Vanhæfni í rekstri olíufélaga?

Grátklökkur forstjóri eins af olíufélögum þessa lands mætti í viðtal á sjónvarpsrás rúv í gærkvöldi. Taldi hann illa vegið að olíufélögunum hér, sér í lagi af hálfu framkvæmdastjóra FÍB.

Forstjórinn sagði að hér á landi væri einungis notað hreint eldsneyti og að skattar væru háir. Því væri alls ekki hægt að bera saman eldsneytisverð hér á landi við verð á eldsneyti erlendis. Við þessa er ýmislegt að athuga. 

Erlendis er eingöngu hreinsað eldsneyti selt af dælum, enda fáir bílar, ef einhverjir, búnir getu til að aka á óhreinsuðu eldsneyti. Því er sá samanburður vel hæfur. Um skatta er það að segja að t.d. í Danmörku, en verð eldsneytis þar var grunnur að fréttatilkynningu FÍB, eru skattar sambærilegir við það sem hér er. Því er sá samanburður einnig vel hæfur.

Þó keyrði um þverbak þegar forstjórinn var þráspurður um fákeppni olíufélaganna. Það taldi hann fráleitt, enda fjögur olíufélög í landinu og fimmti eldneytissalinn að auki. Samt sagði hann að öll þessi olíufélög sem sæju um innflutninginn, versluðu við sama birgja erlendis. Hver er þá samkeppnin?

Þá er spurning hvað breyttist við covidið. Var olían eitthvað minna hreinsuð fyrir það? Skattar hafa vissulega hækkað, rétt eins og í Danaveldi og samkeppnisstaðan hér er söm. Þó er álagningin nú margfalt meiri en hún var fyrir covid.

Eftir stendur að hagnaður olíufélagana hér hafa dregist saman um helming, að sögn forstjórans. Ef svo er, þegar séð er svo ekki verður um villst að álagning þeirra hefur aukist til muna, er ekki nema eitt í stöðunni.

Íslensku olíufélögin eru rekin af vanhæfu fólki!


Bloggfærslur 11. apríl 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband