Formenn sperra sig
1.9.2021 | 00:51
Ég glaptist til að horfa á formenn stjórnmálaflokkanna sperra sig í sjónvarpinu. Þeim tíma hefði betur verið varið í annað.
En maður verður jú að vera upplýstur, það eru víst að koma kosningar svo betra er kannski að vita hvar maður á að setja X á seðlinum. Eftir þennan þátt er maður lítt betri í kollinum á því sviði, froðusnakkið með eindæmum milli þess sem gamalgróin loforð voru flutt, loforð sem svo gleymast daginn eftir kosningar en dregin aftur upp úr hattinum þegar þær næstu nálgast.
Það sem þó kom kannski mest á óvart var hvernig formaður Viðreisnar opinberaði fákunnáttu sína og það um eina málið sem sá stjórnmálaflokkur var stofnaður um, ESB. Hún ætlar að semja við ESB um aðild Íslands að sambandinu! Það veit hvert mannsbarn, sem eitthvað hefur kynnt sér sambandið, að umsóknarríki semja ekki um aðild, enda slíkt óframkvæmanlegt fyrir ESB. Það er útilokað fyrir ESB að semja við umsóknarríki, þar sem lög þess ná yfir 27 lönd. Það þyrfti þá að breyta lögum í hverju aðildarríki til að þóknast umsóknarríkinu. Það sér hver maður að það gengur einfaldlega ekki upp. Því er skýrt í Lissabonsáttmálanum að umsóknarríki verði að aðlaga sig að lögum og reglum ESB, vilji það inngöngu. Einungis hægt að semja um hversu langan tíma sú aðlögun þurfi að taka. Það er magnað að fólk sem hefur slíka tröllatrú á ESB skuli ekki einu sinni gera sér grein fyrir einföldum staðreyndum, eða þekkja Lissabonsáttmálann, sem er einskonar stjórnarskrá sambandsins.
Þar sem formaður Viðreisnar hefur haldið því fram að aldrei muni verða gefið eftir í sjávarútvegsmálum, getur hún gleymt frekari viðræðum við ESB um inngöngu Íslands. Hún þarf ekki annað en að spyrja það fólk sem var við stjórnvölin þegar síðustu viðræður sigldu í strand, sumarið 2012, á hverju hafi strandað!
Ef einhver formaður sýndi þarna yfirvegun var það formaður Miðflokksins. Hann þurfti ekki að hækka róminn eins og hinir.
![]() |
Peningum ausið út í loftið í loftslagsmálum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)