muni reyna fyrir dómstólum.
Eftir samþykkt bókunar 35 mun ekki þurfa að fara með málið fyrir dómstóla. Þá verður þetta ákvæði sjálfkrafa marklaust. Þá þarf ekki að deila um hvort lagapakkinn sem fylgdi orkupakka3 væri fullgildur hér á landi. Þá væri greið leið fyrir hvern sem er að leggja héðan sæstrengi í fleirtölu, svo flytja megi sem mest af raforku til meginlandsins.
Þetta er frumástæða þess að hér sé hægt að fara í þá gífurlegu uppbyggingu á vindorkuverum sem plön eru um. Tenging okkar við meginlandið veldur því að raforkuverð hér verður tengt orkuverði við hinn enda strengjanna, mun því margfaldast. Þannig og einungis þannig er einhver glóra í að virkja vindinn hér á landi. Það orkuverð sem hér er gerir slíkar áætlanir að engu og jafnvel þó einhverjum langi að sóa sínu fé í slíka framkvæmd er hún dauðadæmd. Þegar vindur blæs mun þvílíkt magn orku verða til að okkar lokaða kerfi yfirfyllist af rafmagni og samkvæmt rökum utanríkisráðherra fyrir samþykkt orkupakka 3, um dásemd markaðslögmálsins, mun orkuverð falla niður á núllið. Því er frumforsenda þess að hér megi fórna landinu undir vindorkuvar, að lagðir verði sæstrengir til meginlandsins.
Kannski er það einmitt ástæða þess ofsa ráðherranna að samþykkja bókun 35, að þannig verði að engu gerður sá varnagli sem stjórnvöld neyddust til að setja svo orkupakki 3 fengi samþykki sitt. Svo greiða megi leiðina fyrir vindorkuverum og fórn landsins.
Að verið sé að hafa þingmenn að fíflum!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)