Guð blessi Ísland

Jæja, þá hefur þjóðin fengið nýja ríkisstjórn. Varla er þó hægt að gleðjast eða óska okkur til hamingju með niðurstöðuna.

Fyrst verð ég þó að biðjast afsökunar. Í gær skrifaði ég að hugtakið "senn" gæti vart verið nokkrir dagar, hugsanlega frekar vikur, mánuðir eða ár. Þetta var rangt hjá mér. Þetta hugtak getur talist í dögum, nánar tiltekið fimm dögum.

En aftur að nýju ríkisstjórninni okkar. Þar hefur tekist einstaklega illa að manna, rétt eins og ekki sé til hæft fólk innan þjóðarinnar. Ráðherra getur jú verið utan þings, svona eins og nýr formaður VG hóf sína vegferð í stjórnmálum.

Bjarni tekur við sæti Kötu. Ekki kannski versti kostur en tilgangurinn vel sjáanlegur. Hrossakaup til að verja Svandísi frá atkvæðagreiðslu um vantraust. Svandís fer svo aftur úr matvælaráðuneyti yfir í innviðaráðuneytið og leysir þar Sigurð Inga af. Hinn nýi formaður VG var ekki í neinum vafa um hvert erindi hennar ætti að vera þar, að gefa góða innspýtingu í borgarlínu, í þágu umhverfisverndar. Í sama tilgangi á hún að auka afskipti stjórnmálamanna af orkuskiptum í umferðinni. Manni verður um og ó. Svandís hefur sýnt að hún lætur harðann kommúnisma ganga fram yfir lög og reglur, jafnvel þó hún sé tvídæmd fyrir slíkan verknað. Verður skelfilegt að fylgjast með hennar verkum á næstu misserum, ef stjórnin lifir svo lengi. 

Við matvælaráðuneyti tekur Bjarkey Olsen. Með allri virðingu fyrir henni, hefði verið farsælla fyrir VG að velja í það embætti Bjarna Jónsson. Sigurður Ingi fer í fjármálaráðuneytið. Eins og ráðleysi framsóknarmana í fjármálum sé ekki nóg. Reyndar er Sigurður dýralæknir og það er víst gulls í gildi í pólitík. Og svo er það rúsínan í pylsuendanum. Þórdís fer aftur yfir í utanríkisráðuneytið. Fær aftur í hendurnar bókun 35. Nú verður ekkert slegið af, bókunin verður keyrð í gegn með hraði. Ekki vogandi að bíða eftir nýjum forseta, hann gæti verið af "röngum" ættum í pólitík og illa "taminn".!

Kata sá hvert stefndi hjá þjóðarskútinni og stökk því frá borði. Ekki boðar eða sker framundan heldur klettaveggurinn. Og stefnunni er haldið óbreyttri. 

Guð blessi Ísland


mbl.is Myndskeið: Ný ríkisstjórn kynnt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. apríl 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband