Vegakerfið er vissulega ónýtt
27.6.2024 | 00:42
Blessaður dýralæknirinn telur vegakerfið alls ekki ónýtt, eins og framkvæmdastjóri Vörumiðlunar heldur fram. Þvílík veruleikafirring hjá dýralækninum, sem gegnir starfi forstjóra Vegagerðarinnar. Vegirnir eru vissulega ónýtir, þó finna megi einhverja kafla sem hægt er að aka um skammlaust.
Enn eru stórir hlutar vegakerfisins malarvegir, vegir sem nútíma bílar eru ekki gerðir til að aka um, sér í lagi rafbílar. Þar sem bundið slitlag er, má helst segja að það sé bundið þeim bílum sem um það aka, ekki veginum. Ástæðan er einföld, notuð er feiti, matarolía og fita fiska, til íblöndunar malbiksins, í stað rjúkandi efna eins og terpentínu. Þetta veldur því að malbikið nær aldrei að þorna að fullu og minnstu veðrabreytingar valda því sem kallast blæðingum á vegunum. Þetta vita allir sem um vegakerfið aka, hvort heldur er að sumri eða vetri. Það er ekki hitastigið sem ræður, heldur breyting á hitastigi. Slíkar breytingar á veðri eru eitt aðalsmerki Íslands. Þetta er þekkt vandamál og búið að vera þekkt lengi. Allt frá því fyrsta tilraun var gerð með þessum íblöndunum.
Nánast allir vegir utan þéttbýlis eru með svokölluðu Ottódekki, þ.e. ekki eiginlegu malbiki heldur er fitublandaðri tjöru sprautað á vegina og möl sett yfir. Þessi aðferð hafði einstaklega stuttan líftíma meðan tjaran var enn blönduð rjúkandi efnum, en eftir að þeim var skipt út fyrir fitu hefur endingatíminn styðst enn frekar og blæðingar orðið algengari. Kostnaðurinn við viðhald þeirra er því meira en þarf.
Einungis örfáir vegakaflar, næst höfuðborgarsvæðinu, uppfylla staðla um breidd og skáhalla frá þeim. Flestir vegir eru of mjóir fyrir umferð úr gagnstæðum áttum og víða svo bratt fram af þeim að bíla sem fara útaf velta. Á þetta hefur verið bent, trekk í trekk. Vegakerfið hér fær falleinkunn í hvert sinn sem erlendir aðilar hafa tekið það út.
Kostnaður við endurnýjun og viðhalds vegakerfisins er vissulega mikill. Því er mikilvægt að fara vel með þá aura sem fást. Að sóa peningum í ónýtt efni til vegagerðar, að sóa peningum í ýmis gæluverkefni pólitíkusa og að sóa peningum í einhverja listsköpun í sambandi við brúargerð og fleira, er eins og að brenna þá peninga. Ætíð á að horfa til öryggis umferðar og einskis annars. Stórfelld fjölgun alvarlegra slysa sýnir að svo er ekki í dag.
Að nota rétt efni til malbikunar er fljótt að borga sig. Reyndar hefur ekki verð sýnt fram á að notkun á feiti í stað rjúkandi efna sé ódýrari. Að malbika í stað þess að leggja Ottódekk, er fljótt að borga sig, jafnvel þó kostnaður sé meiri í upphafi. Þarna vantar einungis kjark til að snúa frá ófæra feninu og velja betri, öruggari og til lengri tíma ódýrari leið. Að stunda listsköpun við brúargerð er aftur með öllu óafsakanleg ráðstöfun og þeir sem taka þátt í að sóa vegafé í slíkt eiga ekki rétt til að halda starfi sínu. Þarna er verið að véla með fé okkar landsmanna!
Jú, vegakerfið er vissulega ónýtt. Það vita allir sem neyðast til að nota það. Hefði kannski talist ágætt fyrir hálfri öld, en í dag er það alls ekki viðunnandi. Að halda öðru fram er í besta falli barnalegt.
Hafnar því að vegirnir séu ónýtir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)