Að eiga banka - eða ekki

Okkur landsmönnum er talin trú um að við eigum Landsbankann og vissulega er ríkið skráð fyrir nánast öllum hlutum hans. Fjármálaráðherra er síðan með yfirumsjón yfir þessum hlut, sem þjóðin á.

En málið virðist nokkuð flóknara en þetta. Til að slíta tengsl milli pólitíkur og bankans, að ráðherra hafi ekki beint umboð til afskipta af rekstri hans, var stofnuð Bankasýsla ríkisins. Henni er ætlað að vera fulltrúi eigenda bankans. Reyndar ekki kosin af eigendum, heldur skipuð af ráðherra. Því kannski ekki hægt að tala um slit milli pólitíkur og reksturs bankans.

En þetta dugir þó ekki. Bankastjóri og bankaráð telur sig eiga þennan banka okkar. Að afskipti ráðherra eða bankasýslunnar skipti bara engu máli. Bakastjóri Landsbankans hefur sagt að bankinn muni halda áfram við fyrirhuguð kaup á TM, þrátt fyrir mótmæli eigandans, þ.e. ráðherra.

Þegar þetta er skoðað verður maður virkilega efins um hver á Landsbankann. Klárlega ekki almenningur, enda hefur hann enga aðkomu að bankanum aðra en að greiða til hans okurvexti og óheyrileg þjónustugjöld af minnsta tilefni. Ekki virðist ráðherra ráða miklu, eins og orð bankastjóra bera með sér. Og bankasýslan, jú henni hefur tekist að fresta aðalfundi bankans um einn mánuð, en mun sjálfsagt ekki hafa kjark til að rifta kaupunum. Enda ekki séð að BS sé með hugann við verkið. Lætur afskiptalaust að bankastjóri og bankaráð stundi vafasöm viðskipti, viðskipti sem kemur bankarekstri ekki við á nokkurn hátt.

En fátt er svo með öllu illt að ei boði gott. Það fyrirkomulag sem um þennan banka ríkir, banka sem sannarlega er í eigu landsmanna, þó erfitt sé að sjá það á framkvæmd eða stjórnin hans, er kjörið að endurskoða við þessi tímamót. Ef um einkafyrirtæki væri að ræða myndu eigendur hans reka samstundis alla þá er telja sig vera æðri en eigandinn, bankastjóra, bankaráð og Bankasýsluna og taka yfir reksturinn með nýju fólki.

Þannig gæfist gullið tækifæri til að endurskipuleggja rekstur bankans. Að hætta að reka hann sem gróðafyrirtæki, eða jafnvel okurstofnun og gera hann að samfélagsbanka. Slíkt bankaform er þekkt víða, þó sennilega þekktast í Þýskalandi. Þar er bankastarfsemi að stærstum hluta rekin sem samfélagsbankar og það voru þessir samfélagsbankar sem björguðu Þýskalandi frá hruni, haustið 2008. Banki sem rekinn er eftir lögmáli Mammons er veikari fyrir ef áföll skella á. Áhætturekstur er eitt aðalsmerki þeirra. Banki sem rekinn er eftir þörfum samfélagsins og ekki er drifinn áfram af græðgi, er fastari fyrir og þolir betur utanaðkomandi áföll.

Eftir bankahrunið hér haustið 2008, þegar landinu var steypt í fen skulda og hörmunga, ætti fólk að vita að einkavæðing bankakerfisins er ekki að ganga. Slík einkavæðing er átrúnmaður á Mammon. Ekkert að því að einhverjir einkavæddir bankar séu starfandi hér, ef einhver vill reka þá og bera ábyrgð á þeim. En samfélagsbanki verður að vera til staðar í landinu, þó ekki sé til annars en að halda niðri þeirri óheyrilegu okurstefnu sem bankakerfið stundar og er að draga lífið úr þjóðinni, hvort heldur þar er um einstaklinga eða fyrirtæki að ræða.

Framkvæmdin á stofnun slíks samfélagsbanka er einföld. Öllum hlutum hans sem ríkið hefur undir höndum, væru einfaldlega deilt á hvert mannsbarn í landinu. Ekki væri heimilt að selja þá hluti, heldur myndu þeir erfast til afkomenda. Allar meiriháttar ákvarðanir, s.s. ráðning bankaumsjónar og jafnvel bankastjóra færu fram með rafrænni kosningu þjóðarinnar. Frambjóðendur þyrftu auðvitað að standast eitthvað mat til þátttöku. Þeir sem hlytu kosningu hefðu enga heimild til að taka ákvarðanir um breytingu á rekstri bankans. Jafnvel þó þeir teldu að það væri "til haga fyrir eigendur".

Þannig færi ekkert á milli mála að við ættum öll Landsbankann og sennilega myndu flestir færa sín viðskipti yfir í hann.


mbl.is Aðalfundi Landsbankans frestað um mánuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. mars 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband