Íslenskir lukkuriddarar fyrir erlenda vindbaróna
16.10.2022 | 02:01
Mætti á fund í vikunni, þar sem umræðuefnið var vindorka. Bar hann yfirskriftina "Vindmillur fyrir hverja? til hvers?"
Þetta var fróðlegur fundur en frummælendur voru Bjarni Jónsson, rafmagnsverkfræðingur, Kristín Helga Gunnarsdóttir, rithöfundur, Ólafur Ísleifsson, fyrrverandi þingmaður og Arnar Þór Jónsson, lögfræðingur. Erindi þeirra voru bæði fróðleg og vöktu upp ýmsar spurningar. Vonandi að áframhald verði á fundum þessa hóps, enda ljóst að áhugi fyrir málefninu fer vaxandi.
Það er erfitt að sjá hver kostur við vindorku á Íslandi er, ef frá er skilinn hugsanlegur ávinningur þeirra erlendu aðila er að þeim virkjanahugmyndum standa. Og þó er enn erfiðara að átta sig á hvers vegna erlendir fjármálamenn, sem vilja ávaxta sitt fé í orkuframleiðslu, velja að koma hingað til lands í þeim tilgangi. Orkuverð hér á landi er með því lægsta sem þekkist í Evrópu, meðan orkuverð á meginlandinu er í hæstu hæðum. Fjármálamenn vilja jú ávaxta sitt fé og leita ætíð bestu leiða til þess. Því liggur beinast við fyrir þessa menn, vilji þeir fjárfesta í vindorku, að gera það á meginlandinu. Miðað við kostnað í peningum talið, er ljóst að lítill ef einhver ágóði fellur til þeirra hér á landi, meðan ljóst er að veski þeirra gætu bólgnað verulega ef þeir nýttu sinn pening þar sem orkuverð er margfalt hærra. Þarna er eitthvað stór undarlegt í gangi.
Nokkur atriði geta leitt til skýringa á þessu. Í fyrsta lagi gæti verið á íslensku lukkuriddararnir séu að nýta sér þessa erlendu vindbaróna, sér til hagsbóta. Í öðru lagi gæti verið að þessir erlendu vindbarónar viti að stutt sé í lagningu sæstrengs til landsins og að orkuverð hér fari á sama plan og á meginlandinu, telji auðveldara að fífla íslenska sveitarstjórnarmenn en þá erlendu, sem þekkja orðið til vindmilla og þeirra ókosta. Í þriðja lagi gæti verið að þessir erlendu vindbarónar, í samstarfi við íslensku lukkuriddarana, telji að styrkjakerfi ESB muni hjálpa þeim við uppbygginguna, þannig að þeir þurfi bara að hugsa um ágóðann. Hverjar sem ástæður þessara fjármálamanna er, þá er ljóst að kostnaður við vindorkuver er ekki bara mældur í peningum.
Vindorkuver eru í eðli sínu mjög áberandi. Reyndar gera lukkuriddarar vindbarónanna lítið úr þeim þætti, tala gjarnan um vindlundi, vindskóga og svo framvegis. Eðlilegast er að kalla þessi fyrirbæri réttu nafni, orkuver. Þetta eru orkuver og ekkert annað, með öllu því sem slíkum iðnaði fylgir. Vindorkuver eru þó sú mynd orkuvera sem verst er fyrir landið og fyrir okkur Íslendinga er fátt verðmætara en landið okkar. Þetta ber hverjum stjórnmálamanni að standa vörð um, hvort heldur er í sveitarstjórnar- eða landsmálapólitík. Þetta ber hverju mannsbarni á Íslandi að standa vörð um! Það eru því ekki krónur og aurar sem eiga að ráða för í ákvörðunum um hvort hér eigi að virkja vindinn, heldur náttúran okkar. Hún er það sem við eigum og henni ber okkur skilda að skila svo hreinni sem hugsast getur til komandi kynslóða.
Í máli Bjarna kom m.a. fram að landþörf vindorkuver er mikil, að flatarmáli. Ef rennslisvirkjun er sett á gildið 1.0, það er að 1.0 er gildi fyrir ákveðna orkueiningu, er landnotkun vatnsorkuvers með miðlunarlóni 1.67 á sömu orkueiningu. Jarðgufuvirkjun er með landnotkun 5.0 á þá orkueiningu en til að framleiða sama magn orku úr vindi er landnotkun 16.7. Það er s.s. 16.7 meiri þörf á landi til framleiðslu ákveðinnar einingar að orku en rennslisvirkjun þarf og 10 sinnum meira land til virkjana á vindi en þarf til virkjana á vatni með uppistöðulóni. Þetta eru svo hrópandi tölur að engu tali tekur. Fullt Hálslón er 57 km2. Til að virkja vind til jafns við Kárahnjúkavirkjun þarf því 520 km2!. Fyrirhuguð Hvammsvirkjun verður með 4 km2 lóni, að stórum hluta þar sem áin rennur nú þegar. Það þarf því 40 km2 á þurru landi til að virkja vind til samræmis við Hvammsvirkjun. Þarna er einungis talað um flatarmálið. Lón er í sjálfu sér ekki mikil sjónmengun, þó vissulega sé sárt að missa land undir vatn. Í sumum tilfellum getur það fegrað umhverfið og innan ekki margra ára er það lón orðið að hluta landslagsins. Það myndi sennilega fáir verða hrifnir af því ef Þingvallavatn yrði fært til sömu stærðar og það var fyrir virkjun þess. Vindmillur eru hins vegar eitthvað sem aldrei mun falla að landslaginu, sér í lagi þegar um þær hæðir þeirra er að ræða sem hugmyndir eru um,, um og yfir 200 metrana. Í umhverfisáætlun Zephyr sem það sendi umhverfisstofnun, fyrir vindorkuver á Brekkukambi (650metra hár), er gert ráð fyrir að vindmillur geti orðið 246 metra háar. Svona til að sjá aðeins samhengið þá er Hallgrímskirkjuturn 74.5 metrar á hæð.
Íslensku lukkuriddarar erlendu vindbarónana tala mikið um nauðsyn þess að auka raforkuframleiðslu hér á landi, svo markmiðum stjórnvalda í loftlagsmálum verði náð. Það er rétt, ef þeim markmiðum skal náð, án þess að skerða lífskjör landsmanna, þarf að virkja meira. En hvers vegna í ósköpunum ættum við að velja þar versta kostinn?! Er einhver glóra í því að fórna stórum hluta landsins undir vindorkuver, með öllum þeim göllum sem þeim fylgja, meðan enn eru nægir kostir til vatns- og gufuvirkjana? Ég er enginn talsmaður þess að sökkva landinu undir vatn, en í samanburði við vindorkuna er sá kostur þó mun skárri. Orkuskipti kalla á meiri raforku, til að halda uppi lífskjörum okkar þarf meiri raforku og vegna fjölgunar landsmanna þarf aukna raforku. Meðan nægir viðunandi kostir til vatns- og gufuvirkjana eru fyrir hendi, á ekki einu sinni að horfa til vindorkunnar. Þá umræðu eigum við ekki að þurfa að taka fyrr en þrengja fer að öðrum kostum. Hugsanlega er þá komin einhver tækni sem gerir með öllu óþarft að hugleiða vindorkuna, nú eða einhver kostur til virkjunar hennar án þess að reisa þurfi risa vindmillur á miklu landsvæði.
Það er tvennt sem fólk ætti að hugleiða, svona í alvöru. Hvers vegna velja erlendir fjármálamenn Ísland til vindorkubygginga, þegar ljóst er að þeir fá mun meiri ávöxtun á sitt fé með því að byggja slík orkuver á meginlandi. Og hvers vegna ætti að velja versta kostinn við aukna framleiðslu á raforku í landinu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)