Stefnubreyting?
28.9.2023 | 09:00
Eru stjórnvöld að taka nýja stefnu í loftlagsmálum? Umhverfisráðherra kynnti fyrir stuttu nýja skýrslu, "Loftlagsþolið Ísland", þar sem virðist sem stefnan sé tekin á að aðlagast loftlagsbreytingum í stað þess að reyna að berjast gegn þeim. Eða er ráðherra kannski bara farinn að undirbúa sig fyrir næstu kosningar?
Reyndar er þessi skýrsla skrifuð eftir vinnu 300 einstaklinga í 13 "vinnustofum", svona eitthvað sovéskt fyrirbrigði, þannig að sennilega er hvorki hugur né hönd ráðherrans nærri þeim markmiðum sem þarna voru kynnt. Þá verður að segjast eins og er að hugmyndir skrifstofustjóra Veðurstofunnar, um endurreikning og aðlögun upplýsinga eitthvað sem erfitt er að átta sig á, að þar sé verið að spila hættuspil.
Ráðherra er hins vegar ekki í neinum efa um að þjóðaröryggi landsins sé undir í þessum málaflokk. Þó sé enn nægur tími til stefnu, ekki nein krísa. Að verkefnið sé einungis sem löng brekka sem komast þurfi upp.
Í annarri örlítið nýrri frétt er ráðherrann hins vegar kominn í gamla farið aftur, farinn að tala um baráttu gegn veðurbreytingum, í stað þess að ræða aðlögun að þeim. Þar kynnir hann eflingu loftlagsráðs.
Það væri gott ef ráðherrann gæti ákveðið sig. Það skiptir jú verulegu máli hvort við ætlum að reyna að breyta veðrinu eða aðlaga okkur að því. Litlar líkur eru á að fyrri kosturinn sé geranlegur en þann síðari er augljóslega framkvæmanlegur, hvort heldur er til þess að veður hlýni eða kólni. Báðir þessir möguleikar munu kosta landsmenn aukin fjárútlát, aukna skatta. Kosturinn við þann síðari er þó að þeir aurar munu kannski nýtast meira hér innanlands, meðan fyrri kosturinn mun koma andlitslausum erlendum aðilum best, mun flytja fé í miklu mæli úr landi.
Vonandi er þetta hringl ráðherrans ekki bara kosningabaul. Vonandi er hann farinn að átta sig á að við breytum ekki veðrinu, þó vissulega við getum aðlagað okkur að breyttum veðuraðstæðum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)