Kappræður ruv í drullupolli?
2.11.2024 | 09:50
Fyrstu kappræður ruv fyrir komandi kosningar voru haldnar í gærkvöldi. Sem fyrr stóð ekki á loforðum frambjóðenda og fagurgala. Þátturinn frekar litlaus og laus við skemmtun eða fróðleik.
Ekki minntist neinn frambjóðandi á afstöðu sína til vindorku, eitthvað stærsta mál sem þjóðin stendur frammi fyrir, spurninguna um hvort fórna eigi náttúru landsins til að gleðjast erlendum arðrónum. Ekki höfðu stjórnendur þáttarins dug til að koma þessu stóra máli á dagskrá, voru uppteknari við minni málefni.
Einræða formanns Framsóknar um innflytjendur kom eins og skrattinn úr sauðaleggnum, reyndar vel undirbúinn og lesin af blaði, en það er annað mál. Formaðurinn talaði eins og hann hefði ekki verið hér á landi undanfarin misseri og alls ekki verið í stól fjármálaráðherra undanfarnar vikur. Helst datt manni í hug að einhver ruglingur hefði orðið á ræðublöðum formanna, að hann hafi óvart fengið ræðu Pírata í hendur. En hvað um það, þetta var hressilegur lestur.
Formaður Framsóknar hefur sem sagt komist að þeirri niðurstöðu að innflytjendur séu ekki vandamál, kosti einungis um 1% af útgjöldum ríkisins. Nú veit ég ekki hver heildar útgjöld ríkisins eru, en hitt er ljóst að kostnaðurinn við þennan málaflokk nam rúmum 20 milljörðum fyrir síðasta ár. Árið í ár ekki liðið og nokkur tími þar til uppgjör liggi fyrir. Formaðurinn staðhæfði að kostnaður fari lækkandi. Vissulega er ljóst að 20 milljarðar skipta máli fyrir galtóman ríkissjóð.
Vandinn við innflytjendur liggur þó ekki í kostnaði, þó vissulega hann spili þar inní. Vandinn við innflytjendur liggur í stjórnleysi. Það er enginn að tala um að loka eigi á hjálp við fólk sem á í vanda, það er heldur enginn að tala um að loka á það fólk sem vill koma hingað og leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Það er verið að tala um stjórnleysið, þann óhemju fjölda fólks sem hingað kemur. Það er verið að tala um langan afgreiðslutíma umsækjenda. Það er verið að tala um getuleysi gagnvart þeim sem hafa fengið höfnun um dvalarleyfi hér á landi.
Þetta er vissulega vandi, vandi sem verður að viðurkenna og finna lausn á. Meðan það er ekki gert munu þeir sem virkilega þurfa vernd eða vilja hjálpa okkur að byggja upp samfélagið hér, settir undir sama hatt og hinir sem ekki eru að flýja hörmungar eða ekki vilja leggja sitt af mörkum. Innan þess eru þekkt glæpafélög sem virðist erfitt að ná tökum á.
Við eigum að gera vel við þá sem leita til okkar um vernd frá vá, hvort heldur það er stríðsvá eða einhver önnur. Við gætum einnig gert mikið með hjálp til þeirra er flýja stríðssvæði, með því að hjálpa þeim nær sínu heimalandi, einkum þeim sem lengst sækja hingað. Fólk í neyð ber að hjálpa.
Það eru hinir sem taka þarf á. Skelfileg þróun á sér stað um þessar mundir hér á landi, afbrotatíðni hefur aukist verulega og jafnvel farið að líta morð sem hverdagslegan atburð. Unglingarnir okkar sem upplifa þessa þróun verða sumir samdauna henni. Þetta má til dæmis rekja til aukinnar starfsemi erlendra glæpasamtaka. Þá þróun verður að stöðva.
Það var hins vegar skýring formanns Samfylkingar sem var aumkunarverð, þó margir nota einmitt þá skýringu til að réttlæta innflytjendur. Að einhver þurfi að vinna lálaunastörfin og það vilji íslendingar ekki. Aumara getur þetta varla orðið af hálfu formanns þess flokks sem kennir sig við alþýðuna.
Meðan hægt er að flytja inn fólk til að vinna á kjörum sem ekki þykja viðunandi, munu þau kjör aldrei batna! Þá er verið að viðhalda fátæktinni.
Innflytjendamál eru vissulega vandamál, þ.e. stjórn þeirra. Upphrópanir eins og hvort við eigum þá bara að loka á alla innflytjendur og nefnt sem dæmi frá stríðshrjáðri Úkraínu, eða afsakanir að við skyldum loka á gyðinga fyrir 70 árum, þjóna engum tilgangi. Það er enginn að tala um að loka á fólk í neyð.
Vandinn er til staðar og vandann þarf að leysa. Þeir sem viðurkenna hann ekki og ekki vilja leysa hann eru á kafi í "drullupolli".
Ræða staðreyndir en ekki róta í drullupolli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)