Áburðarkaup bænda

Áburðarverð hefur rúmlega tvöfaldast og ríkisstjórnin lofar 700 milljónum króna til hjálpar bændum. Þessi "rausnarlega" aðstoð mun þó lítið segja og ljóst að margur bóndinn mun ekki geta staðið undir áburðarkaupum sínum. Í viðhengdri frétt er sagt að draga þurfi verulega úr áburðarnotkun. Það gæti reynst þyngri þrautin, enda flestir bændur búnir að keyra sín bú á eins lítilli áburðarnotkun og mögulegt er. Þar kemur einkum til að afurðarverð hefur verið langt frá því sem talið getur eðlilegt.

Að draga enn frekar úr áburðarnotkun þýðir það eitt að bændur verða að skerða stofn sinn að hausti. Heyfengur verður einfaldlega ekki nægur. Eina vopn bænda til að minnka áburðarnotkun er stækkun túna. Slík stækkun er ekki gerð á einu ári og kallar reyndar á aukin áburðarkaup, meðan ræktun þeirra er náð. Svo þykir víst ekki góð pólitík í dag að þurrka upp mýrar, til túngerðar.

En skoðum aðeins "hjálp" stjórnvalda. Heilar 700 milljónir eru ætlaðar til bænda. Reyndar eru áhöld um hvernig þessum aurum skuli úthlutað og virðist ráðherra vera með einhverjar flóknar hugmyndir þar um, svona upp á sovéskan máta. En gæfum okkur nú að ráðherra auðnaðist að fara einföldustu og réttlátustu leiðina, að deila þessu einfaldlega niður á keypt tonn af áburði. Á síðasta ári voru flutt inn rúmlega 54 milljónir tonna af áburði. Eins og fyrr segir má gera ráð fyrir að bændum sé erfitt að minnka það magn, hugsanlega þó eitthvað vegna þeirra bænda sem einfaldlega hætta búskap. Gefum okkur að innkaupin muni verða 50 milljónir tonna, að um 8% bænda hætti búskap. Þá mun þessi "hjálp" stjórnvalda lækka verð á hverju tonni áburðar um 14 þúsund krónur, en samkvæmt verðskrám mun verðið nú í vor verða frá 125 - 140 þúsund tonnið, var í fyrra um 60 - 70 þúsund tonnið. Bóndinn þarf því að greiða 50 - 60 þúsund krónum meira fyrir tonnið nú, eftir að "hjálp" stjórnvalda kemur til.

Þar sem áburðarkaup eru einn stærsti liður í rekstri búa er ljóst að þetta högg er stærra en flestir bændur ráða við. Því verða stjórnvöld að sýna þessu máli örlítið meiri skilning og auka þessa aðstoð verulega, ef ekki á illa að fara. Að öðrum kosti má allt eins leggja niður innlendan landbúnað, landinu og þjóðinni til skelfingar, en verslun og þjónustu til gleði.


mbl.is Draga þarf verulega úr áburðardreifingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. janúar 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband