Vindorkuver í landi Sólheima í Dölum
6.7.2024 | 03:22
Fyrir skipulagsstofnun liggur til umsagnar kynning á umhverfismatsskýrslu um vindorkuver í landi Sólheima í Dölum, nánar tiltekið á Laxárdalsheiði.
Það sem ekki er sagt.
Fyrst er rétt að tíunda nokkur atriði er ekki koma fram í skýrslunni. Það er þó ekki tæmandi listi, fjarri því. Ekki kemur fram hver eða hvernig orkan á að nýtast, einungis að hún skal keyrð inn á net Landsnets. Þarna er um að ræða virkjun með uppsett afl upp á 209 MW. Það segir að það magn af orku fer þá inn á netið þegar vindur blæs. Engin orka skilar sér hins vegar þegar lygnir. Þetta mun valda sveiflum á kerfinu sem ekki er gert ráð fyrir að vindorkuverið þurfi að brúa. Enginn kaupir slíka orku og ef Landsvirkjun er ætlað að taka á sig sveiflurnar er ljóst að rekstur virkjana þess verður óhagkvæmari og orkuverð muni hækka. Til samanburðar má nefna að Hrauneyjarfossstöð er með uppsett afl upp á 210MW og samanlagt er uppsett afl Írafossstöðvar, Laxárvirkjana 1, 2 og 3, Ljósafossvirkjunar, Steingrímsstöðvar og Vatnsfellsstöðvar 206,5MW. Þarna er því um mikla orku að ræða sem þetta eina vindorkuver getur framleitt þegar vindur blæs en ekkert ef lygnir. Þá sveiflu telja aðstandendur þessa orkuvers sig ekki bera ábyrgð á eða þurfa að jafna.
Nokkuð er rætt um hugsanlega mengun frá orkuverinu. Þó er ekki minnst einum staf á þá tvo mengunarþætti er alvarlegastir eru, örplastmengun og slepping á sf6 gasi. Örplastmengun frá vindtúrbínum er þekkt vandamál og alvarlegt. Trefjaplastið þolir illa þá áraun er verður á spöðum þeirra, ekki síst við erfiðari veðuraðstæður eins og hér eru. Því slitna þeir hratt, talið gott ef þeir duga einn áratug, eða innan við helming endingartíma túrbínuna. Þetta er staðreynd sem ekki hefur enn verið fundin lausn á.
Straumlokar eru kældir og einangraðir með sf6 gasi. Við hverja opnun eða lokun þeirra sleppur örlítið af þessu gasi út í andrúmsloftið. Þetta kemur lítið að sök í vatnsaflsvirkjunum, þar sem framleiðsla er stöðug, en er vandamál varðandi vindorkuver. Þar er sífellt verið að opna og loka þessum lokum, eftir því hvernig vindur blæs. Í norðanverðu Þýskalandi, þar sem vindorkuver hafa sprottið upp í miklu mæli, er þegar farið að mælast hækkun á sf6 gasi í andrúmsloftinu. Sf6 gas eða sulfur hexafuoride, er litlaust og lyktarlaust gas sem hefur þann eiginleika að vera einstaklega treg- eða óbrennanlegt. Áhrif þess á andrúmsloftið er 23500 sinnum öflugra en co2.
Bruni í vindtúrbínu er mál sem erfitt er að taka á. Auðvitað kviknar í vindtúrbínum, þó við verðum að vona að algengi þess sé ekki jafn svakalegt og hingað til á Íslandi, þar sem ein af hverjum fjörum hafa brunnið. En engu að síður kviknar í þeim. Hjá því verður ekki komist. Þegar slíkt gerist er lítið annað hægt að gera en horfa á úr fjarska og vona að enginn hafi verið staddur uppi í rafalhúsinu er eldurinn kviknaði. Til þessa hafa afleiðingar slíkra bruna verið litlir, aðrir en tap vindorkuversins. Nú er hins vegar farið að vakna spurningar um hvað verður um mengunina, þó einkum eðli hennar, frá slíkum brunum. Þegar trefjaplast brennur verður mikil mengun af glertrefjum. Þessar glertrefjar fjúka með vindinum langar leiðir og lenda að lokum í vistkerfinu. Fyrst í grasinu og síðan þeim skepnum er lifa á því. Nýlega kom upp slíkur bruni í vindtúrbínu í Bandaríkjunum. Bann var lagt á beit skepna á stóru svæði og öll jarðvinnsla og nýting lands bönnuð. Bændur máttu ekki hirða tún sín. Erfitt eða útilokað er að hreinsa glertrefjar af jörðu og enginn veit hversu langan tíma tekur að losna við þá óværu. Getur tekið aratugi. Á meðan er enginn búskapur á svæði er mengast af þessum sökum. Þá er talið að brunnar glertrefjar séu nánast eins og asbest hvað mannskepnuna varðar, krabbameinsvaldandi.
Skautun.
Það er víða sem hægt er að nefna svokallaða skautun í þessari skýrslu, þar sem sannleikanum er hliðrað eða jafnvel tilraunir til að fela hann. Lítið gert úr því sem ekki hentar en því meira úr því sem "fallegt" er. Og svo eru beinlíns rangfærslur í þessari skýrslu, viljandi eða óviljandi.
Fyrir það fyrsta þá fer framkvæmdarsvæðið yfir sveitarfélagsmörk, samkvæmt öllum kortum er eru í skýrslunni. Nær yfir í Húnaþing vestra. Á einu korti er að auki áhrifasvæðið bæði út fyrir sveitarfélagsmörk sem og framkvæmdamörk. Nú er það svo að Sólheimar eru austasti bær í Laxárdal í Dölum. Jörðin liggur að sveitarfélagsmörkum og bæjunum Laxárdal og Bæ 1 og 2 í Húnaþingi vestra. Eins og áður segir liggur athafnasvæðið og að hluta einnig áhrifasvæðið austur yfir sveitarfélagsmörkin, eða yfir í land Laxárdals og Bæ 1 og 2. Ekkert samráð hefur verið haft við eigendur þessara jarða, einungis einn lélegur fundur, snemma á ferlinu, haldinn til kynningar í nágrannasveitarfélaginu. Samkvæmt byggingareglugerð skal ávallt fá samþykki næstu nágranna fyrir framkvæmdum. Einu undantekningarnar frá þeirri reglu eru ef girt er á lóða eða landamörkum og girðing er innanvið 180 cm á hæð og ef byggður er svokallað garðhús að hámarki 250cm hátt og að er fjær landamerkjum en 3 metrar, þarf ekki slíkt skriflegt leifi. Því er með ólíkindum að hægt skuli vera að byggja fjölda af vindtúrbínum, 200 metra háum, staðsettum nánast á landamerkjum, án samráðs eða samþykkis nágranna! Það er vandséð að þetta geti staðist lög!
Qair ætlar, samkvæmt skýrslunni, að notast við vindtúrbínur frá fyrirtækinu Vestas, type 162 7,2. Ef farið er inn á heimasíðu þess fyrirtækis er hægt að nálgast allar upplýsingar um þær túrbínur er þeir framleiða, einnig þessa gerð. Þar kemur fram að hávaði frá túrbínunni er sagður vera 105,5 dB, eða svipaður og þegar þyrla flýgur hjá. Þyrlan flýgur burtu en allar 29 túrbínur vindorkuversins á Laxárdalsheiðinni munu vera fastar þar, með tilheyrandi hávaða dag sem nótt. Í skýrslunni er lítið gert úr þessari mengun, miðað við hvernig heyrast muni í 7 km fjarlægð. Sjálfsagt heyrist þar mun minna, fer þó eftir því hvort vindur blæs af túrbínunum þangað eða ekki. Vindur ber jú hljóð, eins og flestir vita. Þetta breytir þó ekki þeirri staðreynd að á þessu svæði eru nokkur stór og öflug fjárbú sem beita fé á heiðina, enda einstaklega gott beitarlend. Hætt er við að blessaðar ærnar ærist af hávaðanum og komi sér burtu. Mikið fuglalíf er á svæðinu, eins og kemur fram í skýrslunni og ekki víst að fuglarnir sættist á þennan hávaða. Eitt er þó alveg víst að lítið mun heyrast af þessum hávaða til Reykjavíkur, þar sem ætlunin er að stjórnstöðin fyrir vindorkuverið á að rísa!
Allar skýringarmyndir um hæð og umfang vindtúrbínanna eru rangar. Minna gert úr hæð þeirra og umfangi en ástæða er til. Sem dæmi er mynd sem eignuð er Qair og sýna á stærð vindtúrbínanna miðað við annars vegar Hallgrímskirkjuturn og hins vegar Effelturnin. Ef við gefum okkur að Hallgrímsturninn sé í réttri hæð á myndinni, 75 metra hár er ljóst að vindtúrbínan sem á að vera 200 metra há er á þeirri mynd ekki nema 117 metra há og Effelturninn sem á að vera 300 metra hár hefur lækkað nokkuð verulega, eða niður í 188 metra hæð. Ekki viss um að frökkum myndi líka það. Þetta er einungis eitt dæmi um fölsunina og því spurning hversu mikið er að marka skýrsluna í heild. Ef ekki er hægt að gera eina skýringarmynd í réttum hlutföllum er varla hægt að treysta því að önnur atriði séu samkvæmt raunveruleikanum eða sannleikanum!
Reynt er að gera minna úr undirstöðum en tilefni er til. Gefið í skyn að magn steypu geti verið misjafnt og jafnvel tiltölulega lítið. Undir vindtúrbínu af þeirri stærð er hér um ræðir þarf að minnsta kosti um 1000m3 af steypu, meira ef land liggur þannig. 1000m3 er um 2500 tonn, bara undir eina túrbínu. Það gerir 72500 tonn af steypu, plús steypu undir spennahús og stjórnhús. Það verða þá á fimmta þúsund steypubíla sem þurfa að aka um 55km aðra leiðina, 110km í hverri ferð.
Þá er gert ráð fyrir svokölluðum óvenjulegum hlössum, þ.e. hlöss sem ekki rúmast innan umferðarlaga vegna þyngdar eða stærðar. Sagt að 319 ferðir með slíkan farm muni þurfa til. Þarna er þó skekkja. Skýrsluhöfundar gera ráð fyrir að turn túrbínunnar sé fluttur í heilu lagi á staðinn. Það er með öllu útilokað. Spaðarnir eru 81 metri að lengd og eðli málsins samkvæmt verða þeir ekki fluttir öðruvísi en í heilu og þykir nokkuð afrek. 80 metrar eru eins og 6,66 40 feta gámar, enda í enda. Turninn er hins vegar bæði mun lengri, eða 162 metrar, helmingi lengri en spaðinn og að auki margfalt þyngri. Hann verður því klárlega fluttur í pörtum. Hins vegar mætti svo sem parta hann svo mikið niður að flutningurinn teldist löglegur. Það yrðu þá ansi margar ferðir. Vaninn er hins vegar að taka turninn niður í nokkra parta og flytja þannig, sem ólöglegan farm.
Nokkuð er rætt um fuglalífið í skýrslunni. Það sem er kannski athyglisverðast eru ratsjármælingar af flugi fuglanna. Greinilegt er að mesta flug þeirra er einmitt þar sem ætlunin er að reisa vindtúrbínurnar, minna þar á milli. Örninn sker sig þarna nokkuð úr en hans flug er mest við túrbínur eitt til sex, eða nyrstu og austustu túrbínurnar. Þetta kemur ekki á óvart, enda arnarhreiður þar í grennd. Lítið er gert úr áhrifum vindorkuversins á fuglalíf, þó vissulega það muni verða all verulegt.
Ferðaþjónusta er nokkur í Dölum og víst að hún mun að estu leggjast af. Mikil umferð ferðafólks er bæði um Dalina sem og vestanverðan Hrútafjörð, enda einu landleiðirnar á vestfirði um þá vegi. Þá er mikil umferð ferðafólks um austanverðan Hrútafjörð. Þar liggur leiðin milli norður og suðurlands. Sjónmengun frá vindorkuverinu mun hafa veruleg áhrif á upplifun ferðafólks um alla þessa vegi, ekki kannski jákvæð. Erlendir ferðamenn koma ekki hingað til lands til að sjá vindorkuver. Þeir koma til að njóta óspilltrar náttúru.
Lokaorð.
Þessi pistill er orðinn mun lengri en ætlað var og því kominn tími til að hætta, jafnvel þó enn liggi margt ósagt sem segja má. Meginmálið er þó þetta:
Vindorkan er með þeim takmörkunum að einungis er hægt að framleiða þar orku þegar vindur blæs. Þess á milli getur framleiðslan farið í núllið. Til að jafna sveiflur frá vindorkunni þarf eitthvað annað, einhverja aðra orkugjafa. Hjá okkur er það vatnsorkan. Ef við tökum úr almennri virkni vatnsorkuver til að vega á móti vindorkunni er ljóst að enginn aukning hefur orðið á raforkuframleiðslu hjá okkur, einungis eðlisbreyting til hins verra. Þá þurfum við að hafa vatnsorkuver sem ekkert framleiðir meðan vindur blæs, svo vindorkuverið geti selt sína framleiðslu, en kemur svo inn þegar lygnir svo neytendur verði ekki fyrir skakkaföllum. Er þá ekki betra að vera einungis með vatnsorkuverið og hlífa náttúrunni.
Vindorkuver er fjarri því að geta talist hreinorkuver. Er mun nær kolaorku en vatnsorku hvað mengun varðar. Og þá er einungis verið að tala um mengun, ekki áhrifin á dýralífið, sem eru verulega neikvæð. Að byggja vindorkuver þar sem blómlegur landbúnaður er stundaður er svo aftur einhver mesta glópska sem þekkist. Að leggja búvænleg héröð í eyði.
Hin viðkvæma ferðaþjónusta, sem virðist eiga erfitt við flestar aðstæður, mun alls ekki lifa af vindorkuver í bakgarðinum.
Hvernig framkoman við landeigendur umhverfis fyrirhugað vindorkuver á Laxárdalsheiðinni, er svo sér kapítuli. Þar er sveitarstjórn Dalabyggðar ekki til fyrirmyndar eða sóma!!
Blöðin teygja sig 200 metra upp í loft | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)