Verð raforku
26.10.2022 | 19:23
Það er með ólíkindum að erlendir fjármálamenn skuli vilja nota sitt fjármagn til uppbygginu vindorkuvera á Íslandi. Í samantekt Hagstofunnar kemur fram að af norðurlöndum er raforkuverð langlægst á Íslandi.
Raforkuverð í Noregi, meðalverð, er 40% hærra en hér á landi. Enn meiri munur ef tekið er viðmið af suður og vestur hluta Noregs, eða þeim hluta er tengist meginlandi Evrópu.
Raforkuverð í Finnlandi er 60% hærra en hér á landi.
Raforkuverð í Svíþjóð er 100% hærra en hér.
Og raforkuverð í Danmörku 440% hærra en hjá okkur.
Hvers vegna leita þessir erlendu fjármálamenn ekki með sitt fé í byggingu vindorkuvera þar sem verðin eru hæst? Það er engin hætta á þeir séu að stunda einhverja þegnstarfsemi fyrir okkur Íslendinga, menn græða lítið á því. Það er ekki nema ein skýring, þeir vita að hingað mun verða lagður sæstrengur, frá meginlandi Evrópu. Þeir vita að þá mun orkuverð hér hækka verulega, þrefaldast eða fjórfaldast. Þeir vita líka að að þegar starfsmenn ACER hér á landi hafa komið á markaði með orkuna, munu þær reglur gilda að jaðarverð mun ráða orkuverðinu, þ.e. sá orkukostur sem dýrastur er mun verða leiðandi í raforkuverði.
Þá ættu menn að skoða hvernig hlutfallsleg vindorkuframleiðsla er í hverju af þessum löndum og bera saman við orkuverðin í þeim. Þar eru Danir með langmestan hluta af sinni orkuframleiðslu í vindorku, Svíar koma þar næst og síðan Finnar. Jafnvel þó sprenging hafi orðið í vindorkuframleiðslu í Noregi er hlutfall hennar enn lítið af heildarorkuframleiðslu þeirra.
Því er ljóst að markaðskerfi ESB á orku, sem ACER stjórnar, mun eitt og sér hækka orkuverð hér á landi með tilkomu vindorkuvera, því fleiri þeim mun meiri hækkun. Það dugir þó ekki þessum erlendu fjármálamönnum, þeir verða að rjúfa einangrun landsins frá orkumarkaði Evrópu, með sæstreng. Einungis þannig er einhver glóra í því að reisa hér vindorkuver, með risastórum vindtúrbínum.
![]() |
Rafmagnið langódýrast á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)