Margur verður af aurum api
16.8.2024 | 00:36
Margur verður af aurum api og það virðist vera einstaklega fjölbreitt úrval apa á Íslandi, ekki síst meðal þeirra sem bjóða sig fram til stjórnunar ríkis og sveitarfélaga. Nægir að veifa einhverjum hugmyndum um hugsanlegan gróða, einhvern tímann í framtíðinni, til að hér sé náttúrunni fórnað. Þetta á ekki síst við þegar kemur að svokölluðum umhverfisverkefnum. Má þar nefna vindorku, niðurdæling á innfluttum koltvístring, mengun á sjó með því að kasta í hann gífurlegu magni af innfluttri tréflís og nú fórn á velgrónu svæði til skógræktar.
Varðandi það síðastnefnda þá er verið að fórna grónu landi á svæði sem er einstaklega viðkvæmt og fátækt af slíkum gæðum. Nú er ég alls ekki á móti skógrækt, þvert á móti. En val undir skóg verður að vera vandað, að hann sé til bóta en ekki bölvunar. Á norð austur horninu eru víða foksandar og gróðurlítil svæði sem þurfa hjálp. Þar má vel planta stórskógum eins og Ygg vill gera. Að velja gróið svæði til þess er fráleitt. Bara það að rífa upp svörðinn veldur mikilli kolefnislosun, en það sem kannski er verra er að þegar skógur hefur yfirtekið þetta land mun allur annar gróður hverfa. Þetta gæti leitt til gróðureyðingar og óvíst að skógurinn geti varnað því. Þó rótarkerfi skóga sé ágætt þá er rótarkerfi lyngs enn víðfeðmara og betra.
En eins og áður segir, margur verður af aurum api. Sveitarfélaginu Norðurþingi, eða réttara sagt stjórnendum þess, er lofað 5% af sölu kolefniskvóta og þá er fjandinn laus. Þessi kolefniskvóti skilar sér þó ekki fyrr en eftir mörg ár, einhvern tímann í framtíðinni, þ.e. ef trén ná að vaxa og dafna. Engan kolefniskvóta er hægt að selja fyrr en sýnt er fram á að komandi skógur er farinn að vinna kolefnið úr andrúmsloftinu. Það er ekki nóg að vera með exelskjal til sölu slíkra kvóta.
Það er í tísku að nýta styrkjakerfi til að koma svona verkefnum af stað. Því heimskulegri sem hugmyndin er, því opnari verður styrkjasamfélagið. Það er einnig í tísku að láta sig hverfa með sem mest að fénu, þegar ekki verður lengur tottaðir styrkir. Þetta sést víða erlendis en er einnig farið að nema land hér á landi. Nægir að nefna fyrrverandi tréflísafyrirtækið ameríska, Runnig Tyde í því sambandi. Því er alssendis óvíst að Norðurþing fái nokkurn tímann krónu fyrir verkefnið.
Svo geta menn velt fyrirsér mótsögnunum. Hef hér nefnt fyrrverandi fyrirtæki, Running Tide, en það lét höggva skóg í Norður Ameríku, kurla hann niður í flís og flutti með stórum skipum yfir hafið til Íslands, þar sem blandað var sementi við þessa flís og hún flutt hálfa leið til baka aftur og dumpað þar í hafið. Eftir stóð skóglaust og örfoka land þar sem áður var skógur, þar ytra. Nú er grónu landi hér, sem er þegar að vinna af fullum krafti við að fanga kolefni úr loftinu, bylt við og eyðilagt til að planta þar skógi. Stórum skógi á íslenskan mælikvarða en þó einungis örskógi miðað við þann sem felldur var í Norður Ameríku og fluttur hingað.
Hvoru tveggja er gert í nafni þess að fanga lífsandann úr andrumsloftinu.
Sér á eftir mjög fallegu landi og berjamó | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)