Spilling Pírata
13.5.2023 | 23:32
Samkvæmt heimasíðu Pírata var þessi stjórnmálaflokkur stofnaður 2012. Fyrst sem stjórnmálaafl án einkenna stjórnmálaflokks en er orðinn að hörðum og spilltum stjórnmálaflokki.
Þeir sem muna stofnun flokksins, muna væntanlega fyrir hvað hann var stofnaður og hvert grunngildið skyldi vera. Þeim sem brestur minnið er hægt að benda á að flokkurinn var stofnaður sem afl gegn svokölluðum fjórflokki og þeirri spillingu sem talin var gerjast innan þeirra flokka. Meint spilling í stjórnmálum var því kveikjan að stofnun Pírata. Þetta er gott að hafa í huga.
Þó er það svo að eini alþingismaðurinn sem siðanefnd Alþingis hefur dæmt fyrir brot á siðareglum þingsins er þó úr röðum þingmanna Pírata. Nú er annar þingmaður flokksins gerður ber að því að gæta einkahagsmuna í nefnd Alþingis. Starfaði áður sem lögmaður og tók að sér málefni einstaklinga. Sum þeirra mála gengu ekki fram, eftir þeirri lögfræðilegu leið sem lögfræðingurinn þurfti að starfa eftir. Eftir að hafa hlotið brautargengi inn á Alþingi nýtti þessi þingmaður Pírata hins vegar stöðu sína til afgreiðslu þessara mála þar.
Varla verður spillingin tærari og hlýtur þessi framganga þingmannsins að koma fyrir siðanefnd Alþingis. Í öllu falli er deginum ljósara að þingmenn Pírata eru engir eftirbátar annarra þingmanna í spillingu, mun freka hægt að segja þá leiðandi á því sviði.
Hitt er svo nokkuð umhugsunarvert, að þrátt fyrir að siðanefnd Alþingis hafi dæmt þingmann brotlegan á siðareglum, starfar hann enn sem þingmaður. Fáir hafa verið ötulli við kröfur um afsagnir þingmanna við hin minnstu tilfelli en einmitt Píratar og þar hefur hinn dæmdi þingmaður flokksins ekki látið sitt eftir liggja.
Þessi stjórnmálaflokkur hefur algerlega fyrirgert trausti kjósenda. Þeir sem kjósa svona fólk á þing, fólk sem ekki sér sóma sinn í að hverfa á braut eftir að hafa fengið á sig dóm siðanefndar og fólk sem leynt og ljóst nýtir aðstöðu sína á þingi sér sjálfu til framdráttar, ættu að skoða hug sinn vandlega. Grunngildi flokksins eru fallin og það sem verr er, þingmenn flokksins eru orðnir spilltari en þingmenn annarra flokka.
![]() |
Vandræði í veitingu þings á ríkisfangi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)