Náttúrunni verður aldrei bjargað með því að fórna henni

Vindorkuæðið hér á landi er með öllu óskiljanlegt. Það má auðvitað segja að peningamenn, sérstaklega ef þeir koma erlendis frá, séu kannski ekki að hugsa um náttúruna okkar, þegar gróði er í boði. En það er bara enginn gróði í boði! Hvað drífur þetta fólk þá áfram? Hrein illska? Skemmdarfíkn?

Tveir sænskir hagfræðingar, Christian Sandström og Christian Steinbeck, tóku sig til og skoðuðu hagkvæmni vindorkuvera þar í landi. Niðurstaðan var sláandi, tapresktur sænskra vindorkuvera á árunum 2017 til 2022 nam 13,5 bilj. sænskra króna!! Þessar upplýsingar sóttu þeir í ársskýrslur þessara orkufyrirtækja. Þetta gerist þrátt fyrir að raforkuverð í Svíþjóð sé allt að sex sinnum hærra en hér á landi.

Það er því fráleitt að einhver hagnaðarvon sé fyrir vindorku hér á landi, nema auðvitað að orkuverð verði margfaldað og það gott betur en sexfaldað. Jafnvel varla að dugi að tífalda orkuverð hér, til þess eins að vindorkuverin geti rekið sig.

En það er fleira sem fram kemur í þessari úttekt sænsku hagfræðingana, t.d. það að einungis fimmtungur vindorkuveranna þar er í eigu Svía. Fjórir fimmtu eru í eigu erlendra aðila, eins og Kínverja. Stærsta vindorkuver Svía, Markbygden Ett, með 179 vindtúrbínum, er gjaldþrota en safnar samt áfram stórum skuldum hvern dag. Hagfræðingarnir fullyrða að ekki eitt einasta vindorkuver í Svíþjóð hafi verið rekið með hagnaði síðan 2017 þó segja megi að smærri vindorkuverin standi ekki eins illa og þau stærri. Greinilegt að hagkvæmni stærðarinnar á ekki við í þessum bissnes.

Í Þýskalandi stendur til að fella skóg, svo koma megi fyrir vindorkuverum. Þetta er enginn venjulegur skógur, heldur sá skógur er kenndur hefur verið við Gríms ævintýrin. Auðvitað eru íbúar þar ekki sérlega ánægðir með þetta framtak, telja menningarverðmætin og ferðaþjónustan sem hefur byggst upp vegna þeirra, verðmætari en vindorkuver sem útilokað er að reka með hagnaði. Áætlunin stendur þó enn, hinn 200 ára skógur Gríms ævintýranna skal ruddur fyrir 241 metra háum vindtúrbínum!! Þetta er ekki eini skógurinn í Þýskalandi sem skal víkja fyrir vindorkuverum, nokkrir aðrir fornir skógar, sem eru þó kannski ekki eyrnamerktir ævintýrum, eiga einnig að víkja.

Því er spurning; hvað er það sem dregur fólk áfram á þessari braut? Ekki er það hagkvæmnin og ekki er það ást á náttúrunni. Þaðan af síður er það umhyggja fyrir mengun, þar sem vindorkuver menga sennilega mest allra kosta til raforkuframleiðslu.

Náttúrunni verður aldrei bjargað með því að fórna henni!!

 


Bloggfærslur 18. júní 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband