Ómarktækir menn

Forgangsorka og afgangsorka eru hugtök sem gjarnan heyrast í fréttum. Þetta eru tveir ólíkir kostir, forgangsorka er orka sem keypt er í þeirri trú að hún sé ekki skerðanleg og borgað hærra verð fyrir og hins vegar afgangsorka sem raforkufyrirtækin selja á lægra verði og geta skert þegar þörf er á. Nú er staðan orðin sú að útlit er fyrir að skerða þurfi forgangsorkuna, að ekki sé næg afgangsorka í kerfinu til að taka á móti áföllum. Ástæðan sögð vera erfitt veðurfar og skortur á vatni í miðlunarlónum, auk þess sem dreifikerfið er sagt lélegt.

Vissulega má taka undir að dreifikerfi orkunnar um landið er komið af fótum fram, enda stór hluti þess nálægt því hálfrar aldar gamalt. Þetta eru engin ný sannindi, nánast nóg að vind hreyfi til að einhverjir hlutar þess gefi sig. Skemmst er að mynnast er stór hluti norðurlands varð rafmagnslaus í marga daga vegna óveðurs. Það er reyndar umhugsunarvert hvernig stjórnvöld hugsa sér að framkvæma orkuskipti hér á landi meðan dreifikerfið getur ekki haldið uppi annarri nauðsynlegri þjónustu, svo sem að halda raforku á sjúkrastofnunum. Orkuskortur verður hins vegar ekki leystur með bættu dreifikerfi, einungis hægt að jafna þannig skerðingar yfir landið.

Hitt er alvarlegra, en það er staða miðlunarlóna. Þar getur tvennt komið til, annars vegar minna innstreymi í lónin yfir sumartímann og hins vegar meira útstreymi úr þeim á þeim tíma er verið er að safna byrgðum. Rafmagnsframleiðsla meiri en efni standa til.

Stærstu miðlunarlónin okkar tengjast Vatnajökli. Vart verður sagt að sumarið í sumar hafi verið einstaklega óhagstætt hvað veðurfar snertir. Á norðanverðum jöklinum var einstaklega hlýtt og að sunnanverðu nokkuð úrkomusamt. Hvor tveggja ákjósanleg veðurskilyrði til vatnsframleiðslu jökulsins. Í það minnsta er ekki hægt að tala um neinar hamfarir í veðurfari og fráleitt að reyna að skella skuldinni á það. Því hlýtur ástæðan frekar að liggja í að útstreymi úr lónunum, yfir sumartímann sé meira en núverandi lón ráða við. Að orkusalan sé meiri en framleiðslugetan.

Orkunotkun landsmanna hefur aukist, um það þarf svo sem ekki að deila. Hitt er líka ljóst að orkunotkun mun aukast enn frekar á komandi árum. Ef síðan ætlunin er að fara í orkuskipti, eins og stjórnvöld hafa boðað og eru í raun hafin að litlu leyti, þá mun orkunotkun landsmanna aukast verulega á næstu árum. Til að mæta þessu þarf annað hvort að stækka miðlunarlónin eða nýta betur það vatn sem nú er verið að virkja. Virkjanir neðar í Þjórsá eru nærtækasta lausnin til að nýta það vatn sem þegar er virkjað. Síðan þarf að horfa til annarra kosta, svo sem nýrra virkjana í nýjum stöðum, að dreifa áhættunni.

Afgangsorka á að vera til að taka við stórum áföllum, hvort heldur er í veðurfari, framleiðsluferli eða dreifikerfi. Því má afgangsorka í raun aldrei verða fullnýtt. Ætíð þarf að vera til afgangsorka í kerfinu, jafnvel þó áföll skelli á. Lögmál Murphys er oft sterkt, eins og sýndi sig nú á dögunum, en daginn eftir að forstjóri Landsvirkjunar tilkynnti um miklar skerðingar á orkusölu, vegna lélegra stöðu miðlunarlóna, kom hann aftur í fjölmiðla til að tilkynna að ein eining í framleiðsluferlinu hefði bilað. Nokkrum dögum síðar tilkynnir annað orkufyrirtæki um bilun hjá sér. Því þarf afgangsorka ætið að vera næg, ef ekki á illa að fara. Við getum rétt ímyndað okkur ástandið, eftir orkuskiptin, ef bílaflotinn, skipaflotinn og jafnvel flugflotinn verður að stoppa vegna orkuskorts í landinu!

Það er skammt síðan Hörður Árnason, forstjóri Landsvirkjunar, talaði fyrir því að við þyrftum að leggja sæstreng til útlanda, svo selja mætti afgangsorkuna sem væri að fylla raforkukerfi landsmanna. Enn styttra er síðan Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, fullyrti í fjölmiðlum að næg orka væri til í landinu og að ekki þyrfti að virkja vegna orkuskiptanna. Þarna töluðu forstjórar tveggja stærstu orkuframleiðenda landsins og þó stöndum við nú frammi fyrir orkuskorti og það áður en orkuskipti er í raun hafin.  Eigendur þessara fyrirtækja, landsmenn og höfuðborgarbúar, hljóta að krefja þá um skýringar á þessum ummælum sínum, í ljósi stöðunnar. Þessir menn er vart marktækir og alls ekki starfi sínu vaxnir!

Ef ætlun stjórnvalda er að standa við þau orð sem fallið hafa af munni þeirra, bæði innanlands og erlendis, um orkuskipti, er ljóst að efla þarf raforkuframleiðslu verulega og bæta þarf dreifikerfið, bæði milli landshluta sem og innan byggða. Miðað við þau markmið sem boðuð eru á sviði orkuskiptanna og miðað við þann gang sem er í orkuöflun og orkudreifingu, verður ekki séð að hljóð og mynd fari saman. Reyndar líkara því að horfa á gamla þögla mynd!

Fyrsta og stærsta skrefið væri að endurheimta yfirráð yfir framleiðslu og nýtingu orkunnar okkar, úr höndum ESB.

 

 


mbl.is Frekari skerðingar á næsta ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. janúar 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband