Nú er ég hættur að skilja
15.10.2024 | 20:02
Ég er nú alveg hættur að skilja hlutina hérna. Forseti ætlar að rjúfa þing á fimmtudag, en segir jafnframt að þingmenn muni halda umboði sínu sem þingmenn fram að kosningu. Því muni vera hægt að ljúka mikilvægum málum sem lægju fyrir.
Eftir að þing er rofið starfar það ekki lengur og eðli málsins engin mál afgreidd, svo einfalt sem það er. Því er einungis um morgundaginn að ræða til að ljúka málum. Þar kemur þó örlítið babb í bátinn, þar sem lögformlega þurfa mál þrjár umferðir á þinginu og afgreiðslu nefnda á milli. Veit ekki til að ríkisstjórnin sé komin það langt með afgreiðslu á neinu máli að einn þingdagur dugi til að klára það.
Það er svo sem ekki að undra þó sumir þingmenn og jafnvel ráðherrar skilji ekki þessa einföldu staðreynd, enda stjórnarskráin í litlum metum á þingi. Hitt er alvarlegra þegar forsetinn hefur ekki betri þekkingu á stjórnarskránni og stjórnlögum!
Rýfur þing og boðar til kosninga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Kjósum samkvæmt sannfæringu, ekki endurnýttum kosningaloforðum
15.10.2024 | 00:49
Það er ekki annað hægt en að gleðjast yfir því að fá að kjósa nýja fulltrúa á Alþingi. Þeir sem nú verma þar stólana eru kannski ekki besti kosturinn. Verra er þó að hugsa til þess að sennilega verða sömu menn í framboði og einhverjir þeirra munu ná kjöri, jafnvel þó vit þeirra á stjórnskipan og virðing fyrir stjórnaskránni sé af skornum skammti, eins og sást í Silfri kvöldsins.
En hvað um það, við fáum að kjósa. Það er alltaf gleðilegt, ekki síst eftir algera stöðnun á öllum sviðum þetta stutta kjörtímabil. Þar kemur einkum til ósætti milli stjórnarflokkanna, enda þeir í meirihluta og hafa alfarið með dagskrá Alþingis að gera. Það er eðli lýðræðisins.
En hver verða svo kosningamálin? Gamlar kreddur munu hljóma í eyrum okkar sem aldrei fyrr, kreddur sem stjórnmálamenn hafa aldrei staðið undir þegar á þing er komið. Stefnumál flokkanna eru flestum kunn, alla vega þeim sem hafa áhuga á að kynna sér þau, nú eða hafa haft eyrun opin fyrir kosningar. Þau hafa lítið breyst síðustu árartugi. Samt er eins og stjórnmálamenn gleymi þeim fljótt þegar kosningar eru afstaðnar, jafnvel þeim málum sem okkur er talin trú um að séu alger prinsipp fyrir kosningar.
Því eru það verkin sem tala og eftir þeim skal kosið. Stærstu mál þjóðarinnar í dag eru verðbólgudraugurinn, linkind gagnvart regluverki ESB, gegnum EES samninginn og svo allra stærsta málið sem varðar framtíð barna okkar og barnabarna, hvernig við ætlum að skila þeim í arf okkar fallega landi. Hvort því verði fórnað undir vindorkuver.
Auðvitað þarf að vinna bug á verðbólgudraugnum. Þar hafa stjórnvöld getað gert betur. Meðan útgjöld ríkisins fá að blómstra sem aldrei fyrr er lítil von til að sá draugur verði kveðinn niður.
Linkind okkar til að standa vörð um sjálfstæði okkar hefur aldrei jafn mikil og nú síðustu ár. Dekur við EES/ESB hefur náð nýjum hæðum og má kannski segja að frumvarp um innleiðingu bókunar 35 við EES samninginn beri þar hæst. Einnig hefur fylgispekt við ESB vegna ýmissa mála er sögð eru varnar því að jörðin brenni, eins og einn fyrrum ráðherra nefndi á einhverri ráðstefnu um það mál erlendis, verið okkur dýrkeypt og á eftir að kosta okkur mikið. Það átti aldrei að samþykkja annað en að til greina væri tekið hvaða árangri við værum búin að ná í orkuskiptum, áður en það orð komst í tísku.
Af sama meiði er svokölluð vindorka. Einkver mest mengandi orkukostur sem þekkist í dag, bæði sjónrænt en ekki síður fyrir umhverfi sitt, bæði nær og fjær. Þó er það svo að fráfarandi ríkisstjórn hefur róið öllum árum að því að hér verði komið upp slíkum óskapnaði, því meiri því betri. Ráðherrar hafa jafnvel sagt að einfalda þurfi regluverkið svo flýta megi þeirri landeyðingu. Auðvitað er vitað að sumir ráðherrar hafa beinan hag af þeim ósköpum, en aðrir hefðu átt að sjá ruglið.
Vindorkuver berjast í bökkum erlendis, þó orkuverð þar sé margfalt hærra en hér á landi. Þó virðist umræðan hér snúast fyrst og fremst um hvernig ágóðanum skuli skipt. Hvaða helvítis ágóða?!
Ef ekki er hægt að reka þessi orkuver með ágóða þar sem orkuverð er margfalt hærra en hér á landi, hvernig ætla menn þá að fá einhvern ágóða hér? Með því að hækka orkuverðið? Það þarf þá að hækka mikið!
Ég hvet alla til að skoða verk stjórnmálamanna áður en merkt er við á kjörseðilinn. Skoða hvernig þeir hafa staðið vörð lands og þjóðar og ekki síst hvernig þeir hafa talað um vindorkuna og eyðingu náttúru okkar af hennar völdum. Ekki væri verra ef fólk nennti að leggja á sig smá skoðun á hagsmunum hvers frambjóðenda af þeirri óværu.
Munið bara að kosningavaðallinn er endalaus, endurunninn eins og alltaf. Það er til lítils að kjósa samkvæmt honum. Skoðum verkin, skoðum hver hefur talað fyrir að færa ESB valdið yfir okkar lögum, skoðum hverjir hafa mest unnið að vindorku og vilja flýta henni sem allra mest, skoðum hvernig til hefur tekist í fjármalum ríkissjóðs, sem rekinn er með þvílíku tapi að annað eins hefur aldrei sést.
Verið óhrædd að spyrja frambjóðendur allra flokka, ef þið komist í tæri við þá. Spyrjið þá um hver hugur þeirra er til þessara mála, vindorkunnar, fylgispektina við ESB og rekstur ríkissjóðs. Spyrjið þá um hagsmuni þeirra til þessara mála, einkum vindorkunnar.
Gangið síðan að kjörborðinu og kjósið samkvæmt eigin sannfæringu, ekki endurnýttum kosningaloforðum!
Bjarni mun biðjast lausnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)