Miðvikudagurinn 21.8.2024, svartur dagur í sögu þjóðarinnar

Síðastliðinn miðvikudag kom enn einn dómur Seðlabankans. Vextir skulu haldast óbreyttir og enn skal hert á sultaról landsmanna. Ástæðan er að lítið gengur í baráttunni við verðbólgudrauginn.

Það merkilega var að þann sama dag var "endurskoðaður" samgöngusáttmáli kynntur af stjórnvöldum og sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Endurskoðunin fólst einungis í því að uppfæra tölur sáttmálans, eða nærri tvöfalda þá upphæð sem ætlað er til verksins. Kostar nú 310.000.000.000 kr. og mun koma í hlut ríkissjóðs 262.500.000.000 kr., eða 262.5 milljarðar króna. Væn upphæð, sem mun þó víst ekki vera endanleg. Ekki ætla ég að rita um þennan sáttmála núna, en bendi þó á að sumir samþykktu þessa breytingu með óbragði í munni, töldu þetta skásta kostinn. Henni til fróðleiks þá hafa margir aðrir kostir verið kynntir, til liðkunar fyrir umferð og betri möguleikar á almenningssamgöngum. En það verður hún auðvitað að eiga við sig sjálf.

Málið er að Seðlabankinn er að berjast við verðbólgudrauginn og virðist ekki hafa aðra kosti til þess en að svelta hinn vinnandi mann, svelta þann sem skapar verðmætin. Ríkisstjórnin hefur hins vega gott verkfæri til að hjálpa Seðlabankanum við verkið, en það er sjálfur ríkiskassinn. Með því að draga úr fjárútlátum sem kostur er og fresta öllum þeim aðgerðum sem hægt er að fresta, stuðlar ríkisstjórnin að lækkun verðbólgunnar. En því miður er ekki hæfara fólk við stjórnvölin en svo að það er unnið þvert á þessi sannindi, drauginn fóðraður enn frekar. Reyndar voru ummæli fjármálaráðherra, einmitt þennan sama dag á þann veg að maður spyr sig hvernig slíkt fólk kemst til valda, svona yfirleitt.

Þá verður að segjast eins og er að algjört stjórnleysi virðist ríkja í fjármálum ríkisins. Þar virðast sumir geta vaðið í fé án nokkurra fjárheimilda og svo þegar ekki verður lengra komist er sest niður og hlutir "uppfærðir". Þetta á ekki einungis við um samgöngusáttmálann á höfuðborgarsvæðinu, heldur einnig mörg önnur verkefni. Í dag er stjórnlaust verið að moka fé í varnargarða vegna eldsumbrota á Reykjanesi, vissulega þarfra framkvæmda en ekki þar með sagt að fjárausturinn til verksins geti verið stjórnlaus. Bendi á að allar stærri framkvæmdir á ríkið að bjóða út, samkvæmt lögum. Látum vera að gripið sé til örþrifaráða í neyð, en þegar neyðin er hjá má skoða hvernig hagkvæmast skuli að verki staðið. Annað verkefni á vegum ríkisins er veglagning yfir Hornafjarðarós. Þar var farið af stað samkvæmt ákveðinni formúlu um fjármögnun. Þegar sú formúla gekk ekki upp var verkinu ekki frestað, heldur haldið áfram sem ekkert væri og ríkiskassinn opnaður upp á gátt. Þetta hefur leitt til þess að aðrar vegaframkvæmdir eru settar á bið. Þessi framkvæmd mun sannarlega stytta nokkuð veginn milli Reykjavíkur og Hafnar, en ekki er þarna verið að leggja af neinn sérlega hættulegan kafla eða fjallveg. Getur verið að að þarna skiptir máli að þetta verkefni er í kjördæmi þáverandi innviðaráðherra, núverandi fjármálaráðherra.

Svona lagað gengur ekki. Það er með öllu fráleitt að hægt sé að ganga í ríkissjóð eftir vilja hvers og eins og gera síðan bara "uppfærslu" á orðnum hlut, án þess að nokkur beri ábyrgð. Það er bein ávísun á aukna verðbólgu.

Þegar menn lenda í ófærri keldu eru tveir möguleikar í stöðunni, að snúa til baka og finna betri leið eða halda áfram að spóla í sama farinu þar til örendi þrýtur. Stjórnvöld velja síðari kostinn, því miður.


Bloggfærslur 23. ágúst 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband